Kristján Þórarinsson stofnvistfræðingur Landssambands útvegsmanna (LÍÚ) fór til Lowestoft í Englandi í júlíbyrjun til að fylgjast með úttekt breta á aðferðum og ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Frá því segir hann í sjávarútvegsdilki Morgunblaðsins „Úr verinu“ 12. ágúst (Lowestoft-úttektin og ástand íslenska þorskstofnsins) með þessum inngangsorðum: „Eins og alþjóð er kunnugt varð niðurstaða bretanna sú að Hafrannsóknastofnun gæfi stjórnvöldum góð ráð.“ Hins vegar verður ekki séð af eftirfarandi ábendingu hans um aðferðir breta og Hafrannsóknastofnunar, að ráðin séu studd rökum líffræðinnar: „Lítið var rætt um áhrif almennra umhverfisskilyrða og fæðuframboðs á nýliðun og náttúrulega dánartölu.“

Samkvæmt þessu spyr Hafrannsóknastofnun ekki einföldustu spurninga um grundvallarskilyrði lífsins, svo sem hvort þorskur vex eins og hann á eðli til við nægilegt æti. Bretarnir sem upphaflega kenndu Hafrannsóknastofnun aðferðir finna vitaskuld ekki að vinnubrögðum, sem reynast eins og þeir kenndu. Slík vinnubrögð eru ekki líffræðileg á nútímavísu (vistfræðileg), en þá er leitast við að meta áhrif lífsskilyrða svo sem fæðu og annarra dýrastofna eftir viðgangi og þrifum dýranna. Snjallir stærðfræðingar með fullkomin reiknilíkön geta ekki bætt þar úr, því að þeim eru ekki fengnar til úrvinnslu athuganir um það, sem máli skiptir, þær eru ekki til.

Markmið Hafrannsóknastofnunar með stjórn fiskveiða hefur verið að hlífa ungfiskinum með það í huga, að hann skili miklu meiri afla, ef hann fær að ná fullum vexti. Sú hugsun, að fæðu kunni að skorta, hefur verið svo fjarri, að alls ekki er rannsakað, hvort fæða er nægileg, en það verður ótvíræðast kannað með því að athuga vaxtarhraða á hverju aldursstigi.

Önnur ástæða Hafrannsóknastofnunar til að byggja upp þorskstofninn er að vænn hrygningarstofn tryggi viðkomuna. Kristján hefur þetta að segja frá umræðum um það í Lowestoft:
Samband hrygningarstofns og nýliðunar var kannað og rætt í þaula. Menn töldu sig þegar sjá vísbendingar um, að e. t. v. væri lítill hrygningarstofn farinn að leiða til lélegrar nýliðunar. Sjálfur átti ég erfitt með að sannfærast um þetta samband og mér kom á óvart, hversu bretarnir virtust líta á þetta sem sjálfsagðan hlut. En ég átti erfitt með að andmæla þeirri röksemd, að best væri að fá aldrei að vita, hvað mundi gerast ef hrygningarstofn minnkaði enn frekar en orðið er.

Kristjáni segist svo frá verkstjórn á fundinum í Lowestoft, að Pope (sem hingað kom) hafi stjórnað umræðum eins og herforingi, og þar voru líffræðileg rök ekki leyfð. Því er ekki að undra, að maður, sem er vanari akademískri umræðu líffræðinga en herstjórnarfundum, glúpni. Kristján hefði verið betur settur með eftirfarandi orð Russells sem stjórnaði Lowestoft-stofnuninni á millistríðsárunum:
Örlög árganganna eru því ekki komin undir fjölda eggjanna, sem er gífurlega mikill, heldur því, hvernig hinum tiltölulega fáu seiðum vegnar, sem klekjast úr eggi, [...]

Stofnsveiflurnar eru greinilegastar hjá síld og ýsu, en eru þekktar hjá öllum þeim tegundum, sem rannsakaðar hafa verið nákvæmlega, t. d. þorski, lýsing og skarkola.

Þetta má lesa í fyrirlestraröð Russells, Arðráni fiskimiðanna, sem Árni Friðriksson íslenskaði og birti 1944.

Athyglin beinist mjög að stærð hrygningarstofnsins. Svo virðist sem menn vantreysti kynhvöt og frjósemi þorsksins til að geta af sér nægilega marga einstaklinga. Það er vitaskuld út í hött, eins og æxlun þorsks háttar, sbr. orð Russells að framan. Það er eftir að einstaklingarnir eru orðnir til, að stofnstærðin ræðst og þá ekki síst af því, hvort til er fæða handa þeim.

