Í sumum samtökum sýna menn almennt sterka viðleitni til að sneiða hjá augljósum átökum og kjósa heldur að vinna málum brautargengi með áþreifingum og leiða þau til lykta með einróma samþykki. Í öðrum samtökum kjósa menn að láta ágreining verða beran með atkvæðagreiðslu. Hér verður því lýst með tveimur dæmum, hvernig þessu er farið í íslenskum samvinnufélögum.

 

• Kaupfélag Langnesinga

Íbúar svæðis Kaupfélags Langnesinga eru 745. 439 eiga heima á Þórshöfn, 69 á Bakkafirði, en um 250 á rúmlega 50 sveitabæjum. Svæðið nær 50-60 km frá Þórshöfn. Kaupfélagið er ríkjandi verslun á svæðinu. Við hlið þess er minni háttar kaupmannsverslun og pöntunarfélag, sem hefur afgreiðslu fáeinar stundir í viku. Félagsmenn eru 300, 47 í Sauðaneshreppi (61 íbúi), 144 í Þórshafnarhreppi, 70 í Svalbarðshreppi (128 íbúar) og 40 í Skeggjastaðahreppi (127 íbúar), en þar er Bakkafjörður. Afkoma fólks utan þorpanna byggist mest á sauðfé. Meðal skráðra félaga í Sauðaneshreppi eru allmargir burtfluttir hreppsbúar, en félagaskráin hefur verið hreinsuð af slíku að öðru leyti.

Kaupfélag Langnesinga hefur yfirleitt um 60 manns í vinnu (40 fastráðið), en fleira í sláturtíð. Á Þórshöfn rekur félagið aðalbúð, byggingarvörudeild, vörugeymslu og söluskála, og verslunarútibú á Bakkafirði, og er, eins og áður segir, svo til alls ráðandi á svæðinu í þeim efnum. Sem eigin fyrirtæki rekur það: 1. Bílaverkstæði, og er ríkjandi á því sviði, en þó er nokkur samkeppni frá einstaklingum, sem gera við bíla heima hjá sér. 2. Nýtt trésmíðaverkstæði, sem kom í stað trésmiðju í einkaeign, sem brann, og hættu þá eigendurnir eigin rekstri. Það reisir íbúðarhús og fleiri byggingar og er alls ráðandi á svæðinu, en verður fyrir samkeppni frá aðfluttum tilbúnum húsum. 3. Skipaafgreiðslu á Þórshöfn og Bakkafirði. 4. Olíubíl, í samkeppni við önnur olíufélög. 5. Mjólkurbú með 4 innleggjendum.

Kaupfélag Langnesinga á 12% hluta í útgerðarfyrirtæki norður-þingeyinga. Aðrir eigendur eru Þórshafnarhreppur með 23%, Svalbarðshreppur með 2%, Raufarhafnarhreppur með 40% og hraðfrystistöðin á Þórshöfn með 23%, en í henni á kaupfélagið nokkurn hlut. Hraðfrystistöðin veitir mesta atvinnu á Þórshöfn, heldur meiri en kaupfélagið. Fyrr meir kvað meira að kaupfélaginu í fiskvinnslu á Þórshöfn. Helstu eigendur hraðfrystistöðvarinnar vilja ekki, að kaupfélagið eignist þar meiri hlut en nú, kaupfélagsstjórinn kysi það gjarnan, en formaður kaupfélagsstjórnar vill heldur, að kaupfélagið beiti sér á öðrum sviðum til að efla atvinnu og þjónustu á svæðinu. Nýlega (árið 1980) beitti kaupfélagið sér í þeim efnum með því að leggja fram 12% hlutafjár í hinu nýja og stóra útgerðarfyrirtæki norður-þingeyinga og með því að leggja fram 25% hlutafjár í saumastofu, sem hóf rekstur sama ár. Meðeigendur saumastofunnar voru Þórshafnar- og Svalbarðshreppar og verkalýðsfélagið ásamt einstaklingum. Útgerðarfyrirtækið varð að fá lán á vegum stjórnvalda til kaupa á togara. Stjórnarformaður áleit, að það hefði haft áhrif á stjórnvöld, hvað kaupfélagið hefði lagt fram mikið hlutafé, með því hefði það sýnt vilja til að ábyrgjast fyrirtækið (hér er því ekki gert ráð fyrir að hlutabréfin skili útborguðum arði). Hins vegar hefði verið óþarft að hafa slík áhrif með frekari kaupum á hlutabréfum í hraðfrystistöðinni, útgjöld þar hefðu því að hans áliti ekki haft gildi til þess að draga fjármagn til svæðisins.

