Stjórnvöld hafa mótað fiskveiðistjórn í nánu samráði við Hafrannsóknastofnun, Fiskiþing og Landssamband útvegsmanna. Nýting þorskstofnsins hefur þótt mestu varða. Hafrannsóknastofnun hefur haft það markmið með tillögum sínum um fiskveiðistjórn að hrygningarstofninn væri svo stór að viðkoma væri örugg, en einnig hafa tillögur um hæfilega veiði mótast af viðleitni til að afli mætti verða nokkuð jafn frá ári til árs. Takmarkanir á veiði smáfisks og seiða hafa verið rökstuddar með tilliti til þeirrar stefnu.
Ekki var opinber ágreiningur um líffræðileg rök Hafrannsóknastofnunar fyrr en árið 1984, en þá settu nokkrir líffræðingar fram aðra skoðun. Bentu þeir á, að miðað við stöðugt fæðuframboð væri vöxtur í öfugu hlutfalli við fjölda einstaklinga. Þegar stofninn væri of lítill (ofveiddur), væru fáir og smáir fiskar sem yxu hratt, en heildarþyngdaraukning stofnsins yrði lítil vegna fiskfæðar.
Þegar stofninn væri of stór (vanveiddur), væru fiskarnir margir og smáir, en vöxtur þeirra hægur. Þá færi meiri hluti fæðu, sem aflað væri, í viðhald og leit að fæðu. Því yrði heildarþyngdaraukning stofnsins lítil miðað við þessar aðstæður. Lögðu tveir þessara líffræðinga til við Hafrannsóknastofnun, að vöxtur fiska yrði mælikvarði á æti og út frá því ályktað um hæfilega veiði einstakra árganga. Þá yrði veitt meira af smáfiski þegar æti minnkar, en hann friðaður frekar þegar betur árar.
Þegar árið 1964 vakti Jón Jónsson fiskifræðingur athygli á slíku samhengi í Náttúrufræðingnum (Ofveiði og kjörveiði, bls. 4-8) m.a. með þessum orðum (bls.8); „Eins og getið var um í upphafi, þá er nauðsynlegt að nýta þessa stofna á sem hagkvæmastan hátt. Of lítil veiði getur verið jafn skaðleg og of mikil veiði. Það hefur t.d. komið í ljós, að þau ár, sem mjög sterkir árgangar af þorski hafa verið í aflanum, hefur fiskurinn vaxið hægar en þegar lítið hefur verið af fiski í sjónum. Við skýrum þetta með því, að þegar mikið er um fisk sé ekki nóg fæða í sjónum fyrir allan þann fjölda.
Á árunum 1932-37 féll þorskveiðin í Vestmannaeyjum úr tæplega 200 þorskum á 1000 öngla í tæplega 50 þorska á 1000 öngla, og er það tákn um verulega rýrnun í stærð stofnsins. Samtímis þessu jókst meðalstærð 8-12 ára fiska úr 82 í 94 sm og mun láta nærri, að hér sé um tveggja kílóa þyngdaraukningu að ræða.
Ég held, að þetta dæmi sýni, að fjöldi einstaklinganna er ekki einráður um útkomuna, heldur er vaxtarhraði hvers einstaklings mjög mikilsverður. Aukningin í vaxtarhraðanum á tímabilinu 1932-37 bætti að nokkru leyti upp þá rýrnun, sem varð í fjölda einstaklinganna í stofninum. Hæfileg grisjun stofnsins er því mikilvæg til þess að viðhalda hámarksvaxtarhraða einstaklinganna, þannig að bests nýtist framleiðni sjávarins hverju sinni."
Nýleg ábending af þessu tagi er í fjölriti Hafrannsóknastofnunar um nytjastofna sjávar og umhverfisþætti 1989, þar sem segir svo um ýsuna (bls. 15) „en meðalþyngd eftir aldri hjá mjög stórum árgöngum er undantekningarlaust minni en hjá smærri árgöngum."
Enn er þess að geta um andmæli líffræðinganna árið 1984, að þeir töldu ekkert samband milli nýliðunar þorsks og stærðar hrygningarstofnsins. Þeir lögðu áherslu á gagnkvæm áhrif ætis, stærðar árganga og stærðar hinna ýmsu fiskstofna. Um gagnkvæm áhrif stofna nefndu þeir sem dæmi, að loðnan næði ekki að fullnýta fæðu sína, dýrasvifið, ef þorskurinn ofbeitti hana.
Þessa skoðun má kenna við vistfræði. Hin vistfræðilega kenning var sett fram alþýðlega í greininni „Samspillet mellem fiskearterne" eftir Erik Ursin í Fisk og hav 1978. Hin vistfræðilega kenning hefur ekki heldur hlotið viðurkenningu þeirra sem ráða fiskveiðistefnu í nálægum löndum við austanvert Norður-Atlantshaf, þ.e.a.s. í Danmörku, Bretlandi og Noregi. Kenningin um kosti grisjunar nýtur hins vegar viðurkenningar varðandi veiðivötn hér á landi. Í löggjöf um laxveiði ríkir það sjónarmið að tryggja hrygninguna með laxafjölda á hrygningarstöðum. Löggjöfinni hefur ekki verið breytt þrátt fyrir þá skoðun yngri fiski fræðinga, að aðeins fáa laxa þurfi til að tryggja viðkomuna.
