Lýðræðisvitund og siðferði

Frá Lýðræðissetrinu í Reykjavíkurakademíunni kynna dr. Björn S. Stefánsson og Anna Rún Tryggvadóttir, samverkamaður hans, hvernig hægt er að auka lýðræðisvitund Íslendinga og bæta siðferði við ákvarðanir í félögum og á stjórnsýslustigi.

Síðastliðið haust var haldinn fundur í Vísindafélagi Norðmanna um kenningar dr. Björns S. Stefánssonar um lausn álitamála. Björn hefur sett fram kenningar sínar í ritinu Lýðræði með raðvali og sjóðvali sem kom út á íslensku árið 2003. Björn sagði Arnþóri Helgasyni frá kenningum sínum.

Í formála að bókinni Lýðræði með raðvali og sjóðvali kemst norski hugmyndasagnfræðingurinn og stjórnmálaheimspekingurinn Knut Midgaard svo að orði:

„Varanleg meirihlutastjórn og varanlegur minnihluti getur vel leitt til harðstjórnar. Í kenningum um stjórnarfar eru skilyrðin fyrir því að komast hjá harðstjórn meirihluta sígilt efni. Svo er einnig í þessu riti Björns Stefánssonar. Nánar tiltekið lýsir Björn því, hvernig ákveðnar aðferðir til að meta og leggja saman forgangsraðir manna geta hamlað gegn því, að minnihluti verði vanmáttugur, þ.e.a.s. verði ranglega á valdi meirihlutans.

Svo að segja megi, að lýðræði sé vel virkt, er þess vegna nauðsynlegt, að enginn sé háður gerræði annars að neinu marki. En þetta er ekki nægilegt. Það er líka nauðsynlegt, að samlagningaraðferðirnar séu fullnægjandi að öðru leyti. Sérstaklega er þess að gæta, að sá, sem greiða á atkvæði, sé ekki settur í klípu að nauðsynjalausu. Í því sambandi ættu aðferðirnar að leiða til þess, að grundvöllur vitneskju fyrir hópákvarðanir verði eins góður og kostur er, og þær ættu að leiða til þess, að fjallað verði um mál opinskátt og sameiginlega frekar en í leynd og í sundrungu.“

Björn Stefánsson fæddist í Reykjavík árið 1937. Eftir stúdentspróf nam hann við Bændaskólann á Hólum. Að loknu námi við Landbúnaðarháskóla Noregs var hann um skeið ritstjóri Búnaðarblaðsins. Eftir það stundaði hann framhaldsnám við Landbúnaðarháskóla Noregs í landbúnaðarhagfræði.

Björn hefur starfrækt Lýðræðissetrið um nokkurra ára skeið, en það hefur aðsetur í Reykjavíkurakademíunni. Þaðan sinna þau Anna Rún Tryggvadóttir, samverkamaður hans, kynningu á því hvernig hægt er að auka lýðræðisvitund Íslendinga og bæta siðferði við ákvarðanir í félögum og á stjórnsýslustigi. Auk þess starfar Sara Riel við setrið, en hún dvelst um stundarsakir í Kína og sinnir m.a. þaðan heimasíðunni http://abcd.is sem er vefur Lýðræðissetursins.

 

Aðdragandinn

„Á meðan ég stundaði framhaldsnám í Noregi kynntist ég félagsvísindamönnum sem höfðu áhuga á að fá fréttir frá Íslandi og greina þær með aðferðum sínum,“ hefur Björn frásögn sína eftir að við höfum komið okkur fyrir uppi á 5. hæð JL-hússins þar sem Lýðræðissetrið er til húsa. Skrifstofan er í kvisti undir súð og andrúmsloftið heimilislegt.

