Talsmenn Hafrannsóknastofnunar vara við því að veiða þorsk, 1) þegar hann er vænn, því að „þá verðum við af öllum þeim vexti, sem þessir einstaklingar hefðu tekið út, ef þeir hefðu ekki verið „grisjaðir burt“,“ 2) þegar hann er vannærður, því að þá á hann eftir að taka út vöxt, 3) áður en hann er kynþroska, því að fyrst verður hann að fá að auka kyn sitt og 4) þegar hann er kynþroska, því að hann verður að fá að hrygna. Það er ekki nema von, að sjómenn sem lengi hafa fengið að heyra viðvaranirnar, séu samviskubitnir að störfum.

Það er sveltistefna að varast að veiða þorsk á hvaða aldri sem er og að leyfa ekki veiðarfæri, sem hirða ófiski, sem keppir við hann um fæðu. Sú stefna leiðir með rökum til þess, að þorskstofninn verður illa staddur, eins og nú er raunin. Það breytir því ekki, þótt þorskur á líðandi stund kunni að hafa sæmilegt fæði, það eru lífsskilyrði allra árganga frá upphafi, sem ráða ástandi stofnsins.

Ég tók fullt mark á varúðarráðum Hafrannsóknastofnunar, þar til glöggir fyrirlesarar á fundi Líffræðifélagsins 1984 kenndu mér, að þau væru vanhugsuð. Mig hefur síðan undrað, að þau grundvallarrök sem þeir bentu á — um æxlun, sem skilar margfalt fleiri einstaklingum en lífs er auðið og um sumt, sem leið náttúrunnar til að takmarka stofnstærð — skyldu ekki virt af Hafrannsóknastofnun. Einn þeirra líffræðinga, sem ég leitaði til til frekari skilnings er Kristján Þórarinsson (KÞ) stofnvistfræðingur. Hann orðaði störf Hafrannsóknastofnunar þannig við mig í vor og ég notaði opinberlega með velþóknun hans: „Sá stofnvistfræðingur mun vandfundinn, sem ekki telur hugmyndir Hafrannsóknastofnunar um hæfilegt aflamagn sem reistar á sandi."

Það bar til tíðinda í vor, að Landssamband íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) réð KÞ til að vera til ráðuneytis um tillögur Hafrannsóknastofnunar um veiðihætti. Okkur KÞ og öðrum samherjum í þessu máli var þetta mikið fagnaðarefni. Hann vænti þess, að við hinir, sem höfðum opinberlega gagnrýnt rök Hafrannsóknastofnunar, héldum því áfram. Síðan hefur okkur skoðanabræðrum og samherjum fjölgað svo um munar.

Ég þóttist geta ráðið af ummælum manns nokkurs, sem var reyndur í stjórnmálum, útgerð og fjármálum, að hann vantreysti Hafrannsóknastofnun. Ég sagði honum frá ráðningu KÞ. Hann hafði enga trú á því, að það gæti endað með því að Kristján Ragnarsson, formaður LÍÚ, sem lengi hefði tekið undir rökstuðning Hafrannsóknastofnunar, skipti um skoðun. Það hlyti að enda með því, að KÞ yrði rekinn eða hann beygði sig fyrir nafna sínum. Ég taldi KÞ einarðan mann og var sannfærður um, að hann beygði sig ekki.

Mér þótti traust mitt á KÞ fá staðfestingu, þegar hann sagði frá fundi í Lowestoft í 2. fréttabréfi LÍÚ (sbr. grein mína „Rannsóknir án réttra spurninga“ í blaðinu 26. f. m.) með þessum ábendingum: „Lítið var rætt um áhrif almennra umhverfisskilyrða og fæðuframboðs á nýliðun og náttúrulega dánartölu" og „Það, sem mér þykir e. t. v. lakast, er, hversu lítið er gert úr áhrifum umhverfisskilyrða." Ráð, sem reist eru á rannsóknum með slíkum ágöllum ásamt fleira, sem KÞ benti á í greininni, hlýtur líffræðingur að telja reist á sandi, svo að notað sé fyrra orðalag KÞ um störf Hafrannsóknastofnunar. Ég dró aðfinnslur hans hins vegar saman með orðunum „Þar áttu líffræðileg rök ekki heima."

Þá brá svo við hér í blaðinu 1. þ.m., að hann kallar það brigslyrði og að ég leggi honum í munn orð með skaðlegum hætti. Í sama blaði vill Gunnar Stefánsson tölfræðingur Hafrannsóknastofnunar líka leiðrétta margt í grein minni. Sumt af því er frá KÞ komið, svo að ég er óþarfur milliliður í umræðu líffræðings og tölfræðings, en fyrir annað kýs ég annan vettvang.

Í júní hittumst við hér á landi þrír félagar frá stúdentsárum í Noregi, tveir landar, en sá þriðji norskur og orðinn rektor Björgvinjarháskóla. Ég sá hann hrista höfuðið yfir ráðum Hafrannsóknastofnunarinnar í Björgvin. Ég fékk hann til að vísa mér á óháða málsmetandi menn í Noregi og hafði sjálfur uppi á öðrum. Þannig gekk ég úr skugga um, að Hafrannsóknastofnunin í Noregi beitir sömu vinnubrögðum og systurstofnunin hér og að óháðir stofnvistfræðingar í Noregi eru sömu skoðunar um það og lýst er með orðum KÞ hér að ofan. Árangurinn er líka eftir því. Í Barentshafi er nú mikill þorskur, en samkvæmt mati stofnunarinnar áttu þeir árgangar, sem þar koma fram, að vera alónýtir.

