Hugsum okkur nokkur ár fram í tímann. Fram er komið á alþingi álit þingmannanefndar, þar sem lagt er til, að þrír ráðherrar, Ása, Guðrún og Helga, verði ákærðir fyrir landsdómi. Meirihlutinn vill ákæra þrjá, sumir tvo og tveir nefndarmanna ekki neinn. Þegar athugað var, hvernig skyldi bera málið undir atkvæði, minntust menn þess, þegar tillaga var um ákærur á fjóra ráðherra, að talið var, að einhver hefði látið úrslit fyrstu atkvæðagreiðslunnar, um að ákæra Geir Haarde, ráða afstöðu sinni í næstu atkvæðagreiðslu. Í þessu dæmi sáu menn sér leik á borði eftir fyrri umræðu að kanna afstöðu þingmanna í raðvali. Þar eru allir kostir bornir upp í einu, og því geta menn ekki breytt um afstöðu eftir fyrsta lið atkvæðagreiðslunnar.
Atkvæðagreiðslan, þegar ákæra á hendur Geir, Árna, Björgvin og Ingibjörgu, var tekin fyrir, var um hvern og einn. Í dæminu með Ásu, Guðrúnu og Helgu voru þeir til, sem töldu, að annaðhvort ætti að ákæra þær þrjár eða enga. Þeir voru líka til, sem vildu ákæra bæði Ásu og Guðrúnu, en vildu ekki ákæra þær hvora fyrir sig. Eins var með afstöðu til ákæru á Ásu og Helgu og Guðrúnu og Helgu. Eftirfarandi tillögur komu fram:
A. Ákæra á Ásu, Guðrúnu og Helgu.
B. Ákæra á Ásu og Guðrúnu.
C. Ákæra á Ásu og Helgu.
D. Ákæra á Guðrúnu og Helgu.
E. Ákæra á Ásu.
F. Ákæra á Guðrúnu.
G. Ákæra á Helgu.
H. Engin ákæra.
Þetta eru 8 kostir. Í raðvali fær kostur stig fyrir hvern kost, sem er neðar. Það er hugsað eins og skákmót, þar sem allir tefla við alla. Efsti kostur, má segja, vinnur alla og fær því 7 stig, næstefsti kostur vinnur 6 o.s.frv. Það er eins og jafntefli, þegar tveir kostir eru í sömu stöðu. Þeir deila með sér stigum viðkomandi sæta. Eins er, ef fleiri eru í sömu stöðu, að þeir skipta með sér stigum viðkomandi sæta. Þannig færir röð með B, C og D nr. 2 hverjum kosti (6+5+4)/3=5 stig.
Hér koma tvö dæmi um raðir. Þingmaður nokkur vildi helst ákæra þrjá, en ella engan. Röð hans var
A (ákæra þrjá)
H (ákæra engan)
E,F,G (ákæra einhvern einn)
B,C,D (ákæra einhverja tvo)
Af þessum lista fékk A 7 stig, H 6 stig, E, F og G fengu 4 stig hver, og B, C og D fengu 1 stig hver.
Annar vildi alls ekki ákæra og vann að því með röðun sinni, að sem minnst yrði ákært. Röðin varð því þannig:
H
E,F,G
B,C,D
Af þessari röð fékk H 7 stig, E, F og G fengu 5 stig hver og B, C og D 2 stig.
Við upphaf seinni umræðu lá fyrir niðurstaða um stigafjölda hvers kosts. Þá lá einnig fyrir röð hvers þingmanns. Hún gat verið sem greinargerð með ræðu hans. Við lok umæðunnr fyrir atkvæðagreiðsluna spurði forseti, hvort nokkur hefði við það að athuga, að borinn yrði upp sá kostur, sem fékk flest stig. Þá var kosturinn borinn undir atkvæði og samþykktur mótatkvæðalaust. Umfjöllunin var gegnsæ, eins og best gat orðið.
Hugsum okkur, að kosturinn hefði verið felldur. Hvernig átti forseti að halda áfram atkvæðagreiðslunni? Hún hefði getað þvælst fyrir; reyndar eiga menn yfirleitt við það að búa, þegar greidd eru atkvæði á hefðbundinn hátt.
,17. nóvember 2010