Á Eyrarbakka hefur hreppsnefnd tekið upp ný vinnubrögð til að kynna sér undirtektir í þorpinu við mál, áður en hún lýkur því. Reynslan, þótt lítil sé, bendir til þess að með slíkum vinnubrögðum geti forstaða hrepps auðveldað sér málsmeðferð og að þeim fylgi góður félagsandi.

Hreppsnefndin beitir vinnubrögðunum meðal þeirra sem skipuðu sæti aðalmanns á framboðslistum í kosningunum vorið 1994. Í hreppsnefnd eru sjö. Þrír listar voru boðnir fram. Þeir 21 sem á listunum voru fá atkvæði í sjóð og geta ráðstafað þeim eftir því sem hver og einn metur mikilvægi málsins. I-listinn fékk 193 atkvæði í kosningunum og fær hver þeirra sjö sem skipuðu hann 19,3 atkvæði í sjóð sinn fyrir hvert nýtt mál sem borið er undir atkvæði. D-listinn fékk 113 atkvæði. Fær hver D-listamannanna sjö 11,3 atkvæði í sjóð sinn vegna hvers nýs máls. E-listinn fékk 62 atkvæði og fær hver E-listamannanna sjö 6,2 atkvæði vegna hvers máls sem borið er undir atkvæði. Í upphafi fékk hver og einn fjórfalda töluna til þess að geta beitt sér í samræmi við eðli vinnubragðanna, ef svo skyldi standa á að fyrsta málið væri kappsmál.

Til að geta gert sér hugmynd um vægi þess máls sem borið er undir atkvæði hafa menn fengið að vita um tvö næstu mál.

Fyrsta málið sem borið var undir atkvæði á þennan hátt var reglur um útivistartíma barna og unglinga. Var spurt hvort menn vildu að fylgt yrði aðalreglu laganna eða vildu hafa sömu reglur og settar höfðu verið á Selfossi, Akureyri og í Vopnafirði.

Annað málið var þannig til komið að hreppsnefnd hafði undanfarin ár styrkt fólk sem skaraði fram úr í íþróttum til farar í þjálfun eða keppni erlendis. Íþróttasamtök landsins leita gjarna til átthagasveitarfélags íþróttamannsins eftir fjárstyrk til slíkra ferða. Hreppsnefndin hefur varið árlega tæplega 100 þúsund krónum til þessa og afgreitt styrkina eftir umsókn í hvert skipti. Hafði það gerst í góðu samkomulagi innan hennar, en vart hafði orðið við kurr í þorpinu vegna slíkra mála. Hreppsnefnd ákvað þá að kanna hvernig litið væri á vinnubrögð hennar og lagði það fyrir fólkið. Var spurt hvort styrkjunum skyldi hætt (A), þeim haldið áfram og þeir hækkaðir (B), þeim haldið áfram, en þeir lækkaðir (C) eða þeim haldið í sama horfi (D).

Sem dæmi um hvernig menn geta hagnýtt sér atkvæðin er kjósandi sem átti í sjóði 56,5 atkvæði. Hann kaus helst að halda framlögunum í sama horfi (D), þarnæst að lækka þau (C) og þriðji kostur fyrir hann var að hækka þau (B). Atkvæðin sem hann bauð voru 35 á D, 25 á C og 23 á B. Samanlagt voru flest atkvæði boðin á D, 413, en á B 174, á C 129 og á A 91.

Dregin eru atkvæði af þeim sem standa á bak við sigurinn, en ekki af þeim sem verða undir. Atkvæðatalan sem dregin er af sigurvegurunum svarar til atkvæðatölunnar sem þeir sem urðu undir mátu það sem þeir kusu. Sigurinn varð ódýr í þetta sinn þar sem D fékk svo miklu fleiri atkvæði en hin afbrigðin. Með þessu móti fékk hreppsnefnd skjalfesta vitneskju um afstöðu til afreksmannastyrkjanna.

