Hér verður athugað, hvernig móta má samningskjör með raðvali. Hugsunin um það fór á stað í núverandi þrengingum, en umfjöllunin gildir einnig í venjulegu ástandi.
Atvinnulaus kona, með góða starfsmenntun, benti á það í grein í Morgunblaðinu 4. janúar (Agnes Vala Bryndal: Niðurskurður og launahækkanir), að þrátt fyrir þröngan fjárhag ýmissa opinberra stofnana hefði verið samið um bætt kjör við starfsmannafélög þeirra. Því hljóti fólki að verða sagt upp til þess að ráða við þannig aukin útgjöld. Greinarhöfundi fannst ekki mikið vit í því við þessar kringumstæður að semja um hækkun launa starfsstéttar og auka þannig atvinnuleysi í stéttinni.
Það má alltaf búast við því, að ágreiningur sé í stéttarfélagi, hvert eigi að stefna, þegar samið er um kjör. Fulltrúar, sem vinna að samningum, hafa sínar hugmyndir um, hvað félagsmenn vilja, að reynt sé. Fulltrúarnir gætu til að glöggva sig á því haft raðval meðal félagsmanna eða trúnaðarmanna um ýmsa kosti, þar sem meðal annars yrði kjarabót í launum eða kjaraskerðing metin með tilliti til atvinnuöryggis. Þá yrði stillt upp fleiri kostum. Einn kosturinn væri, að launin væru óbreytt, en með því móti mætti búast við, að svo og svo mörgum yrði sagt upp vegna minni fjárráða vinnuveitenda, sem hér eru ýmsar opinberar stofnanir. Annar kostur væri, eins og áður sagði, að hækka laun, en það leiddi fyrirsjáanlega til uppsagna og minni endurnýjunar tækjabúnaðar. Þriðji kosturinn væri að semja um svo mikla lækkun launa, að ekki þyrfti að segja upp fólki og ráð yrðu til að halda við tækjabúnaði. Raðval gerir auðvelt að hafa tvo-þrjá kosti með hækkun launa og tvo-þrjá með launalækkun. Ef samið yrði um lækkun, mætti áskilja, að fulltrúar starfsmanna gætu, þegar þeim byði svo við að horfa, sagt samningnum upp og látið lækkunina ganga til baka; það gæti verið, ef mönnum sýndist ekki hafa farið um mannahald, eins og ætlað var.
Með slíku raðvali glöggvuðu samningamenn sig á því, hvernig þeir geti best beitt sér fyrir kjörum, sem félagsmenn gætu helst fallist á í almennri atkvæðagreiðslu. Reyndar gæti niðurstaða raðvalsins bent til þess, að meirihluti félagsmanna yrði á móti hverjum þessara kosta sem væri, einnig þeim, sem er efstur í raðvali. Það er reyndar staða, sem samningamenn eru ekki óvanir.
Þá mundi það fylgja slíkum vinnubrögðum, að málflutningur yrði opinber, fulltrúar launþega mundu rökstyðja, hvernig gæta megi hagsmuna félagsmanna, þar sem allir mega sjá og heyra.
Morgunblaðinu, 11. mars 2009