Undirbúningur að gerð rammaáætlunar um virkjun og vernd hófst árið 1999 með skipun verkefnisstjórnar. Hún kvaddi til marga kunnáttumenn. Þeir áttu eftir megni að draga úr ágreiningi um ráðstöfun virkjunarkosta með hlutlægni, en það er að beita kunnáttu með sameiginlegt sjónarhorn. Það var gert í fernu lagi, með því að taka fyrir náttúrufar og minjar, útivist og hlunnindi, hagræn áhrif á ferðaþjónustu, byggð og atvinnu, og í fjórða lagi stofnkostnað og arðsemi virkjunarkostanna. Þetta var gert misjafnlega rækilega.

Þegar þessu lyki, ætlaði verkefnisstjórnin sér að vega hinar fjórgreindu hlutlægu niðurstöður saman og forgangsraða virkjunarkostum. Það kemur ekki fram, hvort hún hafi ætlað að gera þetta á sitt eindæmi eða bera málið sömuleiðis undir þá, sem teldust frekar en hún fulltrúar almenningsálits. Í því, sem verkefnisstjórn gaf út um þetta síðast (Niðurstöður 2. áfanga rammaáætlunar), í júní 2011, er engin ein forgangsröð, reist á hinum fjórgreindu niðurstöðum. Að niðurstöðum 2. áfanga fengnum setti stjórnarráðið þröngan hóp manna til að semja rammaáætlunina, sem var auglýst til umsagnar haustið 2011 og síðan lögð fyrir Alþingi.

Alþingi lauk málinu með ályktun 2013. Hinar andstæðu fylkingar nú og undanfarin ár, stjórn og stjórnarandstaða, hafa haldið áætluninni fram sem faglegu verki af hendi verkefnisstjórnar. Samt getur enginn, þegar spurt er, bent á þann stað í skjölum verkefnisstjórnar, þar sem áætlun hennar birtist. Minna má á, að á fyrstu starfsárum verkefnisstjórnar var því lýst, að vinnubrögðin við rammagerðina ættu að vera gegnsæ. Önnur verkefnisstjórn tók við 2007. Áðurnefndar niðurstöður 2. áfanga 2011, án flokkunar virkjunarkosta í bið, vernd og nýtingu, án ramma, voru því hennar.

Ýmislegt er ógert í rammanum, sem Alþingi samþykkti 2013. Þar er ekki mælt fyrir um, hvernig og hver eigi að meta flutning kosts milli flokka, svo sem úr bið til verndar eða nýtingar. Enn vantar veigamikla virkjunarkosti í áætlunina. Þá þykir sumum vanta í rammann hinar öflugri raflínur.

Um aldamótin fór fram hermileikur nokkurra starfsmanna Orkustofnunar með sjóðval um ráðstöfun virkjunarkosta. Þegar rammaáætlunin, eins og hún kom frá stjórnarráðinu, var til umsagnar haustið 2011, efndi Lýðræðissetrið til sjóðvals um hana meðal þingmanna og varaþingmanna. Tók það um hálft ár. Fyrst var athugað, hvort þeir vildu hafa sjóðvalið gegnsætt eða leynt. Mönnum leist ekki á að hafa það opinskátt. Meðan á þessu stóð, mættust hvarvetna stálin stinn, stjórnarliðar og andstæðingar. Slíkt ástand dregur úr mönnum að tjá sig hver fyrir sig. Þátttaka var svo lítil, að niðurstöður var ekki að marka, en mikilsverð tæknileg reynsla fékkst.

Við framhald og endurnýjun rammaáætlunarinnar þarf vinnubrögð, sem skapa varanlegt traust til hennar. Það er ólíklegt til lengdar, að verk fámennrar verkefnisstjórnar endurspegli almenningsálit á sannfærandi hátt. Svo að dæmi sé tekið, er það ekki á færi kunnáttumanna að meta fyrir hönd almennings Dettifoss ósnortinn á móti hagnaði af rafstöð í Jökulsá á Fjöllum; þar reynir á það, sem ekki er hlutlægt. Ágreining, sem kunnáttumenn geta ekki eytt, þarf að útkljá sem þjóðmál, að fenginni umsögn verkefnisstjórnar og annarra, með aðferð, sem gerir fært að fylgjast með atbeina þátttakenda, sem eru fulltrúar almennings, en það eru vitaskuld alþingismenn.

Fyrir um áratug töldu bæði rannsóknastjórinn hjá Gallup, sem verkefnisstjórnin hafði með í ráðum, og formaður fyrstu verkefnisstjórnarinnar sjóðval ráðlega aðferð við rammagerðina. Síðan hefur frekari reynsla fengist. Eins og staðan er nú, mundi rammaáætlunin uppfærast hægt og sígandi í sjóðvali, og stöðugt má sjá, hver á hvað í henni. Samþykkt Alþingis um hana má endurnýja, hvenær sem ástæða þykir til, með því að leggja hana fyrir þingið, sem hefur færi á að breyta henni, áður en hún er borin upp til ályktunar.

Slíkt sjóðval yrði öðru vísi en það, sem Lýðræðissetrið beitti sér fyrir 2011 og bauð þingmönnum og varaþingmönnum tveggja kjörtímabila að vera með. Það lið var því dreift. Ef stjórnvöld eiga frumkvæði að sjóðvalinu og aðeins þingmenn verða með, hafa þingflokkarnir tækifæri til að móta atkvæðaboð sameiginlega, eftir því sem þeir telja ástæðu til. Hvort sem þingmenn bjóða atkvæði samstillt á vegum þingflokks eða annarra eða sjálfstætt, fær að njóta sín það eðli sjóðvals, að mörg afbrigði máls eru borin upp í einu og fært er að sýna afbrigðunum missterkan atbeina með breytilegum atkvæðaboðum.

Morgunblaðinu 12. júlí 2013