Líffræðingar hafa ólík sjónarhorn til að álykta um velferð lífvera eftir því, hvort þær eru ofan sjávar eða neðan. Líffræðingar, þar á meðal búfræðingar, sem og læknar og dýralæknar, sem athuga jurtir eða dýr ofan sjávar, gá gjarna að því, hvort lífveran sýni merki um næringarskort allt frá því, að hún varð til, hvert sem athugunarefnið annars er. Þeir athuga ástand allra árganga, þegar þeir meta stofn dýra eða gróðurþekju. Fyrr telja þeir sig ekki geta sagt til um horfur fyrir stofninn eða gróðurinn né hvernig hagnýting er ráðlegust. Þá kemur til athugunar, hvort tímgun hafi tekist vel, þ.e. hvort fræ séu nægilega mörg eða of mörg miðað við gróðurskilyrði eða hvort ungar, ef um dýr er að ræða, séu of margir miðað við næringarskilyrði. Síðan kemur til mats, hvort bæta þurfi skilyrði hverrar lífveru með því að fækka þeim, sem keppa um næringuna, með einhverjum ráðum, svo sem með veiði dýra, höggi ungtrjáa og grisjun garða, eða hvort bæta skuli næringuna með áburði eða fóðri.

Þannig er ekki staðið að, áður en ályktað er um velferð og nýtingu fiska hafsins. Fréttamenn, sem komast í færi við rannsóknarmenn hafsins, yrðu þarfir framþróun heimfærðrar líffræði, ef þeir legðu fyrir rannsóknarmenn fiska hafsins spurningar, sem sjálfsagt þykir, að kunnáttumenn eigi svör við, þegar um er að ræða lífverur ofan sjávar.

Fyrsta spurningin, sem oftast á við, byggist á því, að flestar lífverur tímgast svo ört, að aðeins nokkur hluti þeirra getur notið lífsins, eins og þeim er eiginlegt. Á þessu eru sveiflur vegna breytilegs árferðis. Gott árferði kemur á stað stórum árgöngum, sem kunna að mæta vondu árferði, þegar nálgast fullorðinsár, svo vondu, að þeir fá ekki notið sín, heldur veslast. Það sjónarhorn gefur tilefni til að spyrja, hvernig næring einstakra árganga sé og hvort ungviðinu fækki nægilega, til að það, sem eftir lifi, njóti nægilegrar næringar.

Rannsóknarmenn tala um nýliðun þorsks, en eiga í raun við styrk þriggja ára þorsks. Aðeins ofurlítið brot af því, sem klekst út af þorski, getur notið lífsins. Hitt verður öðrum sjávardýrum að bráð, veslast upp af næringarskorti, sem bitnar líka á þeim, sem lifa af, eða það drepst með því, að maðurinn á veiðum tortímir seiðum og ungfiski, en þá nýtur það, sem lifir af, góðra skilyrða og verður fallegur fiskur í sjó, á vinnsluborði og á búðarborði. Með tilliti til þessa þurfa fréttamenn að spyrja, hvaða áhrif skyndilokanir fiskislóða, sem iðulega eru boðaðar, hafa á þetta, eða seiðaskiljur eða önnur ákvæði um veiðarfæri, svo sem um stærð möskva, sem koma í veg fyrir, að ungviði tortímist. Með því að spyrja þannig mundu þeir gera ráð fyrir, að næringarfræði ofansjávardýra ætti einnig við neðansjávar.

Svo mættu þeir spyrja, hvað rannsóknarmenn geri til að meta, hversu margt sé nauðsynlegt, að drepist ungt, til að lífvænlegt verði fyrir það, sem kemst á veiðialdur, og hvað menn geti gert til þess að hafa áhrif á það. Í því sambandi á við að spyrja, hvort ekki væri hagur í því, að samtök þorskveiðimanna beittu sér fyrir framlögum til þeirra, sem veiddu smáfisk í bræðslu. Kúabændur sjá sér sem kunnugt er hag í því að slátra kálfum og láta þá ekki alla ná fullum þroska og hið sama á við stóðbændur, að fæst folöldin, sem merar þeirra kasta, eru sett á vetur og verða tryppi. Það er gert með því að meta fóðurkostnað og gera sér grein fyrir tjóni, sem hlýst af því að eiga lítið fóður á hvern grip. Raunar mundi það bæði varða við lög um forðagæslu og dýravernd að setja á alla kálfa og öll folöld án tillits til fóðurs. Í hafinu er líka fóðurkostnaður, því að fæðan er takmörkuð og nýtist því ver til vaxtar fiskanna sem fleiri eru um viðhaldsfóðrið.

Fólki stendur ógn af stórvirkum veiðitækjum. Hlutverk rannsóknarmanna er að setja tölur í hlutfalli á það, sem er í húfi, svo að í stað órökstudds ótta komi vitneskja, sem leiðir til hyggilegra ályktana um nýtingu hafsins, eins og líffræðingar (fóðurfræðingar, beitarfræðingar, skógfræðingar) álykta um nýtingu lands. Ég nefni rækjuna sem dæmi. Þrátt fyrir velútbúinn og stóran flota mun minnst af rækjunni fara í mannsmaga, en miklu meira fer í kjaftinn á öðrum sjávardýrum. Þar er spurning handa fréttamönnum á fundi með rannsóknarmönnum hafsins, hvort rækjuveiðar, sem eru takmarkaðar af stjórnvöldum, en ekki af hagkvæmnisástæðum útgerðarinnar, skili ekki að óþörfu góðgæti í maga annarra sjávardýra, og hvað rannsóknarmenn geri til að meta líkurnar á því, að rækja, sem ekki er veidd, geti bætt hag útgerðar á annan hátt. Á sama hátt á við að spyrja, hversu mikið þorskur, sem er hlífst við að veiða, spillir hag rækjuútgerðar með rækjuáti.

Spurningarnar geta verið margar. Líffræðingum ofansjávar og neðan hefur ekki tekist að ná saman um líkan við rannsóknir. Þeir lifa hvorir í sínum fræðaheimi. Það er vitaskuld ekki sæmandi fyrir nokkra fræðigrein, að menn hafi ekki sama sjónarhorn um grundvallarrök hennar. Fréttamenn gætu með vel undirbúnum spurningum haft þau áhrif smám saman, að sama líffræðilíkan yrði notað. Það er ekki að sjá, að aðrir verði til þess.

Morgunblaðinu 10. janúar 1999 (Bréf til blaðsins)