Þeir sem sigra njóta málsins, en missa atkvæði og standa sem því nemur lakar að vígi við síðari atkvæðagreiðslur. Þeir sem tapa verða að þola það að málið gekk gegn þeim, en hafa í staðinn óskerta stöðu til að bjóða atkvæði í síðari málum og hafa áhrif á þau. Þegar til lengdar lætur á því að nást jafnvægi um áhrif.

Af þessu dæmi kemur einnig fram að sami kjósandi getur fylgt afbrigðum málsins eftir af mismunandi þunga, en það er aðeins atbeini hans að einu afbrigðinu, því sem sigrar, sem getur kostað hann atkvæði.

Þriðja málið er hraðahindranir og leiksvæði. Það má útfæra á ýmsa vegu með mismiklum kostnaði. Ráðgert er sem fjórða mál að spyrja hvort menn vilji eyða þeim skuldum hreppsins sem eru dýrar með því að taka til greiðslu þeirra af útsvarstekjum hreppsins, með hækkun fasteignagjalda eða með hækkun þjónustugjalda sem eru undir kostnaði. Aðferðin nýtur sín vel í þessu dæmi þar sem margs konar úrræði koma til greina og sum skyld.

Þessi mál Eyrarbakkahrepps eru þannig vaxin að meirihluti hreppsnefndar hefur ekki skuldbundið sig til að ljúka þeim á neinn sérstakan hátt. Meirihlutinn afsalar sér hvorki völdum né ábyrgð með þessu. Hann ákveður hvaða mál eru lögð fram á þennan hátt og ræður því hvernig hann bregst við niðurstöðu. Góð forstaða hrepps hefur þann hátt á að leita úrræða sem mælast vel fyrir. Með sjóðsatkvæðum má kanna viðbrögð manna á ábyrgan hátt, þeas. með því fá afstöðu manna skjalfesta og vægi málsins mælt í hlutfalli við önnur mál.

Sýnilegt er að vinnubrögðin örva til ábyrgrar þátttöku. Menn bjóða gjarna atkvæði á fleiri en eitt afbrigði. Þess vegna verður ekki eins skýrt og menn hafa átt að venjast hver sigrar og hver verður undir og sigur og ósigur verður ekki eins tilfinnanlegur. Vinnubrögðin laða fram fleiri afbrigði í máli í stað þess sem hefur tíðkast að forstaðan leggur fram aðeins eitt afbrigði, en þá getur afstaða til málsins frekar orðið spurning um hollustu eða andstöðu við forstöðuna en efnisleg. Ætla má að vinnubrögðin haldi við góðum sveitarbrag og bæti hann þar sem sundrung hefur leitt til illinda innan sveitar.

Ekki reynist auðvelt í fámennari sveitahreppum að finna mál sem henta fyrir slík vinnubrögð. Heppileg mál sem iðulega koma upp í fjölmennari sveitahreppum eru fjárframlög til áhugafélaga, framkvæmdaáætlun og kvaðir og álögur varðandi umhverfi.

Framkvæmdin hefur gengið ótrúlega vel á Eyrarbakka. Fyrst var málið kynnt á hreppsnefndarfundi. Þegar þrjú heppileg mál voru fundin var fólk boðað á fund til kynningar. Fundurinn var vel sóttur. Þrír skárust úr leik, tveir vegna fjarveru, en einn án skýringar, og voru fengnir næstu menn á framboðslistunum í stað þeirra. Hreppurinn fékk tölvuforrit til atkvæðareiknings. Svo virðist sem auðveldara verði að finna mál sem henta vinnubrögðunum þegar fleiri koma að.

Tilraunin á Eyrarbakka er liður í vísindalegri rannsókn á atkvæðagreiðsluaðferðum. Ég vil gjarna ræða við fólk sem vill hugsa málið og ég veit að Magnús oddviti hreppsnefndar á Eyrarbakka er fús að skýra frá reynslu sinni.

Frey 92 (1996) 7 288-9