Tímanum 9. september 1992

Talsmenn Hafrannsóknastofnunar vara við því að veiða þorsk, 1) þegar hann er vænn, því að „þá verðum við af öllum þeim vexti, sem þessir einstaklingar hefðu tekið út, ef þeir hefðu ekki verið „grisjaðir burt“,“ 2) þegar hann er vannærður, því að þá á hann eftir að taka út vöxt, 3) áður en hann er kynþroska, því að fyrst verður hann að fá að auka kyn sitt og 4) þegar hann er kynþroska, því að hann verður að fá að hrygna. Það er ekki nema von, að sjómenn sem lengi hafa fengið að heyra viðvaranirnar, séu samviskubitnir að störfum.

Það er sveltistefna að varast að veiða þorsk á hvaða aldri sem er og að leyfa ekki veiðarfæri, sem hirða ófiski, sem keppir við hann um fæðu. Sú stefna leiðir með rökum til þess, að þorskstofninn verður illa staddur, eins og nú er raunin. Það breytir því ekki, þótt þorskur á líðandi stund kunni að hafa sæmilegt fæði, það eru lífsskilyrði allra árganga frá upphafi, sem ráða ástandi stofnsins.

Ég tók fullt mark á varúðarráðum Hafrannsóknastofnunar, þar til glöggir fyrirlesarar á fundi Líffræðifélagsins 1984 kenndu mér, að þau væru vanhugsuð. Mig hefur síðan undrað, að þau grundvallarrök sem þeir bentu á — um æxlun, sem skilar margfalt fleiri einstaklingum en lífs er auðið og um sumt, sem leið náttúrunnar til að takmarka stofnstærð — skyldu ekki virt af Hafrannsóknastofnun. Einn þeirra líffræðinga, sem ég leitaði til til frekari skilnings er Kristján Þórarinsson (KÞ) stofnvistfræðingur. Hann orðaði störf Hafrannsóknastofnunar þannig við mig í vor og ég notaði opinberlega með velþóknun hans: „Sá stofnvistfræðingur mun vandfundinn, sem ekki telur hugmyndir Hafrannsóknastofnunar um hæfilegt aflamagn sem reistar á sandi."

Það bar til tíðinda í vor, að Landssamband íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) réð KÞ til að vera til ráðuneytis um tillögur Hafrannsóknastofnunar um veiðihætti. Okkur KÞ og öðrum samherjum í þessu máli var þetta mikið fagnaðarefni. Hann vænti þess, að við hinir, sem höfðum opinberlega gagnrýnt rök Hafrannsóknastofnunar, héldum því áfram. Síðan hefur okkur skoðanabræðrum og samherjum fjölgað svo um munar.

Ég þóttist geta ráðið af ummælum manns nokkurs, sem var reyndur í stjórnmálum, útgerð og fjármálum, að hann vantreysti Hafrannsóknastofnun. Ég sagði honum frá ráðningu KÞ. Hann hafði enga trú á því, að það gæti endað með því að Kristján Ragnarsson, formaður LÍÚ, sem lengi hefði tekið undir rökstuðning Hafrannsóknastofnunar, skipti um skoðun. Það hlyti að enda með því, að KÞ yrði rekinn eða hann beygði sig fyrir nafna sínum. Ég taldi KÞ einarðan mann og var sannfærður um, að hann beygði sig ekki.

Mér þótti traust mitt á KÞ fá staðfestingu, þegar hann sagði frá fundi í Lowestoft í 2. fréttabréfi LÍÚ (sbr. grein mína „Rannsóknir án réttra spurninga“ í blaðinu 26. f. m.) með þessum ábendingum: „Lítið var rætt um áhrif almennra umhverfisskilyrða og fæðuframboðs á nýliðun og náttúrulega dánartölu" og „Það, sem mér þykir e. t. v. lakast, er, hversu lítið er gert úr áhrifum umhverfisskilyrða." Ráð, sem reist eru á rannsóknum með slíkum ágöllum ásamt fleira, sem KÞ benti á í greininni, hlýtur líffræðingur að telja reist á sandi, svo að notað sé fyrra orðalag KÞ um störf Hafrannsóknastofnunar. Ég dró aðfinnslur hans hins vegar saman með orðunum „Þar áttu líffræðileg rök ekki heima."

Þá brá svo við hér í blaðinu 1. þ.m., að hann kallar það brigslyrði og að ég leggi honum í munn orð með skaðlegum hætti. Í sama blaði vill Gunnar Stefánsson tölfræðingur Hafrannsóknastofnunar líka leiðrétta margt í grein minni. Sumt af því er frá KÞ komið, svo að ég er óþarfur milliliður í umræðu líffræðings og tölfræðings, en fyrir annað kýs ég annan vettvang.

Í júní hittumst við hér á landi þrír félagar frá stúdentsárum í Noregi, tveir landar, en sá þriðji norskur og orðinn rektor Björgvinjarháskóla. Ég sá hann hrista höfuðið yfir ráðum Hafrannsóknastofnunarinnar í Björgvin. Ég fékk hann til að vísa mér á óháða málsmetandi menn í Noregi og hafði sjálfur uppi á öðrum. Þannig gekk ég úr skugga um, að Hafrannsóknastofnunin í Noregi beitir sömu vinnubrögðum og systurstofnunin hér og að óháðir stofnvistfræðingar í Noregi eru sömu skoðunar um það og lýst er með orðum KÞ hér að ofan. Árangurinn er líka eftir því. Í Barentshafi er nú mikill þorskur, en samkvæmt mati stofnunarinnar áttu þeir árgangar, sem þar koma fram, að vera alónýtir.

Tímanum 9. september 1992