Svo getur farið í skoðanakönnun (prófkjöri, svo dæmi sé tekið), að enginn þeirra, sem settu fram álit sitt, vildi fyrir nokkurn mun það, sem varð niðurstaða. Menn eru vanir vandræðum við atkvæðagreiðslu og virðast helst halda, að vandræðin séu óhjákvæmileg. Hér verða nefnd nokkur dæmi um vandræðagang við atkvæðagreiðslu og kosningu til að minna á, að við raðval eða sjóðval yrðu ekki slík vandræði.

 

Atkvæðagreiðsla um Nóbelsverðlaun

Nýlega kom fram í umræðum um bókmenntaverðlaun Nóbels 1955, að tveir þeirra átján, sem eru atkvæðisbærir um þá, sem tilnefndir eru, höfðu gert tillögu um Gunnar Gunnarsson, en þegar til kom, hlaut hann ekki atkvæði þeirra né annarra.

Nú kann að vera, að þeim hafi snúist hugur, þegar þeir fréttu af öðrum tilnefningum eða þeir hafi talið Gunnar njóta svo lítils stuðnings, að ekki væri ástæða til að greiða honum atkvæði.

Öðru máli gegnir í raðvali. Þar hefðu þeir tveir getað raðað Gunnari efst, þótt þeir vissu, að hann hefði lítið fylgi, og sett næst höfund, sem þeir mátu mikils, en síðri en Gunnar. Með raðvali hefði ekki heldur þurft að þreifa sig áfram með endurtekinni atkvæðagreiðslu til að finna niðurstöðu, eins og gert var, heldur hefði eitt raðval sýnt hana.

 

Þjóðaratkvæðagreiðsla

Mál, sem ástæða gæti þótt til að bera undir þjóðina, getur verið þannig vaxið, að það megi útfæra á fleiri nokkuð líka vegu. Þegar svo er, getur meirihluti verið á móti hverju og einu þessara afbrigða með tilliti til þess, að eitthvert hinna afbrigðanna kæmi fram síðar. Þau gætu því öll fallið, ef þau væru borin undir atkvæði eitt í einu, enda þótt almennur vilji væri til að hafna málinu ekki, heldur ljúka því. Fyrir þá, sem vilja bera mál undir þjóðina, getur verið úr vöndu að ráða að komast hjá því, að meirihluti snúist gegn því afbrigði, sem borið er upp, þrátt fyrir stuðning við málstaðinn almennt.

Í raðvali er vandinn minni. Þar er ekkert að því að bera fleiri afbrigði upp samtímis. Niðurstaðan er skýr með þeim rökum, sem þar gilda.

 

Hreppasundrung

Þrír hreppar voru sameinaðir fyrir norðan, hver með sinn barnaskóla. Ráðamönnum hins nýja hrepps þótti heppilegt að leggja einn skólann niður. Það kom illa við marga, sem notið höfðu hans, en þeir urðu undir, voru minnihluti og nutu ekki stuðnings utan síns skólahverfis.

Ef leitað væri álits með sjóðvali í slíku samfélagi, hefði reynt á, hversu miklu þeir, sem héldu fram litla skólanum, vildu kosta í atkvæðum fyrir hann. Hefði það reynst meira en fjölmennið vildi kosta í atkvæðum til að leggja hann niður, hefðu þeir bjargað skólanum, en orðið í staðinn áhrifaminni í næstu hreppsmálum, samkvæmt lögmáli sjóðvals. Ætla má, að slík málsmeðferð ylli minni sársauka en raunin varð, á hvern veg sem úrslitin yrðu, og félagsandi yrði betri í nýja hreppnum.

 

Skilvirkt prófkjör

Nú viðgengst við prófkjör, að menn raða frambjóðendum og segja með því: Ég vil Sigurð í fyrsta sæti, Guðrúnu í annað sæti, Hrefnu í þriðja sæti og Árna í fjórða sæti. Hugsum okkur, að enginn setji Sigurð í 1. sæti með Árna í 2. sæti. Samt getur niðurstaða prófkjörsins orðið sú, að þeir verði í efstu tveimur sætunum. Aðferðin hefur verið sú, ef við takmörkum dæmið við tvö efstu sætin, að kjósanda gefst ekki kostur á að segja: Ég vil Sigurð í fyrsta sæti, en því aðeins að Guðrún verði í öðru sæti. Ég vil Sigurð ekki í fyrsta sæti, ef Árni verður í öðru sæti og svo framvegis.

Þetta má tjá í raðvali. Þá er um að velja Sigurð í 1. sæti með Guðrúnu í 2. sæti, Guðrúnu í 1. sæti með Sigurð í 2. sæti, Sigurð í 1. sæti með Árna í 2. sæti, og svo framvegis.

*

Þessi dæmi mega minna á það, hversu oft atkvæðagreiðsla getur farið í handaskolum með þeim aðferðum, sem tíðkast, en með raðvali og sjóðvali minnka vandræðin. Aðferðirnar hafa þegar verið kynntar í ritum, og vísast til þess. Þeim, sem vilja glöggva sig á þeim, er vísað á slóðina http://www.abcd.is/; þá má líka hafa tal af mér í Reykjavíkurakademíunni.

Morgunblaðinu, 11. febrúar 2006, 52