„Það varð til þess að ég hóf rannsókn á tveimur byggðarlögum á Austurlandi og kannaði einkum hvernig menn réðu málum til lykta. Ég sá fljótlega að nauðsynlegt væri að finna ráð til þess að lítill minnihluti ætti ekki á hættu að verða ofurliði borinn og sæta afarkostum. Í bígerð var að sameina þessi tvö sveitarfélög en annar hreppurinn var fjórum sinnum fjölmennari en hinn. Það var því hætta á að minnihlutinn yrði undir í flestum málum.“

 

Ágreiningur jafnaður

Björn rannsakaði síðan öll stig íslenskrar stjórnsýslu og kynntist hvernig hægt er að vinna úr ágreiningsmálum með samkomulagi.

Hann uppgötvaði aðferð til þess að þeir, sem eru fáir og smáir, geti beitt áhrifum sínum, en þó í hófi. Þessa aðferð nefndi hann sjóðval.

„Nokkru fyrr eða árið 1970 hafði bandaríski félagsfræðingurinn Coleman birt hugmyndir sínar um svokallaða stjórnpeninga,“ heldur Björn áfram. „Hann leitaði þar fyrirmyndar í hagkerfinu og ætlaði sér að byggja brú á milli málaflokka og hugmyndahópa í þeim anda sem peningar mynda brú á milli manna. Honum tókst þetta ekki.

Ég fann hins vegar óyggjandi aðferð til þess að framkvæma þetta og birti fyrstu niðurstöður mínar á norsku árið 1971.

Norskur hagfræðingur, Leif Johansen að nafni, sem hefði sennilega orðið nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, ef hann hefði ekki fallið frá fyrir aldur fram, gerði sér strax grein fyrir því að þessi aðferð héldi og varð það sennilega til þess að fremstu félagsvísindamenn Norðmanna tóku hugmyndina upp á sína arma. Hafa þeir verið bakhjarl minn síðan.

Tekið skal fram að hugmyndin um sjóðval er í raun uppfinning mín. Ég fékk menn til að prófa hana hér á landi og fékk m.a. til þess styrk úr norrænum sjóði um þjóðfélagsrannsóknir.“

 

Mál sett á eins konar uppboð

–Geturðu lýst sjóðvali í stuttu máli?

„Sjóðval felst í því að menn kosta til ákveðnum fjölda atkvæða í hverju máli sem upp kemur. Í raun má segja að málin séu sett á uppboð og menn bjóði í hverja lausn ákveðinn fjölda atkvæða allt eftir því sem hugur þeirra stendur til, mismörg á afbrigði hvers máls.

Þessi aðferð á einkar vel við þegar fjallað er um ýmis álitamál t.d. í félögum og innan sveitarstjórna.

Aðferðin var reynd m.a. á vegum Eyrarbakkahrepps og innan vébanda búnaðar-sambandanna í landinu sem þá voru 15. Á Eyrarbakka höfðu þrír listar verið í framboði til sjö manna hreppstjórnar og var öllum sem voru á listunum boðið að taka þátt í tilrauninni. Þannig urðu þátttakendur 21. Í upphafi var hverjum úthlutað atkvæðum í hlutfalli við fylgi síns lista. Síðan fengu menn við hvert mál, sem tekið var fyrir, atkvæði sem nam fjórðahluta upphaflegu atkvæðatölunnar.“

Meiri reynsla fékkst af þessu á vettvangi búnaðarsambandanna, en þar var sex málum ráðið til lykta með sjóðvali.

Björn segir að með sjóðvali endurspeglist starf í félagsskap þar sem ríkir góður andi. Í ýmsum félögum vita menn nokkurn veginn hvaða mál koma upp. Ágreiningsmál eru afgreidd með jafnræði meðal þátttakenda í huga til lengri tíma litið og mál afgreidd einróma með tilliti til slíkrar sanngirni. Þegar félögin stækka getur orðið erfiðara að gæta slíks jafnvægis, en það gerist með sjóðvali.