Mikil ítök Kaupfélags Langnesinga á svæðinu koma ennfremur fram í því, að bændur eru í breytilegri reikningsstöðu við félagið eftir því sem tekjur þeirra og útgjöld falla til á árinu. Þeir leggja inn sláturfé að hausti og fá greitt fyrir það smám saman, og þeir kaupa áburð að vori og fá lán til þess til hausts. Kaupfélagið nefndi til menn árið 1980 að undirbúa loðdýrarækt á svæðinu. Kaupfélagið veitti á árinu 1980 fé til styrktar mjólkurframleiðslu á svæðinu til þess að fullnægja þörfum Raufarhafnar. Sama ár veitti það jafnmikið fé úr menningarsjóði til dagheimilis á Þórshöfn. Það leggur fram ákveðinn hluta af nýræktarkostnaði bænda. Á sjötugsafmælinu veitti kaupfélagið fé til að reisa heilsugæslustöð á Þórshöfn í þágu Sauðanes-, Þórshafnar- og Svalbarðshreppa, hins vegar synjaði kaupfélagsstjórnin stjórn heilsugæslustöðvarinnar um styrk til að kaupa og reka sjúkrabíl. Stjórnarformaður rökstuddi afstöðu stjórnarinnar í þessum málum þannig, að með fjárstyrk til heilsugæslustöðvarinnar hefði verið knúið á um opinbera fjárveitingu, en synjunin varðandi sjúkrabílinn hefði áréttað það, að kaupfélagið tæki ekki að sér rekstrarútgjöld á borð við sýslusjóð.

Kaupfélag Langnesinga nær yfir þrjá austustu hreppa Norður-Þingeyjarsýslu af 8 hreppum alls, en Skeggjastaðahreppur er austan sýslumarka í Norður-Múlasýslu. Hrepparnir fjórir voru í sama heilsugæslusvæði þar til fyrir fáum árum að Skeggjastaðahreppur var sameinaður heilsugæslusvæði Vopnafjarðar. Á öðrum sviðum er kaupfélagið sameiginlegur málsvari svæðisins. Þetta kom fram á árinu 1979. Eftir „sumarið sem ekki kom” beitti kaupfélagsstjórinn sér fyrir því, að hrepparnir fjórir tækju lán í sparisjóðnum, sem fært var á reikning bænda í kaupfélaginu í hlutfalli við bústofn, en þó meira til þeirra, sem verst urðu úti. Hreppsfélögin skyldu greiða vexti í tvö ár, en síðan skyldu bændur endurgreiða lánin. Með þessu móti fékk kaupfélagið rekstrarfé á meðan á bjátaði. Síðar fékkst lán úr bjargráðasjóði til að greiða skuldina við sparisjóðinn. Kaupfélagsstjórinn hvatti bændur á annan hátt til að gefast ekki upp.

Kaupfélag Langnesinga er í 6 deildum sem fylgja hreppsmörkum; Sauðanes- og Svalbarðshreppar skiptast þó hvor um sig í tvær ámóta fjölmennar deildir. Deildarstjóri er tengiliður við kaupfélagsstjóra varðandi ýmis stærri málefni, svo sem að ákveða sláturdaga einstakra fjáreigenda. Árlegur deildarfundur er tímanlega fyrir aðalfund kaupfélagsins, sem haldinn er að vori fyrir sauðburð. Kaupfélagsstjóri kemur á deildarfund og gerir grein fyrir stöðu félagsins og heyrir óskir félagsmanna og gagnrýni. Deildarfundur kýs deildarstjóra og fulltrúa á aðalfund, einn fulltrúa á hverja 5 félagsmenn. Kosning þeirra fer fram án tilnefningar. Deildarfundir gera tillögur til aðalfundar. Slík mál eru svo til alltaf greidd samhljóða.

