Hvað er til ráða í Langholtssókn? Kristján J. Gunnarsson færir rök að því í bréfi til blaðsins 6. þ.m. (Kirkja í kreppu), að ekki verði leyst úr vandræðum þar öðru vísi en að sóknarbörn almennt kveði upp úr um hvað gera skuli. Vald til ráðningar og uppsagnar prests sé að vísu ekki í höndum safnaðarins, heldur ríkisins (ráðuneytis dómsmála), en sóknarnefnd hefur ráð organista í sínum höndum. Ef menn telja það ráð, hvað sem skipan valds líður, að söfnuðurinn lýsi afstöðu sinni, þarf að leggja málið fram á þann hátt, að afstaða safnaðarins verði ljós. Þrennt kemur til greina að dómi Kristjáns: A, að prestur víki; B, að organisti víki og C, að báðir víki. Loks má vera, að einhver telji, að hvorugur skuli víkja (D).

Lítum á hvernig nokkur upphugsuð sóknarbörn kunna að meta þá þrjá kosti, sem Kristján telur vera. Sigurður mælir með því, að prestur víki, telur lakara ráð, að báðir víki, en vill síst, að organistinn víki. Gunnar telur skásta kostinn, að báðir víki, þar næst vill hann, að organistinn víki, en vill síst, að prestur víki. Guðrún telur skást, að organistinn víki, vill síður, að báðir víki, en síst, að prestur víki. Ásdís telur skást að báðir víki, síðra, að prestur víki og vill síst, að organistinn víki. Helga telur skást, að prestur fari, síðra, að organistinn víki og síst, að báðir fari. Ólafur vill helst, að organistinn víki, þar næst, að prestur fari, en síst, að báðir fari. Bjarni telur það eitt ráð, að prestur víki og gerir ekki upp á milli hinna kostanna. Eyjólfur telur það eitt ráð, að organistinn víki og gerir ekki upp á milli hinna kostanna. Ragnhildur telur það eitt ráð, að báðir fari og gerir ekki upp á milli hinna kostanna.

Þótt ekki sé um nema þrjá kosti að ræða, er augljóst, að menn ráða ekki við það með venjulegum aðferðum við skoðanakönnun og atkvæðagreiðslu að fá fram álit fjöldans með einhverju viti. Menn kæmust í enn meiri vandræði að kanna álit safnaðarins með venjulegum aðferðum, ef fjórði kosturinn, að hvorugur víki, yrði í málinu.

Ég gerði hér í blaðinu 7. f. m. (Frjálslegri aðdragandi forsetakjörs) grein fyrir aðferð til að útkljá slíkt mál og bendi nú á hana sem ráð, ef sóknarbörn eiga að lýsa hug sínum almennt. Þá er seðill lagður fyrir sóknarbörn með kostunum þremur og þeim falið að merkja þá, einn eða fleiri. Sigurður merkir þá 1 við A, 2 við C og 3 við B, Gunnar merkir 1 við C, 2 við B og 3 við A. Ragnhildur merkir 1 við C og ekki annað, og svo framvegis. Kjörstjórn gerir upp með því að gefa stig fyrir, eins og lýst var í fyrri grein. Af seðli Sigurðar fær A 2 stig, þar sem hann er talinn betri en tveir kostir, en C 1 stig, þar sem hann er talinn betri en einn kostur. Af seðli Ragnhildar fær C 2 stig, þar sem hann er talinn betri en tveir kostir, en A og B skipta með sér stiginu, sem fellur í hlut þess, sem er í öðru sæti. - Í könnun, sem fram væri á þennan hátt, mundi það ekki flækja málið, þótt fjórði kosturinn, að báðir haldi áfram, yrði með.

Ég ítreka það, að almenningur ræður við aðferðina samkvæmt reynslu, sem fékkst við skoðanakannanir á Snæfellsnesi og í Árnessýslu í apríl og maí 1994.

Morgunblaðinu 18. janúar 1996 (Bréf til blaðsins)