Sérlega athyglisverð voru eftirfarandi orð Kristjáns Ragnarssonar, formanns Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ), í áramótagrein hans („Byggjum upp fiskstofnana”) í blaðinu á gamlársdag: „Það veldur miklum áhyggjum að nýliðun þorskstofnsins hafi verið langt undir meðaltali undanfarin ár og ekki er fyrir hendi vitneskja um hvað valdi.”

Nú eru liðin 9 ár, síðan líffræðingar utan Hafrannsóknastofnunar fóru að kynna þá skoðun sína, að ekki væru líffræðileg rök til þeirra aðgerða, sem stofnunin vildi, til að þorskstofninn gæti skilað sem mestum afrakstri. Formaður LÍÚ hefur iðulega lýst því, að hann beri fyllsta traust til Hafrannsóknastofnunar í þessum efnum. Nú telur hann hins vegar, að vitneskju vanti um það, hvað valdi rýrum þorskstofni. Ef svo er, vantar stofnunina vitaskuld vitneskju um, hvað til ráða er til að bæta úr.

Fleira hefur hreyfst á þessum 9 árum. Það gerðist á þingi Alþýðuflokksins í júní síðastliðnum, að svo til allur þingheimur snerist gegn forystu flokksins í sjávarútvegsmálum. Það átti ekki aðeins við fiskveiðistjórn, heldur kom líka fram fullkomið vantraust á, að Hafrannsóknastofnun kynni ráð handa stjórnvöldum. Þingið kaus 8 manna nefnd, einhuga, til að fjalla um þessi mál. Formaður hennar, Magnús Jónsson, hefur látið í ljós vantrú sína á rök og ráð Hafrannsóknastofnunar við fiskveiðistjórn.

Síðan í haust hefur verið málstofa í húsum Hafrannsóknastofnunar um þessi mál, opin mönnum utan hennar. Gunnar Stefánsson, einn helsti talsmaður stofnunarinnar, flutti erindi um viðgang fiskstofna. Eftir erindið benti Einar Árnason, líffræðikennari við Háskóla Íslands, á, að fyrirlesarinn hefði ekki leitað líffræðilegra raka til skýringar á nýliðun þorsks. Fyrirlesarinn viðurkenndi það og bætti við: „og stendur ekki til”.

Helstu líffræðileg athugunarefni varðandi viðgang fiskstofnsins eru annars vegar, hvort þorskurinn nái að tímgast, þ.e.a.s. hvort nógu margir einstaklingar verði til, og hins vegar, hvað ráði því, hvernig þeim vegnar fyrstu æviárin. Formaður LÍÚ heldur því fram, að Hafrannsóknastofnun viti ekki, hvað því valdi, að þorskurinn skilar sér illa til nytja. Málstofan hefur leitt í ljós, að stofnunin leitar ekki líffræðilegra raka, sem skýra málið.

Morgunblaðinu 2. febrúar 1993 (Bréf til blaðsins)