Mig langar að segja frá hugmynd, sem hefur þróast eftir reynslu af sjóðvali í Skaftárhreppi.
Lýðræðissetrið stóð fyrir því. Sjóðvalið var almennt, þ.e.a.s. öllum íbúum á kjörskrá bauðst að vera með. Fyrst má geta þess, að stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála í Háskólanum hélt málþing um almenna atkvæðagreiðslu í ágúst 2009.
Einn frummælenda, Gunnar Svavarsson, bæjarfulltrúi í Hafnarfirði, fjallaði um atkvæðagreiðslu, sem varðaði álverið í Straumsvík. Í almennri umræðu hélt hann að mönnum að kynna sér tök á almennri atkvæðagreiðslu í bókinniLýðræði með raðvali og sjóðvali og hampaði henni.
Aðgerðin í Skaftárhreppi, sem þá var í undirbúningi, byggði á bókinni. Hún stóð árlangt. Fyrsta mál var borið undir atkvæði í nóvember 2009, en síðasta máli lauk í nóvember 2010. Í upphafi gátu menn ýmist hagnýtt sér netið til að bjóða atkvæði eða sent atkvæðaseðil á pósthúsið á Kirkjubæjarklaustri, en um síðir komst allt svæðið í netsamband, og þá varð það eina leiðin.
Þessi mál voru tekin fyrir:
* 1. Sorphirðugjald
* 2. Mörk Vatnajökulsþjóðgarðs innan Skaftárhrepps
* 3. Húsnæði leikskólans
* 4. Yfirstjórn skóla hreppsins
* 5. Árvirkjanir í aðalskipulagi
* 6. Framtíðarstaða Skaftárhrepps
* 7. Ábyrgð hreppsins á samkomuhúsum
Við fyrsta mál hafði hver kjósandi 40 atkvæði í sjóði sínum og fékk 10 atkvæði í hann við hvert mál, sem síðan var tekið fyrir. Kjósandi, sem ekki gaf sig að þremur málum í röð, fékk ekki hina reglubundnu viðbót vegna fjórða máls. Alltaf var kunnugt um minnst tvö dagskrármál á eftir því máli, sem var til afgreiðslu.
Í málunum voru mismörg afbrigði, fæst tvö, um húsnæði leikskólans, en flest 32, um ábyrgð hreppsins á samkomuhúsunum. Þau eru fimm, frá þeim tíma, að hrepparnir á svæðinu voru fimm fyrir 1990. Hver kjósandi bauð atkvæði á afbrigði málsins, flest á það, sem honum þótti mest varið í, og ekkert á það, sem hann vildi síst. Kjósendur með atkvæði á bak við það afbrigði, sem flest atkvæði voru boðin fyrir, misstu atkvæði í hlutfalli við þann stuðning í atkvæðaboðum, sem kom fram fyrir annað, en hinir ekki.
Verkefnið, almennt sjóðval í Skaftárhreppi, var kynnt rækilega veturinn og vorið 2009, meðal annars með heimsóknum á flest heimili. Þá virtist fólk hafa margt í huga, sem taka mætti fyrir. Síðar kom í ljós, að það voru helst mál, sem sneru út á við, að ríkinu. Slík mál, sem varla nokkur hreppsbúi gat verið á móti, áttu ekki við. Málin, sem tekin voru fyrir, voru brýn úrlausnarefni. Ekki var óeðlilegt, að þátttaka væri lítil fyrst, en það var óvænt, hvað þátttaka í síðustu tveimur málunum var lítil. Maður, sem gerst mátti vita, sagði mér varðandi næstsíðasta málið, framtíðarstöðu Skaftárhrepps, að íbúar væru ráðvilltir og hefðu því ekki gefið sig fram með atkvæðaboð. Um ábyrgð hreppsins á samkomuhúsunum mátti skilja, að það kæmi við menn—saga þeirra, uppbygging og viðhald, er slík—en menn hliðruðu sér hjá að taka afstöðu. Þar stóð vitaskuld eftir, ef ábyrgð hreppsins yrði felld niður á húsi, að ákveða, hvað yrði um það.
Það hallar undan fæti í Skaftárhreppi. Það kemur glöggt fram í því, hvað skólabörnum hefur fækkað mikið undanfarið. Í samtali um sjóðval á öðrum vettvangi, við varamann á alþingi, búsettan í Skaftárhreppi, lét ég þess getið, að ég teldi, að almennt sjóðval í strjálbýli myndi örva almenning til þátttöku. Þessi íbúi studdi vel við verkefnið í upphafi, en fluttist síðan burt, í átthaga eiginmannsins, sem hafði misst atvinnuna á Kirkjubæjarklaustri við bankahrunið. Þegar oddvita var kynnt hugmyndin fyrstum allra, leist honum vel á hana, þóttist skilja, að atkvæðaboð af þessu tagi leiddu til hófsamrar afstöðu.
Á vefsíðu Lýðræðissetursins, abcd.is, er kynning á verkefninu Sjóðval í Skaftárhreppi, þ.e.a.s. hvernig að því var staðið, á hverju máli fyrir sig með öllum afbrigðum og á atkvæðaboðum og úrslitum. Það verður nú í höndum hreppsbúa, hvort haldið almennu sjóðvali verður haldið áfram. Lýðræðissetrið hefur ekki frumkvæði að fleiri málum þar, en leiðbeinir án endurgjalds um útfærslu mála, og netþjónustan stendur til boða.
Menn eiga því að venjast að fækka þarf afbrigðum frá því, sem vel má hugsa sér, áður en mál er borið upp, og með því kunna að þrengjast tækifæri almennings til tjáningar. Sjóðval hefur það sér til ágætis, að bera má allmörg afbrigði hvers máls undir atkvæði. Þá er annað gott við sjóðval, ef menn vilja vita almenningsálit, það er, hversu mikið kapp almenningur leggur á hvert mál og afbrigði máls. Ýmis ráð eru til þess að vekja athygli á sér og sínum málstað og ýmsum brögðum beitt, en sumir hafa fá ráð til þess eða engin. Í sjóðvali birtist kappsemin í atkvæðaboðunum.
Eftir reynsluna í Skaftárhreppi hefur skýrst hugmynd, sem reifuð er í Lýðræði með raðvali og sjóðvali (bls. 100-101). Hún er að stofna eins konar fulltrúaráð þeirra, sem eru í hvers konar opinberum nefndum og í stjórnum almennra félaga og taka þar mál fyrir í sjóðvali. Þar mundu mál mótast, hugsanlega með mörgum afbrigðum í upphafi, og vitneskja um það yrði tiltæk þeim, sem taka málið fyrir til afgreiðslu. Þegar fá atkvæði eru boðin í máli yfirleitt, er það athyglisvert fyrir þá, sem ráða málinu til lykta, og sömuleiðis þegar álíka mörg atkvæði eru boðin á þau tvö afbrigði (eða fleiri), sem mest er boðið fyrir.
Sveitarstjórnarmálum 71 (2011) 4 6-7