Athyglisverð er frásögn Ögmundar Jónassonar í sunnudagsblaðinu 1. desember af umræðum í Strassborg um lýðræði (Lýðræði á tímamótum). Þar var tekist á um, hvort ráða ætti málum til lykta í almennri atkvæðagreiðslu frekar en tíðkast hefur. Ögmundur hélt því fram. Hann benti á, að þátttaka í þingkosningum dvínaði ört. Lokaorð hans í blaðinu voru þau, að það væri ráð að sjá til þess, að fulltrúalýðræðið nýtti sér tækni til að víkka út landamæri lýðræðisins.

Ögmundur heldur því fram, að flokkarnir geti ekki lengur leyft sér að vera þröngt valdaafl. Þess verður þá einnig að geta, að þátttaka í almennri atkvæðagreiðslu er oft ekki almenn, þar sem slíkt fyrirkomulag er oftast tíðkað, nefnilega í Sviss. Því er ekki víst, að almenn atkvæðagreiðsla leiði af sér vítt valdaafl.

Þau vandkvæði, sem Ögmundur lýsir með því að halda því fram, að flokkarnir séu þröngt valdaafl, eyðast fyrirsjáanlega í sjóðvali. Ef beitt er sjóðvali á þingi, kemur nefnilega fram, hver vinnur að hverju og með hve miklu afli atkvæða, en reglur sjóðvals leiða til þess, að til lengdar verður enginn alltaf undir, valdaaflið í þinginu verður almennt. Þá má gefa óbreyttum kjósendum kost á að taka þátt í sjóðvali þingmála. Það gerist þannig, að atkvæðastyrkur þingmanns er samanlögð atkvæði, sem hann hlaut, þegar hann var kjörinn. Atkvæði hvers kjósanda eru færð út af fyrir sig í heildaratkvæðastyrk (atkvæðasjóð) þingmannsins. Heimila má kjósanda að taka fram fyrir hendur þingmannsins í atkvæðagreiðslu. Ef kjósandi býður atkvæði á mál, gengur atkvæðaboð þingmanns hans ekki á atkvæðasafn kjósandans. Þátttaka kjósandans er undir sama aga og þátttaka þingmanns í sjóðvali. Þess vegna má kjósandi vita, að það getur gengið á atkvæðasjóð hans, ef hann býður atkvæði og reynist standa á bak við niðurstöðu málsins.

Með þessu fyrirkomulagi verður að veruleika ábending Ögmundar um að nýta tækni til að víkka út landamæri lýðræðisins. Meira máli en tæknin skiptir þó hugsunin, sem sjóðval gerir gilda og lesa má úr því, sem hér hefur verið sagt.

Starfsmenn Lýðræðissetursins kynntu sjóðval svo til öllum alþingismönnum, sem kosnir voru 2007 og 2009, í samtölum við þá einn eða tvo í einu (sömuleiðis varaþingmönnum). Margvíslegt efni um sjóðval og raðval er nú aðgengilegt í skjáritum á ýmsum tungumálum. Það væri ráð fyrir þá, sem fara til útlanda til lýðræðisumbóta, að kynna sér fyrst efni Lýðræðissetursins um raðval og sjóðval, með lestri og samtölum við starfsmenn setursins.

Morgunblaðinu 14. desember 2013