Heimskulegt væri að ákveða fyrirfram leyfilegt heildarmagn kindakjöts af beitaralmenningi. Í umræðum um nýtingu fiskislóða standa deilur um ráðstöfun á réttinum til hlutdeildar í leyfilegum heildarafla þorsks og annars sjávarfangs af fiskislóð, sem er almenningur. Sýnt verður fram á, að það er jafnheimskulegt að ákveða fyrirfram leyfilegan heildarafla þorsks úr sjó og að ákveða fyrirfram leyfilegt heildarmagn kindakjöts af afrétti.

Hagfræðingar, sem ráða umræðu um nýtingu fiskislóða, hafa ekki fjölbreytileg sjónarmið lífríkis. Athyglin beinist að heildarafla ákvörðuðum fyrirfram af mönnum (stjórnvaldi). Þeir leggja á ráðin, hvernig ráðstafa beri (skipta) réttinum til þessa afla. Fyrst forsendan, sem þeir gefa sér, fyrirfram ákveðinn leyfilegur heildarafli, er heimskuleg, væri merkilegt, ef afleiðingin reyndist ekki óþörf.

Lífríkið stjórnast af framboði og eftirspurn. Framboð fæðu er takmarkað og sveiflast, eins og allt í lífríkinu, en eftirspurnin ræðst af fjölda lífvera, sem sveiflast líka. Búskapur felst í því að hafa lífverurnar, sem nýta á, hæfilega margar miðað við fæðuna. Hygginn fjárbóndi heldur fjártölunni niðri miðað við fóður. Ef hann eykur ekki fóðuröflun stórlega, hlýtur hann að farga flestum lömbunum, eins og viðkomu er háttað. Þegar fé er á fjalli, á hann ekki við sjálfan sig, hvernig fer um næringu fjár hans, heldur er nýting afréttarins á hendi stjórnar upprekstrarfélags. Nýting slíks almennings er um margt lík nýtingu fiskislóða, sem eru almenningur, eins og nú skal rakið.

 

Samanburður á stjórn beitaralmennings og þorskveiða

Næg næring í upphafi
Stjórn upprekstrarfélags þarf að ákveða að vori, hvenær má reka á fjall. Það ætti ekki að gera, fyrr en kominn er nægur gróður, svo að ær mjólki lömbum vel og þau dafni.

Ferðir þorsksins verða ekki af mannavöldum nema óbeint. Þorskurinn fer þangað, sem æti er að finna, og hörfar þaðan, sem ekki er æti. Menn ráða ekki göngu þorsks; menn ráða því sem sagt ekki, hvenær og hvar þorskurinn gengur á mið (þéttir sig), en menn hafa áhrif á það með veiðum og veiðiaðferðum, hversu margt er af hinum ýmsu árgöngum á miðunum. Að þessu leyti felst viti borið eftirlit í þágu þorskveiða í því að fylgjast með lífsskilyrðum hans, sem birtast áþreifanlegast í þrifum hans á ýmsum aldri, og viti borin stjórn þorskveiða felst í því, að veitt sé eða tortímt svo miklu af ungum og gömlum þorski, að næring verði til góðra þrifa á öllum aldri. Um þetta eru álitaefni og ágreiningsefni, sem menn láta sig varða mismikið, og ólíkir hagsmunir.

 

Að gæta auðlindar
Beitargróðurinn á afrétti er auðlind landsins. Til að varðveita hann þarf að varast að reka svo snemma á fjall, að gróðurfar spillist af beit. Ætla má, ef of snemma er rekið, að þess gæti fyrr í vanþrifum búfjárins en í spilltu gróðurfari. Það er í verkahring stjórnar upprekstrarfélags að sjá til þess, að ekki sé rekið fyrr en gott er fyrir gróðurinn.

Æti þorsksins af ýmsu tagi er auðlindin, sem er sambærileg við gróðurfarið, sem veitir beitarfénu næringu. Næringarskilyrði þorsksins má meta með því að athuga næringarástand þorsksins á ýmsum aldri; þau verða varla mæld betur. Menn hafa ekki á valdi sínu að tefja göngu þorsks á miðin, þótt ætla megi, að þar sé litla næringu að hafa fyrir hann, en menn hafa á valdi sínu að halda þorskstofninum á ýmsu aldursskeiði innan þeirra marka, að hann þrífist eðlilega. Viti borið eftirlit í þágu þorskveiða felst í því að fylgjast með þrifum þorsksins, og viti borin stjórn þorskveiða felst í því að vinna að því, að nægileg næring verði til góðra þrifa með því að beita þannig veiðarfærum, að nægilega mikið tortímist af ungviði, og veiða nægilega mikið. Um þetta eru álitaefni og ágreiningsefni, sem menn láta sig varða mismikið, og ólíkir hagsmunir.