Ákvarðanir stjórnar og aðalfundar eru oftast samhljóða. Tillögur breytast hins vegar gjarnan í umræðum. Mjög sjaldan skerst í odda. Á aðalfundi 1979 greindi menn á um það, hvort kaupfélagið skyldi reisa kjötfrystihús eða verslunarhús. Felld var tillaga um að reisa kjötfrystihús. Árið 1980 var ákveðið samhljóða að reisa verslunarhús, og var það í byggingu, þegar höfundur var á vettvangi vorið 1981. Á aðalfundi 1981 var lagt til að takmarka viðskiptaskuldir hins nýja stóra útgerðarfyrirtækis og að hindra á annan hátt frekari þátttöku félagsins í fyrirtækinu. Tillagan fékk aðeins fáein atkvæði. Stjórn félagsins hélt því fram, að viðskiptalán til útgerðarfyrirtækisins væru trygg.

Í stjórn Kaupfélags Langnesinga sitja 5 félagsmenn, kosnir til þriggja ára í senn. Tvö ár eru kosnir tveir og þriðja árið einn. Samkvæmt samþykktum félagsins má aðeins einn stjórnarmanna vera úr hópi starfsmanna félagsins. Á aðalfundi 1981 var lagt til að heimila, að í stjórn félagsins sætu tveir starfsmenn félagsins. Tillagan kom frá nefnd, sem kosin hafði verið til að fjalla um málið. Kaupfélagsstjóri og stjórnarformaður studdu tillöguna. Ýmsir snerust hart gegn tillögunni og fannst öfugt að farið að setja starfsmenn í stjórnina, þar sem stjórnin ætti að líta eftir starfsmönnum. Til að lægja öldurnar var málinu vísað til stjórnar. Raunar hefur heimildin, sem í gildi hefur verið, um að einn starfsmaður sitji í stjórn, aldrei verið notuð. Form stjórnarkjörs, þar sem einn eða tveir eru valdir í senn og kosið óhlutbundið, kemur í veg fyrir, að minnihluti fulltrúa á aðalfundi komi manni í stjórn gegn vilja meirihlutans. Árið 1981 voru þeir tveir, sem gengu úr stjórninni, endurkjörnir, annar (formaðurinn) með 43 atkvæðum, hinn með 37 atkvæðum, þeir þrír, sem komu næstir, fengu 18, 15 og 11 atkvæði. Starfsmenn, hvort sem þeir eru félagsmenn eða ekki, velja fulltrúa úr sínum hópi til að sitja stjórnarfundi. Hann hefur málfrelsi og tillögurétt. Nánari athugun leiddi í ljós, að deilan um heimildina til að kjósa starfsmenn í stjórn var á snið við landslög. Með nýlegri breytingu á lögum um samvinnufélög eru starfsmenn kjörgengir, þeir sem eru í félaginu. Sýslumanni hafði skotist yfir þessa lagabreytingu, þegar hann að ósk kaupfélagsins sendi lög um samvinnufélög. Hvað sem því líður leiddi ágreiningur í þessu efni í ljós, hvernig sumir félagsmenn vilja tryggja áhrif sín í félaginu. Þetta er eitt þeirra ágreiningsefna, sem forysta félagsins kýs að leysa með samkomulagi, heldur en láta brjóta á á aðalfundi.

Þegar Kaupfélag Langnesinga tók upphaflega þátt í fiskverkun, voru til þess sérstakar ástæður. Félagið átti frystihús, sem ætlað var fyrir kindakjöt, en mátti einnig nota fyrir fisk. Á þeim tíma voru þar um slóðir fáir þjálfaðir til að reka fyrirtæki. Þetta hefur breyst. Fiskvinnsla hefur þróast og fer nú fram í sérstöku húsi með frysti. Á Þórshöfn eru nú menn þjálfaðir í rekstri og reikningshaldi utan starfsliðs kaupfélagsins, hjá hreppnum, við skólann og við hraðfrystistöðina. Kaupfélag Langnesinga heldur enn forræði sínu á svæðinu, en forræði þess hefur takmarkast þó nokkuð. Ástæða er til að ætla, að forysta kaupfélagsins veikti stöðu félagsins enn frekar, ef hún gætti þess ekki að forðast innanfélagsátök. Slík ágreiningsefni gætu styrkt þá, sem vildu hefja starfsemi utan áhrifasviðs kaupfélagsins.

