Menn eru hugsi eftir persónukjörið til stjórnlagaþings 27. nóvember. Á kjördag var ég í hverfiskjörstjórn í Laugardalshöll, stærsta kjörstað landsins. Þar tók mig tali maður frá Skotlandi, kvaddur af dómsmálaráðuneytinu vegna kosningarinnar. Áður hafði hann verið hér í september, þá tilkvaddur af alþingi vegna lagasamningar um kosninguna. Hann endursamdi lögin, sagði hann.

Sem sagt kunnáttumaður um aðferðina, greiðslu einfalds yfirfæranlegs atkvæðis. Aðferðin væri viðhöfð í Skotlandi, Írlandi, Norður-Írlandi, Ástralíu, Nýja Sjálandi og Kanada, í breska heiminum, skaut hann inn, og í Cambridge í Massachusetts á Nýja Englandi. Gjarna væru kosnir 10-12, og flestir hefðu frambjóðendur verið 70 í sögu þessarar aðferðar. Þá gátu menn raðað 1, 2 o.s.frv, 69 og 70, en nú aðeins 25.

Aðferðin verður hér metin að fenginni reynslu. Fyrst dæmi, sem ekki er samkvæmt reynslu, og þar á aðeins að kjósa einn. Kjósendur eru 21. Deilitalan til að finna sætishlut, þá tölu atkvæða, sem þarf til að ná kjöri, er tala þeirra, sem á að kjósa, 1+1. Teknir eru aukastafir af útkomunni og bætt við 1, sem sagt 21/2=10,5, sem styttist í 10 og bætt við 1. Það gerir 11.

Um 5 er að velja: A, B, C, D og E. 11 kjósendur raða

A
B
C
D
E

en 10 kjósendur raða

B
C
D
E
A

A nær sætishlut. Þeir 11, sem því ráða, setja allir B næstan. 10 setja B fremstan og A neðstan.

Þetta dæmi hef ég áður kynnt til að bera greiðslu einfalds yfirfæranlegs atkvæðis saman við raðval (Lýðræði með raðvali og sjóðvali, bls. 52-54). Í raðvali nær B kjöri; fyrir að vera í fyrsta sæti fær hann 10x4 stig og fyrir að vera í öðru sæti 11x3 stig, samtals 73 stig. A fær 11x4 stig, 44, fyrir að vera í fyrsta sæti, en ekkert stig fyrir neðsta sæti.

Lítum á, hvernig getur farið um slíkt mat kjósenda, að forðast kosningu sumra frambjóðenda, með aðferðinni, sem viðhöfð var í nóvember. Í dæminu á að kjósa 25; deilitalan er því 25+1. Kjósendur eru 100000. Sætishlutur, nauðsynleg tala til að ná kjöri, er 3847. A er efstur hjá 3900 kjósendum. Það tryggir honum sæti. Þetta getur gerst, enda þótt allir aðrir hafi hann alls ekki meðal þeirra 25, sem þeir raða. Á sama hátt getur farið fyrir B, sem 3850 setja efstan, en allir aðrir leiða hann hjá sér og hafa hann alls ekki á kjörseðli sínum. Þannig geta náð kjöri 25, hver með þröngan hóp að baki, enda þótt langflestir telji þá ekki koma til greina, en í öðru og þriðja sæti gætu verið yfirleitt sömu frambjóðendurnir, sem sagt almennt nokkuð vel metnir, en við uppgjörið koma þeir ekki til álita.

Af þeim 25, sem kjörnir voru á stjórnlagaþing, eru 24 frá höfuðstöðum landsins og nágrenni, 22 frá höfuðborginni og nágrenni og 2 frá höfuðstað Norðurlands, en einn utan þeirra. Svona fór, enda þótt líklegt sé, að ekki nokkur kjósandi hafi viljað það. Í greiðslu einfalds yfirfæranlegs atkvæðis er nefnilega engin samstilling, heldur veljast menn óvart saman. Það getur reyndar gerst, þó að aðeins eigi að velja tvo, eins og sýnt skal með dæmi, sem er ekki fjarri veruleikanum.

Kennarafélag á að velja tvo fulltrúa í stjórn skólans. Skólinn starfar á tveimur stöðum, í Kvennastræti, en þar eru fræðigreinar, sem konur kenna helst, og í Karlagötu, þar sem eru fræðigreinar, sem karlar kenna helst. Allir eru á því, að hvor staður skuli hafa sinn fulltrúa og hvort kyn sinn mann. Í lausbeisluðu persónukjöri, hvort heldur eins og menn eiga að venjast eða með greiðslu einfalds yfirfæranlegs atkvæðis, þar sem allir skipa í tvö efstu sætin samkvæmt ofansögðu, er undir hælinn lagt, að niðurstaðan verði í samræmi við þetta sameiginlega álit, heldur getur hún vel orðið sú, að tveir veljist úr Karlagötu eða tvær úr Kvennastræti. Með raðvali tvennda getur ekki farið svo. Þar mundu allar tvenndir, sem kostur er á, hafa þessa eiginleika, sem einhugur var um. Kjósendur raða tvenndunum, og stig eru reiknuð samkvæmt reglum raðvals.

Þetta er auðvelt, þegar 2 eru kosnir og aðeins er um tvo eiginleika að ræða. Þegar kjósa á 25 og fleiri eiginleikar koma til álita kjósenda, verður raðval ekki viðhaft umsvifalaust, en umfjöllun um raðval stjórnar í Lýðræði með raðvali og sjóðvali, grein II.C.2 má hafa til hliðsjónar við leit að aðferð án framangreindra annmarka greiðslu einfalds yfirfæranlegs atkvæðis.

Morgunblaðinu, 2. febrúar 2011