 

Hemill á tímgun - tortíming ungviðis
Stjórn upprekstrarfélags er ætlað að hafa hemil á upprekstri, en það er á ábyrgð fjáreigenda hvers um sig að hafa hemil á tímgun fjárstofns síns. Æxlunin ein og sér mundi valda meiri fjölgun en orðið getur lífs auðið. Að hausti tekur fjáreigandinn af skarið um það, hversu margt fær að lifa, og þar munar mest um ungviðið, sem fer til slátrunar, og er undir opinberu eftirliti um að setja ekki fleira á en svarar til þess vetrarfóðurs, sem hann á víst. Í umhverfismálum er iðulega talað um, að náttúran eigi að njóta vafans um áhrif af umdeildum aðgerðum. Við ásetning búfjár fá gripirnir að njóta vafans; ella væri hætta á, að þeir lentu í næringarskorti. Aðeins brot fær að lifa af því, sem fæddist að vori.

Sjónarhornið við viti borna stjórn þorskveiða er, að aðeins er lífvænlegt fyrir brot af þeim seiðum, sem klekjast út. Þau farast langflest einhvern veginn, meðal annars af næringarskorti. Því meira sem næringarskorturinn ræður í því efni, því meira gætir vannæringar hjá þeim, sem ætlunin er að hafa hag af að veiða. Viti borin stjórn þorskveiða miðast því við að beita veiðarfærum þannig, að svo mikið farist af seiðum og ungfiski, að hungur og næringarskortur spilli ekki bráðinni, heldur fái það, sem nær þroskaaldri, að dafna frá ungum aldri til fulls þroska. Með því að grisja nægilega nýtur þorskurinn vafans, svo að það, sem lifir áfram, búi ekki við næringarskort. Um þetta eru álitaefni og ágreiningsefni, sem menn láta sig varða mismikið, og ólíkir hagsmunir, meðal annars með tilliti til veiðarfæra, sem eru misdrjúg við að tortíma ungviði og því misáhrifamikil við að bæta lífsskilyrði þess hluta árgangsins, sem næring hafsins getur nægt.

 

Hægur vöxtur á fjalli - hægur vöxtur í sjó
Ef þrif afréttarfjárins reynast óviðunandi, þegar kemur fram á sumar, er ekki annað ráð en sækja hluta af því og koma því til byggða - féð verður gjarna fyrra til, þegar gróður reynist því rýr, og leitar niður að afréttargirðingu.

Ef þrif þorsks reynast óviðunandi, ætti með sömu rökum að fækka honum; það verður aðeins gert með því að veiða hann. Í þessu eru álitaefni og kunna að vera ólíkir hagsmunir.

 

Búfjárfellir - hrun þorskstofns
Á fyrri öldum féll búfé oft í heilum héruðum. Því olli fóðurskortur; menn settu fleira á vetur en fóður var til handa, þegar harðnaði í ári. Nú eru í gildi lög, og hafa verið lengi, sem skylda menn til að eiga tryggt nægilegt fóður, og opinbert eftirlit með því, að svo sé.

Í hafinu verður iðulega hrun í fiskstofni. Því veldur ætisskortur. Þegar vel árar, verða fiskar eðlilega margir og þrífast, en æti skortir handa svo mörgum, þegar kólnar. Þá verður hrun af hungursneyð. Maðurinn getur brugðist við hungursneyð á landi með því að sækja fæðu og fóður, en í hafinu er aðeins eitt ráð við hungursneyð (hruni), að veiða meira. Hér kann að koma til kasta þeirra, sem ráða aðgerðum fiskveiðistjórnar.

 

Ofbeit og vanveiði hliðstæður
Stjórn afréttarfélags þarf að fylgjast með beitargróðri að sumrinu, að hann spillist ekki af ofbeit. Ef hætta er á ofbeit, þarf að fækka í högum; það er ekki aðeins, að gróðurfar spillist við ofbeit, heldur skortir beitarpeninginn næringu.

Í sjó er sambærilegt við ofbeit, að þorskinn skortir næringu. Ráðið er líkt og á afrétti að fækka þorskinum með því að veiða meira eða haga veiðum svo, að meira tortímist af seiðum og yngra fiski, sem ekki er fengur í. Ef menn óttast, að þorskurinn gangi of nærri eigin næringarskilyrðum, er ráðið líka að fækka þorskinum. Of mikið beitarálag með þar af leiðandi rýrum vexti lamba á afrétti og magur fiskur í sjó eru því hliðstæð einkenni á óhagkvæmri stjórn. Þorskur étur rækju. Það bitnar því á rækjustofninum og rækjuafla, ef þorskinn vantar næringu (er magur). Um þetta eru álitaefni og ágreiningsefni, einkum að því er sjóinn varðar, og menn láta sig varða mismikið.