„Eins og áður sagði fá menn úthlutaðan tiltekinn fjölda atkvæða og geta ráðið hversu mörgum atkvæðum þeir verja til ákveðins máls og á afbrigði þess. Af þeim sem stóðu að sigrinum eru dregin atkvæði, en ekki af hinum. Þannig verður til sjóður sem menn geta gripið til í málum sem þeim þykir miklu skipta. Með þessum hætti kunna hefðbundnar fylkingar að riðlast.“

 

Stórmál

Sumum málum er þannig háttað að kjörnum fulltrúum er ætlað að afgreiða þau án þess að þeir hafi haft þau á stefnuskrá. Má þar nefna m.a. aðalskipulag. Starfsmenn Lýðræðissetursins hafa að undanförnu verið á ferðinni til þess að kynna notkun sjóðvals í slíkum málum. Til stendur að ráða fyrirtæki í Ósló til þess að sinna skipulagsmálum í borginni með tilliti til sjóðvals.

„Fiskveiðistjórn er annað dæmi,“ segir Björn. „Fyrir nokkru kom bókin út í Færeyjum, en þar er fiskveiðistjórn stöðugt til umfjöllunar og lögð er fram tillaga sérstakrar nefndar á hverju ári við setningu Lögþingsins um stjórn fiskveiða.

Hið sama á við hér á landi – fiskveiðistjórn er stöðugt til umfjöllunar á Alþingi og víðar. Ég hef mikinn hug á að kynna alþingismönnum þessa aðferð og fá þá til þess að reyna sjóðval við að endurnýja reglur um fiskveiðistjórn. Af því ætti að fást leiðbeinandi niðurstaða um það hvernig leysa mætti þau ágreiningsmál sem uppi eru.“

Björn nefnir ennfremur rammaáætlun um nýtingu orkulinda. Hann fékk átta starfsmenn Orkustofnunar í hermileik um þessi mál þar sem beitt var sjóðvali. Sveinbjörn Björnsson, fyrrverandi háskólarektor, sem var formaður verkefnisstjórnar rammaáætlunarinnar og tók þátt í hermileiknum heldur því fram, að sjóðval sé heppilegt til að ráða slíku máli til lykta.

Hægt er að beita sjóðvali til þess að fá fram bráðabirgðaniðurstöðu í málum og mótar hún þá framhald málsins. Þannig geta menn auðveldað sér að komast að niðurstöðu í ýmsum álitamálum sem virðast flókin úrlausnar.

 

Raðval ólíkra afbrigða

Björn segist hafa dottið niður á hugmyndina um raðval þegar hann var að móta hugmyndir sínar um sjóðvalið. Raðvalið er skylt aðferð Borda, sem notuð var í Vísindafélagi Frakka um nokkurra ára skeið eftir frönsku byltinguna.

„Raðval hefur þann eiginleika að það skapar engan vanda þótt eigi að kjósa um fleiri en tvo kosti,“ segir Björn. Hann fullyrðir að eins og nú sé háttað geti orðið flókið að efna til kosninga ef 3-5 afbrigði eru í boði.

„Kjósandinn raðar afbrigðunum eins og honum finnst. Að kosningunni lokinni er málið gert upp á svipaðan hátt og á skákmóti.

Tökum dæmi.

Þrjú afbrigði eru í boði. A, B, C. Kjósandinn segir: A er best, B kemur þar á eftir og C er síst. Þar með hefur hann sagt eins og á skákmóti að A vinni B og C og fái þar með tvo vinninga. B vinnur C og fær einn vinning.

Annar kjósandi segir C, A, B. Þá eru tveir vinningar á C og einn á A.

Þriðji kjósandinn gerir ekki upp á milli A og C en telur B besta kostinn. Þá falla tvö stig á B en hálft á A og C, eins og um jafntefli sé að ræða.“

Björn telur að flestum málum sé þannig háttað að fleiri en tvö afbrigði eigi við. Hann nefnir m.a. atkvæðagreiðsluna um álver í Hafnarfirði í fyrravetur. Sumir lýstu samþykki við deiliskipulagið en vildu ekki að álverið yrði stækkað að sinni og gafst ekki kostur á að tjá það. Það hefði mátt með raðvali. Raunin hafi orðið sú að úrslit atkvæðagreiðslunnar voru umdeilanleg.

