Í stofnvistfræði er gætt að áhrifum lífsskilyrða á gengi dýrastofna. Rannsóknir líffræðinga Háskóla Íslands undanfarinn aldarfjórðung hafa mótast af slíkum sjónarmiðum. Þeirra hefur hins vegar ekki gætt í mati Hafrannsóknastofnunar á gengi nytjastofna sjávar né í ráðum hennar um veiðihætti.
Líffræðingar, þar á meðal fiskifræðingar utan Hafrannsóknastofnunar, hafa átalið slík vinnubrögð, ýmist opinberlega eða manna á milli. Ingvar Hallgrímsson hjá Hafrannsóknastofnun hæðist að þeim í bréfi til blaðsins 16. september („Ísland á sér von”) fyrir „splunkunýjar kenningar” og vill senda „helstu nýkenningasmiðina” til útlanda til að skýra frá „byltingarkenndum kenningum”.
Íslenskir líffræðingar hafa ekki smíðað neinar kenningar um þessi mál, þeir hafa aðeins hagnýtt sér almennan vistfræðilegan skilning, sem er sameign fræðimanna um allan heim. Forsvarsmenn Hafrannsóknastofnunar eru vitaskuld fróðir um fiska og mega í þeim skilningi kallast fiskifræðingar, en þeir sniðganga og jafnvel afneita skilningi vistfræðinnar á samspili lífsskilyrða og viðgangs dýrastofna. Sömu sögu er að segja af hafrannsóknastofnuninni í Björgvin, það hef ég kynnt mér, og stofnun þeirri, sem Pope, hjálparhella Hafrannsóknastofnunar, vinnur hjá í Bretlandi, samkvæmt frásögn Kristjáns Þórarinssonar, stofnvistfræðings Landssambands íslenskra útvegsmanna.
Morgunblaðinu 24. september 1992 (Bréf til blaðsins)