Hafrannsóknastofnun hefur boðað til funda víða um land til að kynna almenningi rannsóknir sínar. Yfirleitt þykir góðra gjalda vert, að fræðimenn kynni almenningi störf sín. Nú vill svo til, að beðið er þríþættrar kynningar á íslenskum hafrannsóknum, sem sjávarútvegsráðherra stofnaði til í vor, rétt eftir að Hafrannsóknastofnun hafði lýst mistökum sínum. Það þrennt, sem ráðherrann vildi, að yrði kynnt, var í fyrsta lagi, að stofnunin útskýrði mistök sín og segði, hvernig hún þættist geta bætt sig. Þá var fenginn erlendur líffræðingur til að leggja mat á fiskveiðiráðgjöf stofnunarinnar. Í þriðja lagi var stjórnandi Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna, sem er í sama húsi og Hafrannsóknastofnun, fenginn til að leggja dóm á gagnrýni, sem fram hefði komið á fiskifræði stofnunarinnar. Ekkert af þessu hefur verið birt almenningi. Á meðan svo er, er ruglandi að boða almenning á kynningarfundi. Þegar hin þríþættu svör hafa verið birt þarf að gefa Hafrannsóknastofnun og þeim, sem sett hafa fram gagnrýni á hana, og öðrum ráðrúm til að meta svörin og bregðast við þeim. Þá fyrst fer að nálgast efni til ályktunar.
Morgunblaðinu 24. október 2001 (Bréf til blaðsins)