 

Magur fiskur geymdur til betri tíma - afréttarfé í svelti að vori
Þorskur étur loðnu. Stærð loðnustofnsins sveiflast verulega. Til er það sjónarmið, þegar þorskur er magur og lítið um loðnu, að veiða ekki þorskinn, þótt viðurkennt sé, að þorskstofninn sé of stór miðað við næringarskilyrði. Það á að verða til þess, þegar loðnustofninn stækkar, að nóg verði til af þorski til að nýta loðnuna sem best. Soltinn þorskur bíður reyndar ekki eftir því, að loðnan stækki, heldur seður hungur sitt strax á henni, og því stækkar loðnustofninn ekki, en sjálfur nær þorskurinn ekki þeim vexti, sem hann nær við næga og stöðuga næringu. Í þessu eru álitaefni og kunna að vera ólíkir hagsmunir.

Hliðstætt því að ætla sér að geyma magran fisk í sjó til betri tíma er að senda fé á afrétt að vori, þótt gróður vanti, af því að menn vænti þess, að á miðju sumri verði nægur gróður. Hungraður þorskur étur loðnuna upp, áður en stofninn styrkist, og soltið sauðfé nagar landið niður í svörð og gróðurfar spillist og gróðrinum nýtist ekki af sumarhlýindunum, en lömbin vantar stöðuga og næga næringu og hljóta því ekki eðlilegan vöxt. Um þetta eru ekki álitaefni.

 

Takmörkun heildarfallþunga - takmörkun heildarafla
Enda þótt tíð sé góð fram eftir hausti og gróður nægur og gripir dafni því á afrétti, kemur ekki til greina hér á landi að framlengja beitartíma á haustin; tíðarfari er ekki að treysta og haustverkum þarf að sinna, áður en vetur gengur í garð. Fráleitt þætti hins vegar að miða beitartíma við, að náð sé fyrirfram ákveðnu samanlögðu kjötmagni, og fé sótt fyrr á fjall, þegar vel árar, og stöðva þannig nýtingu landsins, þegar best lætur.

Stjórn þorskveiða hér á landi hefur hins vegar verið þannig, að heildarafli hefur verið takmarkaður fyrirfram og ósveigjanlega með tilliti til betri gangna þorsks en gert var ráð fyrir við ákvörðun um leyfilegan heildarafla, en ekki hirt um ráð til að halda niðri fjölda í hverjum árgangi með tilliti til þrifa veiðistofnsins. Það er sambærilegt við að ákveða leyfilegt heildarkjötmagn af afrétti og skipa mönnum að reka fé af fjalli, þegar áætlað er, að það hafi náðst, en gera engar ráðstafanir til að tryggja þrif þess, sem á afrétti gengur, með því að takmarka fjárfjöldann, sem rekinn er á fjall.

 

Takmörkun upprekstrar - takmörkun sjósóknar
Álag á afrétti er gjarna metið í tölu fullorðins fjár. Bændur hafa undanfarið hver fyrir sig fækkað svo fé og hætt að reka, að ekki hefur þótt ástæða fyrir stjórnir upprekstrarfélaga að ákveða heildarfækkun, en ætla má, ef slíkri fækkun ætti að jafna á fjáreigendur, að viðmiðunin yrði fjöldi fullorðins fjár. Líta má á hverja lambá sem sóknareiningu á afrétti, en slíka algilda sóknareiningu vantar um sjósókn, eins fjölbreytileg og hún er nú.

 

Fjölbreytileg álitaefni og ólíkir hagsmunir
Þau álitaefni, sem sum tengjast hagsmunum, sem hér hafa verið rakin, eru þannig vaxin, að þeim verður auðveldlega ráðið til lykta í tiltölulega samstæðu félagi, eins og sauðfjársveit er, enda eru hin lífrænu álitaefni auðsærri þar en í sjónum og um minni hagsmuni að tefla en við sjósókn. Vandinn er sá við stjórn á nýtingu sjávarins, ef ekki á að einblína á leyfilegan heildarafla, ákvörðun hans fyrirfram og skiptingu, heldur beina athyglinni að hinum margþættu ágreiningsefnum, að ágreiningsefnin verða varla útkljáð með þekktum aðferðum hagfræðinga og stjórnmála. Það sýnist hins vegar mega gera með sjóðvali, sem ég hef m.a. kynnt íSveitarstjórnarmálum árið 1996.

Ægi: 93 (2000) 4 36-38