Ráðherrar vilja taka afstöðu til mikils fjölda vandasamra mála. Þeir leggja óheyrilega vinnu á suma starfsmenn stjórnarráðsins, sem undirbúa málin. Það virðast ekki vera nein takmörk fyrir því, hvað ráðherrar mega leggja mikla vinnu á sjálfa sig og ráðgjafa sína. Það virðist síst betra en hjá sjálfum löggjafanum, Alþingi, sem setur lög um vinnuvernd, en situr næturfundi til að taka hinar mikilvægustu ákvarðanir, sem maður hélt, að reyndu verulega á skýra hugsun, og best væri að taka vel vakandi.

Sum mál leysast best með því að koma hvergi nærri þeim. Því mætti ætla undir þessu vinnuálagi, að rökstudd ábending um, að stjórnvöld mættu átölulaust leiða hjá sér ákveðið vandamál, þætti kærkomin.

Því minnist ég á þetta hér, að í þessum rabbdálkum mátti lesa fyrir einum fjórum, fimm árum rökstudda ábendingu um, að vel mætti leiða hjá sér mál, sem talið hafði verið að varðaði þjóðarhagsmuni. Samt veldur málið forystu þjóðarinnar enn miklum áhyggjum. Um líkt leyti birtist í Morgunblaðinu grein eftir norskan mann, sem rökstuddi sömu skoðun, óháð áðurnefndu rabbi, en grein hans birtist einnig í Arbeiderbladet í Osló.

Hvaða sannleikur er þetta, sem farið hefur fram hjá þeim, sem síst skyldi? Jú, það varðar skilyrði norskrar útgerðar. Það er í fyrsta lagi sú staðreynd, að ekki fæst meiri fiskur úr sjó við Noreg með aukinni sjósókn. Af því leiðir, að norðmenn afla ekki meira þótt norsk stjórnvöld styrki útgerðarfyrirtæki með fjárframlögum. Líkur eru á, að það borgaði sig áfram að fullnýta norska fiskistofna, þótt framleiðslustyrkirnir féllu niður. Þeir hafa hins vegar áhrif á það, hvaðan sjór er stundaður í Noregi.

Hér er um að ræða takmarkaða auðlind náttúrunnar, sem endurnýjar sig sjálf. Þessir styrkir til útgerðar í Noregi eru ekki ólíkir því, að íslensk stjórnvöld legðu hreindýraveiðimönnum til vönduð skotvopn, þótt hreindýrastofninn teldist fullnýttur. Hreindýraveiðar kynnu að aukast við það fyrsta og annað árið, en ekki til lengdar. Ætti varla að þurfa að útskýra þetta frekar fyrir íslendingum, eins mikið og ofnýting auðlinda náttúrunnar hefur verið rædd undanfarin ár.

Norðmaðurinn kynnti sig í Morgunblaðsgreininni sem andstæðing styrkja í norskum sjávarútvegi, þótt hann héldi því fram, að þeir spilltu ekki fyrir íslenskum útflutningi. Hann benti einmitt á, hvað eðli bílaframleiðslu og sjávarútvegs væri ólíkt. Bílaframleiðendur heimsins geta aukið framleiðslu sína með því að kosta meira til, svo sem með því að setja upp fleiri verksmiðjur, en fiskafli við Noreg ykist ekki, þótt vönduðum veiðiskipum fjölgaði.

Að þessu leyti er landbúnaður líkur iðnaði, en ólíkur sjávarútvegi. Bændur geta aukið framleiðslu landsins með aukinni ræktun og fleiri gripum, með meiri áburði og auknum fóðurkaupum. Þess vegna geta framleiðslustyrkir eins lands spillt fyrir sölu annars lands á sama markaði. Fiskeldi líkist í þessu efni landbúnaði, en er ólíkt sjávarútvegi. Þar geta framleiðslustyrkir stuðlað að aukinni framleiðslu með fleiri stöðvum, fleiri kvíum og kerjum og meira fóðri.

Fulltrúar Íslands hafa hamrað á því, að norðmenn verði að afnema framleiðslustyrki í sjávarútvegi, til þess að íslendingar megi njóta jafnréttis á sameiginlegum mörkuðum. Sá málflutningur er samkvæmt þessu fyrirhöfn án tilefnis. Í staðinn mætti snúa sér að því, sem hlýtur að vera auðveldara, að útskýra þetta eðli málsins fyrir íslenskum sjómönnum, útvegsmönnum og almenningi. Það er aðeins fyrir ofurhuga að ætla sér að fá breytt stjórn norðmanna og raunar einnig Evrópubandalagsins varðandi sjávarbyggðir landanna.

Hitt er annað mál, að mér þykir trúlegt að norðmenn geti aukið fiskafla sinn, en ekki með framleiðslustyrkjum, heldur með annarri fiskveiðistjórn. Í áðurnefndu rabbi var röng fiskveiðistjórn norðmanna, sem drægi úr fiskafla þeirra, raunar talin í þágu íslensks sjávarútvegs, þar sem minna bærist af norskum fiskafla á markaði íslendinga vegna hennar. Varla viljum við samt rugla norðmenn í ríminu varðandi fiskveiðistjórn til að slá þá út.

Það er reyndar svo, að sama hugsun virðist hafa verið ríkjandi í fiskveiðistjórn norðmanna og íslendinga, en það er að friða smáfiskinn rækilega, og ef til vill gengu íslendingar þar á undan. Þetta leiddi til þess, þegar kom sterkur árgangur af þorski í Noregi fyrir nokkrum árum, að hann skorti æti og át því upp alla loðnu og síld, sem á vegi hans varð, og síðan meðbræður sína í stórum stíl, en var þó svo vannærður að hann náði ekki hálfum vexti. Fyrir vikið er slíkur aflabrestur við Norður-Noreg, að liggur við landauðn. Er það þorskinum að kenna?

Lesbók Morgunblaðsins 17. mars 1990 3