Í riti Russells má lesa slík rök vel fram sett. Hins vegar fataðist honum, þegar kom að því að dæma um hvenær veiði er hæfileg. Hann hafði tekið eftir því, að dregið hafði úr ýsuafla miðað við sókn, og taldi það benda til að gengið væri of nærri stofninum með veiðum. Reynslan sýnir hins vegar, að afli í heild getur stóraukist eftir nokkurt fall í afla á sóknareiningu, m. a. á fiskislóðum, sem Russell hafði sérstakar áhyggjur af, og er auðvelt að skýra.

Svo hörmulega fór, að þetta er eina hugsunin, sem Hafrannsóknastofnun virðist hagnýta sér af rökræðum Russells. Þær voru nefnilega markaðar líffræðilegum skilningi á því, að það er varasamt að veiða lítið, þar sem þá verða of margir um takmarkaða fæðu hafsins og dregur úr holdsöfnun til nytja. Í mikilsmetinni skýrslu Rannsóknaráðs 1975 um þróun sjávarútvegs eru engin líffræðileg rök. Þar var ekki annað eftir til marks um ástand fiskstofnanna en minnkandi afli á sóknareiningu.

 

Rök utanríkisstefnu urðu rök fiskifræðinga
Í lok ófriðarins mikla, þegar rit Russells varð kunnugt íslenskum lesendum, var verið að undirbúa aukin yfirráð íslendinga yfir landgrunninu. Það var fyrst gert með lögum um vísindalega verndun fiskimiðanna árið 1948. Friðun og verndun urðu aðalorðin. Íslendingar ætluðu að bægja öðrum frá fiskislóðum við landið, en hétu því að fara vel með, friða og vernda, en ekki ræna og rupla.

Jón Jónsson varð forystumaður íslenskra hafrannsókna á eftir Árna Friðrikssyni. Hann gerði við ýmis tilefni grein fyrir því, hvað það væri varasamt að friða og vernda fiskistofna, heldur væri til hagsbóta fyrir alla að slaka ekki á veiðum, heldur leyfa stórvirk veiðarfæri. Slíks málflutnings hætti að gæta eftir að síld lagðist frá Norður- og Austurlandi á sjöunda áratugnum. Jakob Jakobsson, sem síðar varð eftirmaður Jóns, kenndi sér og sjómönnum um, hann hefði verið of ötull að vísa þeim á síldartorfurnar og tæki þeirra svo feikilega afkastamikil. Verndarsjónarmiðið varð þá allsráðandi í tillögum Hafrannsóknastofnunar um veiðihætti.

Úr þessu mótast skoðanir á fiskveiðum af ótta af ýmsu tagi, og allt leiðir það til þess að líffræðileg rök týnast og umræður jafnvel á rannsóknastofnunum verða eins og Kristján Þórarinsson lýsir. Fljótlega eftir hvarf síldarinnar var bent á, að kaldir sjávarstraumar hefðu bægt henni frá Íslandi, og þá skiptir vitaskuld engu fyrir viðgang hennar annars staðar, hversu mikið er veitt á svæðum, sem hún er að flýja. Það var fyrst síðastliðinn vetur, að Jakob tók opinberlega undir þá skýringu. Fáir virðast hafa tekið eftir skoðanaskiptum hans.

 

Hugsjónir kæfðu rök
Íslendingar héldu áfram landhelgissókn sinni og alltaf í nafni verndar. Vakning til náttúruverndar hér á landi og víða um heim á 7. áratugnum örvaði slíkan málflutning. Sú skynvilla varð almenn að líkja verndun fiska við verndun gróðurs, þótt fiskar hafsins séu reyndar sambærilegir við beitardýr. Umhyggja sambærileg við áhyggjur af ofbeit væri að fylgjast með, hvort gengið væri of nærri æti fiskanna.

Á 8. áratugnum tengdist áhugi á náttúruvernd nokkuð þeirri sannfæringu, að jörðin gæti ekki staðið undir hagvexti. Andstæðingar hagvaxtar skipuðu sér í raðir þeirra, sem vilja takmarka mjög fiskveiðar. Eins og er stefnir að því, að þeir einir fái það, sem þeir vilja, þar sem aðgerðir íslenskra stjórnvalda til að takmarka fiskveiðar hljóta að óbreyttum rökum lífs og dauða að leiða til fellis („hruns“) nytjastofna hafsins, eins og gerðist iðulega á fyrri öldum vegna vanveiði. Af þeim sökum hefur hagvöxtur þegar stöðvast hér á landi.

Morgunblaðinu (Úr verinu), 30. september 1992