 

• Kaupfélag Eyfirðinga

Á aðalsvæði Kaupfélags Eyfirðinga eru íbúar 19.500. Af þeim eru 13.000 búsettir á Akureyri, 1.200–1.300 á hvorum útgerðarstaðnum um sig, Dalvík og Ólafsfirði, um 1.000 í 6-7 útgerðarþorpum og um 3.000 í sveitunum á um 480 bæjum eða á litlum verslunar- og skólastöðum. Svæðið nær 50-70 km í ýmsar áttir frá Akureyri. Kaupfélagið er langstærsti vinnuveitandinn á svæðinu með um 700 fastráðna og með marga aðra í vinnu til viðbótar, til að mynda í fiskvinnslu, við fiskveiðar og slátrun, og auk þess í fyrirtækjum sem kaupfélagið á með öðrum í útgerð, iðnaði, þjónustu og verslun. 6.985 félagsmenn (þar af 6.602 á aðalsvæðinu) skiptast á 25 deildir af mismunandi stærð, með frá 27 upp í 3.293 félaga í hverri. Deildirnar gegna sama hlutverki og deildir Kaupfélags Langnesinga. Hver deild kýs á aðalfund einn fulltrúa á hverja 30 félagsmenn. Við kosningu í stærstu deildinni (á Akureyri) er lagður fram einn listi með fullri tölu (110 árið 1981), en áður fór fram hlutfallskosning um fleiri lista, sem voru tengdir stjórnmálaflokkum. Listinn skiptir fulltrúum milli flokkanna í hlutfalli við styrkleika þeirra, eins og hann var á meðan kosið var um lista. Í hinum deildunum er kosið án tilnefningar. 5 manna stjórn er kjörin, á sama hátt og í Kaupfélagi Langnesinga. Festa er í stjórnarsetu. Síðast þegar endurnýjað var (árið 1980) baðst stjórnarmaður, sem var bóndi, undan endurkosningu. Engar tillögur komu fram, en atkvæðin söfnuðust um tvo bændur. Þó var meirihluti aðalfundarfulltrúa frá Akureyri, Dalvík og Ólafsfirði (108, 16 og 19 fulltrúar af alls 234). Starfsfólk kýs tvo fulltrúa til að sitja stjórnarfundi með málfrelsi og tillögurétti. Annar er kosinn af starfsfólki á Akureyri og hinn af starfsfólki utan Akureyrar. Ekki var ágreiningur í Kaupfélagi Eyfirðinga um heimild aðalfundar til að kjósa í stjórn félagsmenn, sem um leið eru starfsmenn félagsins.

Stjórnarfundur er svo mánaðarlega til jafnaðar. Svo til allar ályktanir og ákvarðanir stjórnar og aðalfundar eru samhljóða. Vinnubrögðin eru þau að leita samkomulags og bíða átekta, þar til full samstaða hefur náðst. Núverandi fulltrúi starfsfólks á Akureyri (fyrst kosinn 1980) var þekktur sem gagnrýninn maður innan kaupfélagsins og kröfuharður í verkalýðsfélagi sínu (félagi verslunarfólks), þar sem hann var í hópi þeirra, sem þykir ekki miður, að ágreiningur innan verkalýðsfélaga í kjarabaráttu verði opinber, ef menn vilja ekki fylgja eftir ýtrustu kjarakröfum. Hann rökstuddi þá afstöðu sína, um leið og hann hélt því fram, að opinská átök innan kaupfélagsins sköðuðu félagið og bæri að forðast. Kaupfélagið væri fyrirtæki í samkeppni við önnur fyrirtæki, og það yrði að efla til frekari starfsemi, og því yrði að forðast átök innan félags, sem drægi mátt úr félaginu. Ýmis mál hjá Kaupfélagi Eyfirðinga voru bundin trúnaði og gegndi þar öðru máli en hjá Kaupfélagi Langnesinga. Þar var um að ræða skuldaskil ýmissa viðskiptavina og fyrirtæki, sem buðu sig föl með því skilyrði, að málinu yrði haldið leyndu, ef kaupfélagið tæki ekki boðinu.

