Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10, Reykjavík

Lýðræðissetrinu hafa borist til umsagnar frá utanríkismálanefnd Alþingis tillögur til þingsályktunar, er varða aðild að Evrópusambandinu.

Lýðræðissetrið heldur að mönnum raðvali og sjóðvali. Í sjóðvali kemur fram, hversu mikið kapp menn leggja á mál og afbrigði máls. Þar má hafa allt undir, það er að segja allar hliðar máls og málefnis. Í raðvali er skýrt, hvernig menn taka eitt afbrigði máls fram yfir annað. Það truflar ekki, þótt afbrigðin séu allmörg.

Menn sækjast eftir festu í efnahagsmálum. Verslunarráð vildi, að Ísland leitaði hennar í Efnahagsbandalagi Evrópu 1961, en nú vill Viðskiptaráð fá hana í Evrópusambandinu. Í greininni Að loknum fjármálasviptingum er bent á sjóðval til að fá festu, óháð Evrópusambandinu.

Helsta þolraun stjórnvalda frá því um 1930 til þessa dags hefur verið að bregðast við hagsveiflum úti í heimi og árferðissveiflum innanlands. Oft hafa orðið stjórnarvandræði. Vandræðin hafa í stuttu máli helst verið þau, annars vegar, að ekki hefur tekist að hafa hóf á umsvifum og eyðslu eða það hefur verið gert með heldur ósveigjanlegum hætti, og hins vegar, að það hefur þvælst fyrir mönnum að skipa kjörum almennings og skilyrðum atvinnurekstrar eftir framangreindum sveiflum. Ástæða er til að ætla, að með raðvali og sjóðvali verði sveiflurnar eðlileg viðfangsefni, menn tækju til óspilltra málanna, og vinnubrögðin gerðu ljóst, hversu mjög menn beita sér, þau yrðu sem sagt gegnsæ (,óspillt?). Þetta verður ekki skýrt nema í lengra máli, eins og reyndar stendur til, en fá má hugmynd í nýlegum Morgunblaðsgreinum (sjá heimasíðu Lýðræðissetursins). Greinarnar skýra reyndar lítið sem ekki það, sem lýtur að mótun launakjara; þar kemur raðval við sögu sem leiðarhnoða. Skilning á sjóðvali og raðvali yfirleitt má fá í ritinu Lýðræði með raðvali og sjóðvali. Í heimasíðu Lýðræðissetursins er bent á, hvernig beita má sjóðvali í ýmsum málum, svo að saman fari hóf og sveigjanleiki.

Rætt hefur verið við þingmenn og varaþingmemm til að kynna sjóðval. Í mars hafði verið talað við alla, sem ástæða var til. Málinu var frestað vegna kosninganna. Vegna ráðgerðs sjóðvals um fiskveiðistjórn og rammaáætlun stendur til að tala við þá, sem eru nýir.

 

Virðingarfyllst,

fyrir hönd Lýðræðissetursins

Björn S. Stefánsson

Reykjavík, 10. júní 2009