Björn nefnir einnig kjör í stjórnir þar sem t.a.m. er kosið um þrjá. Með raðvali geta menn raðað stjórnarmynstrum með ýmsum hætti, svo sem:

 

ABC

ABD

ACD

o.s.frv.

 

Þá nefnir hann ýmis skilyrði sem oft eru sett við kosningar s.s. tiltekinn fjölda nýliða, kvenna og karla. Hann tekur sérstaklega sem dæmi prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ veturinn 2006 þegar karlmenn vermdu fjögur efstu sæti, úrslit sem varla er hugsanlegt að nokkur hafi kært sig um. Slíkt hefði ekki gerst ef menn hefðu viðhaft raðval. Hann segir, og brosir við, að samt hafi Sjálfstæðisflokkurinn aukið þar við fylgi sitt í þessum kosningum.

 

Þjóðarblóm með raðvali

–Hvernig hefur þér gengið að koma þessum fræðum á framfæri?

„Fyrir nokkrum árum var ákveðið að Íslendingar skyldu eignast þjóðarblóm. Framkvæmdastjóri Landverndar vakti þá athygli stjórnvalda á að það yrði að viðhafa raðval við kosninguna til að forðast vandræði við að túlka niðurstöðuna. Tóku menn afar vel við sér og var efnt til þjóðarkosningar á vef mbl.is. Þeir sem ekki voru kunnugir aðferðinni brugðust ekki við með neinum hætti og fjölmiðlamenn sýndu þessu nýmæli algert tómlæti.

Í bókinni um lýðræði með raðvali og sjóðvali er svo mikið efni að hver meðalblaðamaður hefði getað innt vikuskyldu sína af hendi með því að taka úr bókinni ýmis viðfangsefni. En vitur maður sagði eitt sinn að fremdin yrði að koma að utan,“ segir Björn.

 

Tímamótakenningar

Birni hafa nú verið fengin betri efni til starfa og hefur því nægilega rúm fjárráð til þess að geta kynnt þessi fræði á víðari vettvangi en áður. Hann segir að með málþinginu, sem háð var á vegum Vísindafélags Norðmanna í lok ágústmánaðar, hafi því verið slegið föstu að kenningarnar um raðval og sjóðval mörkuðu tímamót í fræðunum. „Menn viðurkenna að þetta verður ekki endurtekið. Uppgötvun Newtons var jafngóð fimm árum eftir að hann setti hana fram og hið sama er upp á teningnum hjá mér. Það hefur ekkert komið fram sem haggar því.“

 

Vigdís varð hrifin

Um daginn kom frú Vigdís Finnbogadóttir í heimsókn í Lýðræðissetrið og voru henni kynntar aðferðir þær sem fjallað er um í bók Björns. Hét hún því að kynna aðferðirnar í hópi fyrrverandi þjóðhöfðingja.

Það vakti forvitni blaðamanns að ekki skyldi fjallað um aðferðirnar á ráðstefnu sem efnt var til fyrir skömmu og fjallaði um íbúalýðræði.

„Þessar aðferðir eiga ekki endilega við á slíkum vettvangi fremur öðrum,“ svarar Björn og bætir því við að stjórnmálamenn séu um of mótaðir af því að búa sér til ákveðna stefnu í tilteknum málum. „Síðan þurfa þeir eða telja sig þurfa að verja þessa ímynduðu stefnu fyrir kjósendum sínum.

Þeir vilja einnig ráða því hvaða afbrigði eru lögð fram. Aðferðir þær sem ég hef kynnt myndu hins vegar gerbreyta starfsskilyrðum þeirra.“

Ég spyr Björn að lokum hvort um þessar kenningar sé fjallað í félagsvísindadeild Háskóla Íslands og kveður hann nei við því. Þegar ég spyr hvers vegna svarar hann:

„Spyrðu þá að því.“

Morgunblaðinu 20. apríl 2008