 

Áhrif félagsmanna þegar ágreiningur kemur ekki skýrt fram

Í mörgum héruðum landsins eru samvinnufélögin ráðandi afl. Starfsemi þeirra er ekki síður mikilvæg en sveitarstjórn. Hún varðar alla, hvort sem þeim líkar betur eða verr. Þegar málum er svo háttað, að ágreiningi er haldið niðri og leitað samkomulags, sem staðfest er með samhljóða samþykktum, eiga íbúar héraðsins erfitt um að skilja, hvernig ákvarðanir eru teknar með tilliti til margskonar hagsmuna og sjónarmiða. Mál eru hins vegar afgreidd fyrir opnum tjöldum í sveitarfélögum í sömu héruðum, að minnsta kosti (oftast) við sveitarstjórnarkosningar, þar sem flokkslistar eru bornir fram. Sveitarfélögin hafa frekar efni á átökum. Enginn getur sagt sig úr lögum við sveitarfélagið, þar sem hann er búsettur og komist undan forræði þess. Öðru máli gegnir í samvinnufélögum. Þar getur verið hætta á því, að illvíg átök ýti fólki út úr félaginu og að það styrki fyrirtæki, sem eru í samkeppni við kaupfélagið og komi fótum undir ný.

Spurningin er, hvort leggja mætti mál fram og afgreiða á annan hátt en nú er gert, þannig að tækifæri sé til að vega og meta ólík sjónarmið, ekki eins og nú er gert á bak við tjöldin, og án þess að ágreiningurinn komi formlega fram, heldur opinberlega og samkvæmt dagskrá, en þó þannig að ágreiningur hleypi ekki illu blóði í félagsmenn og veiki félagið gagnvart keppinautum á markaði eða gagnvart hinu opinbera, þegar kaupfélagið leitar þangað. Ef slíkt háttalag viðgengist, mætti ætla, að almenningur skildi betur starfsemi félagsins og styddi betur við það. Hér á eftir verður lýst málsmeðferð sem ætti að stuðla að slíku.

 

Atkvæðagreiðsla um þrjá kosti eða fleiri

Í inngangi var bent á það, að í sumum samtökum kjósi menn það háttalag að afgreiða mál með því að leita samstöðu, sem staðfest er með samhljóða samþykktum. Samvinnufélög hér á landi eru af þeirri gerð, og eru um það ólík sveitarstjórnum í sömu héruðum þar sem flokkaskiptingin er til marks um fylkingar andstæðinga, sem leita stuðnings til átaka í öðrum hlutum landsins og þá fyrst og fremst í höfuðborginni. Ástæða er til að ætla, að menn kjósi oft það háttalag að breiða yfir ágreining, af því að erfitt er að afgreiða mál, þar sem fleiri en tveir kostir eru. Með aðeins tvo kosti í máli vilja átök verða illvígari en þegar ágreiningur er um fleiri kosti. Illvíg átök er hætt við að hrindi mönnum úr félaginu og þeir leiti annarra úrræða um viðskipti og þjónustu. Höfundur hefur nýlega gert grein fyrir atkvæðagreiðsluaðferð, sem auðveldar mönnum að afgreiða þrjá eða fleiri kosti í sama máli (Atkvæðagreiðsla um þrjá kosti eða fleiri. Fjölrit 37/1981. Bændaskólinn á Hvanneyri). Varðandi rök aðferðarinnar vísast til greinarinnar, en hér verða hagnýtar hliðar málsins kynntar, til þess að menn geti athugað, hvort aðferðin kynni að henta í samvinnufélögum.

Eftirfarandi dæmi er til skýringar á því, hvað málsmeðferð í félagsskap verður erfið, ef velja á milli fleiri en tveggja kosta. Samvinnufélagið GH metur ávinninginn af því að endurskipuleggja vinnslufyrirtæki sín. Það hefur tekið á móti afurðum félagsmanna á þremur stöðum, F, H og M. Fjórir kostir koma til álita:

 

A)    Félagið heldur óbreyttri aðstöðu í H og M og reisir nýja vinnslustöð í F.

B)    Stöðin í H er lögð niður, stöðinni í M er haldið óbreyttri, og ný stöð er reist í F.

C)    Stöðin í M er lögð niður, stöðinni í H er haldið óbreyttri, og reist er ný stöð í F.

D)    Stöðvarnar í H og M eru lagðar niður og reist ný stöð í F.

E)     Stöðvunum þremur er haldið óbreyttum.

