Í vor gerði Morgunblaðið rækilega grein fyrir afstöðu manna til fyrningar aflaheimilda, sjá til dæmis blaðið 24. maí. Þar var því mjög haldið fram, að fyrning þeirra gæti spillt afkomu útgerðarinnar og stofnað lánardrottnum hennar, bönkunum, í hættu. Nú eru ýmsir, sem telja, að deilan um fyrningu aflaheimilda sé deila á röngum forsendum; menn geti nefnilega ekki ákvarðað hagkvæma heildaraflaheimild með viti. Vitað er, að meðal þeirra, sem svo telja, eru menn, sem yfirleitt eru taldir málsmetandi, sbr. grein eftir mig í Morgunblaðinu í júlí 2007. En í þessu efni er ekki hirt um álit þeirra.

Hér verður athugað, hvað gæti orðið um bankaskuldir útgerðarinnar, ef gagnrýnið álit svofellt gilti vegna fiskveiða við Ísland. Fyrirkomulagið yrði þá þannig, að menn sæki sjó, eins og hver telur sér hag í, og ráði veiðarfærum sínum, svo sem möskvastærð, en, eins og lengi hefur verið, þarf að vera skipulag á því, hvar hver tegund veiðiskipa sækir til veiða. Þegar vanþrif sýnast vera í fiskinum, eru góð aflabrögð ekki aðeins beinn hagur einstakra útgerða, heldur eru þau til bóta fyrir fiskstofninn; þá hafa nefnilega verið of margir einstaklingar í honum í hlutfalli við næringarskilyrði. Þannig batna þau. Þegar ekki sýnast vera vanþrif, heldur góð þrif, bendir það til þess, að veiði hafi verið nægilega mikil, til að ekki hafa orðið of margir um ætið. Þá veiðir hver eins mikið og hann sér sér hag í, og um leið dregur slík veiði úr hættu á, að vannæring verði og þrif fisksins skili þá lélegum afla.

Ef slíku fyrirkomulagi yrði komið á, yrði engin aflaheimild skert (fyrnd), hins vegar yrði heimildin verðlaus. Ástæðulaust yrði fyrir útgerð að kaupa til sín aukna heimild, þar sem hver sem er hefur ótakmarkaða aflaheimild ókeypis.
Útgerðarfélög hafa stofnað til bankaskulda til kaupa á aflaheimildum. Viðskipti með aflaheimildir draga ekki endilega úr heildarskuldum útgerðarinnar, því að einn selur og getur létt skuldabyrði sína, en annar kaupir, og það kann að auka skuldabyrði hans. Ef viðskipti með aflaheimildir hætta, af því að þau skila engu, verða heildarskuldir útgerðarinnar óbreyttar, að öðru jöfnu.

Vel að merkja, að öðru jöfnu. Þarna verður nefnilega ekki annað jafnt, ef marka má álit þeirra merkismanna, sem ég vísa til í upphafi greinarinnar. Með veiði, þar sem aðeins arðsemi einstakrar útgerðar setur henni hömlur, gæti afli hér við land náð því stigi, sem hann var á fyrir hálfri öld, þegar hundruð breskra og þýskra togara voru hér að veiðum, jafnvel skammt undan landi, aflinn gæti tvöfaldast eða þrefaldast. Vegna verðmunar sóttu bresku togararnir mjög í smáa fiskinn. Hugsanlegt er, að afli þeirra í smáum fiski hafi verið álíka mikill og allur þorskafli íslendinga nú. Það er merkilegt fyrir aflasældina.
Slík aflabrögð mundu vitaskuld stórbæta afkomu útgerðarfyrirtækja og gera þeim auðvelt að greiða bankaskuldir, sem stofnað hefur verið til vegna kaupa á aflaheimildum.

Morgunblaðinu 5. desember 2009 42