 

Metin var hagkvæmni kostanna. Þar var miðað við rekstur fyrirtækisins, en auk þess hlutu félagsmenn að meta kostina misjafnt eftir búsetu. Lesendum er látið eftir að hugsa út, hvernig mætti leggja fyrir félagsmenn með gildandi atkvæðagreiðsluaðferðum að taka afstöðu til þessara 5 kosta og velja einn. Það er enginn hægðarleikur, og raunar viðgengst það ekki. Raðval, sem gerð er grein fyrir í áðurnefndu riti, gerir hins vegar kleift að afgreiða í einu alla kostina, án þess að forystan þurfi að skjóta einum kosti fram fyrir annan í meðferð málsins. Til að einfalda skýringuna á aðferðinni má hugsa sér, að þrír félagsmenn eigi að taka sameiginlega afstöðu í málinu. Afstaða þeirra hvers um sig til hinna einstöku kosta er sem hér segir:

 

 

1.

2.

3.

A

D

C

B

C

E

D

B

A

C

E

D

E

A

B

 

Félagsmaður nr. 1 sýnir hér, að A er betri en 4 kostir, að B er betri en 3 kostir, að D er betri en 2 kostir, að C er betri en 1 kostur og að E er sísti kosturinn að hans dómi. Ef kostirnir eru teknir saman tveir og tveir, eins og skákmenn reyna með sér á skákmóti, reynist A, að því er varðar félagsmann nr. 1, vera fjórum sinnum betri en hinir kostirnir, B þrisvar, D tvisvar, C einu sinni og E aldrei. Ef álit einstakra félagsmanna er jafngilt og leitað er sameiginlegrar afstöðu, á að leggja saman frá öllum þátttakendum þau skipti, sem hver einstakur kostur er samkvæmt röðun hvers þátttakanda tekinn fram yfir einstaka aðra kosti. Forgangsröðun nr. 1 gefur þessi stig: A 4, B 3, D 2, C 1, E 0.  Forgangsröðun nr. 2 hefur fjórum sinnum gefið D betri einkunn en hinum kostunum hverjum fyrir sig, C þrisvar, B tvisvar, E einu sinni og A aldrei. Forgangsröðun nr. 3 hefur gefið C 4 í einkunn, E 3, A 2, D 1 og  B 0. Til þess að reikna hvaða kostur fær mestan stuðning er auðveldast að sjá tölur við kostina, eins og þeir eru færðir upp með 0 neðst og síðan upp eftir:

 

 

1.

2.

3.

4 A

4 D

4 C

3 B

3 C

3 E

2 D

2 B

2 A

1 C

1 E

1 D

0 E

0 A

0 B

 

 

Samlagning:

 

A                     4 + 0 + 2 = 6

B                     3 + 2 + 0 = 5

C                     1 + 3 + 4 = 8

D                     2 + 4 + 1 = 7

E                     0 + 1 + 3 = 4

 

C kemur út með hæsta heildareinkunn.

 

Í áðurnefndu fjölriti er sýnt, hvernig fara skal að, ef þátttakandi gerir ekki upp á milli kosta og hvernig fara skal með breytingartillögur við aðaltillögu. Eins og sjá má, er kleift með þessari aðferð að afgreiða marga kosti í einu. Bent hefur verið á, að slík afgreiðsla mundi milda ágreining, svo að hann ætti ekki að þurfa að draga menn í fastar fylkingar. Þá yrði síður ástæða til að afgreiða mál samhljóða til að breiða yfir ágreining: forgangsröðun með aðferðinni kynnir þátttakendur ekki sem eindregna andstæðinga. Með aðferðinni dreifist ábyrgð á endanlegri niðurstöðu á þá þátttakendur, sem ekki höfðu þann kost neðstan.

Aðferðina má nota til að kanna skoðun félagsskapar (stjórnar, nefndar, félagsfundar, allra félagsmanna). Að fenginni niðurstöðu könnunarinnar mætti leggja málið fyrir til ákvörðunar með gildandi aðferð. Hvernig skyldu menn þá vilja taka kostina fyrir til afgreiðslu? Ef menn teldu aðferðina gefa rétta niðurstöðu varðandi skoðun félagsskaparins, mundu þeir draga til baka aðrar tillögur en þá sem fékk flest stig.

Fólk á því ekki að venjast, að félagsskapur taki afstöðu í máli með því að leggja formlega fram marga kosti. Engu verður spáð um það hvort samvinnufólk muni sjá ástæðu til að reyna raðval. Ofangreint dæmi um vinnslustöðvar er trúlega mál af þeirri gerð sem hentaði best til þess, eða yfirleitt mál sem leysa má á ýmsa vegu.

Samvinnunni 4 1982