Hér skal ekki fullyrt um það, hvort ágreiningur líffræðinga um rök fiskveiðistefnu kunni að vera mál líffræðinnar einnar og eigi eftir að þróast til samkomulags. Hins vegar er hér spurt, hvort afstaða manna kunni að mótast af því, hvernig hefðbundin málsmeðferð leggur ábyrgð á herðar þeirra, sem eru í forystu, þ. á m. í forystu hafrannsókna, sem stjórnvöld leita til um ráð, þannig að hin vistfræðilegu rök verði aðeins tekin til greina, þar sem engu sé að tapa, eins og er í ördauðum vötnum.
Viðbrögð þeirra sem styðja ályktanir stjórnvalda eru gjarna þau að halda því fram að ekki megi hætta á að viðkoma bregðist. Er talað um að fjöregg þjóðarinnar Sé í húfi, og vekja fréttir af klaki undir meðallagi ugg í fólki, ekki síst þegar það gerist ár eftir ár. Á móti því er bent á að þær sveiflur sem þannig verði í stærð árganga séu mjög litlar eftir því sem gerist í ríki náttúrunnar og raunar alls ekki á mannlegu valdi að hafa þar stjórn á.
Þegar málið er sett þannig fram að viðkoma stofnsins sé háð stærð hans, en stærðin háð stjórnvöldum, hlýst svofelld rökleiðsla af hinum viðurkennda málflutningi: Ef ýsugengd brygðist, svo að dæmi Sé tekið, teldist sökin hjá sjávarútVegsráðherra og forystu útvegsmanna (LÍÚ) og ráðgjöfum þeirra í Hafrannsóknastofnun, ef menn hefðu látið undir höfuð leggjast að takmarka afla svo vel, að allstór stofn yrði óveiddur. Nú kemur það að vísu ekki í veg fyrir stofnsveiflur, en ábyrgðin á þeim teldist þá ekki hjá stjórnvöldum.
Þegar um er að ræða að draga til ábyrgðar er ekki tekið tillit til annars sem fylgir rýrum ýsustofni, svo sem þess ætis sem ýsan nýtir þá ekki, svo að rækja og koli og aðrar tegundir geta nýtt það. Hvernig það kann að skila sér í sjávarafla er ekki með í hinni opinberu mynd af sjávarvistum.
Þótt stuðningurinn við málflutning Hafrannsóknastofnunar sé býsna eindreginn, verður gjarna ágreiningur um álitamál. Þar má nefna hversu mikinn afla á að leyfa árlega, og eru rökin þá að með minni afla í ár megi veiða meira að ári eða að aukinn afli í ár dragi úr afla að ári, og megi meta jöfnun á afla til hagræðis fyrir sjávarútveginn og þjóðarbúið. Slíkan ágreining má telja breytingartillögur við óhaggaðan grundvöll.
Á dönsku hafrannsóknastofnuninni (Danmarks Fiskeri- og Havundersögelser) hefur verið unnið að því að leggja á ráðin um nýtingu fiskistofna með fleirstofnalíkönum, eins og lesa má í afmælisriti stofnunarinnar 100 ára árið 1989 (Fiskeriundersögelser i 100 ár. DFH-rapport nr. 352-1989) í grein eftir Henrik Gíslason (Flerarts-modeller og rádgivning, bls.61- 65). Þar segir frá rannsókn árið 1981 á fæðuvenjum ránfiskanna þorsks, ýsu, lýsu, ufsa og makríls í Norðursjó. Athugunin leiddi í ljós að fiskar sem eru mikilvægur afli eru einnig mikilvæg fæða framangreindra fiska. Ránfiskarnir keppa því við fiskimennina um sömu fiskana. Á þessu byggjast líkönin.
Áður en sagt verður um áhrif breytinga á afla á einstakar tegundir, verða menn að gera sér ljóst t.d., að ýsuafli tengist lýsuafla. Það tekst illa að stjórna ýsuafla ef ekki er tekið tillit til lýsuafla, þar sem tegundirnar veiðast iðulega saman. í líkaninu er greint á milli veiða á neyslufiskunum þorski, ýsu, lýsu og ufsa, veiða á spærlingi til vinnslu með aukaafla af ýsu og lýsu, veiða á sandsíli og brislingi til vinnslu með lýsu sem aukaafla, síldveiða, ufsaveiða og makrílveiða.
Þegar líkanir er notað til að meta áhrif aukinna veiða á þorski, ýsu, lýsu og ufsa þegar til lengdar lætur, eru þau borin saman við áhrifin af óbreyttum veiðum. Á myndinni sést árangurinn af 10% aukningu veiða á neyslufiski. Þar kemur fram að afli eykst með auknum veiðum. Það stafar vitaskuld af því að með því að fjarlægja hluta af ránfiskum Norðursjávar gefst kostur á að veiða fisk sem annars hefði orðið þeim að bráð. Þar sem ránfiskarnir éta allir meira en þunga sinn á ári, er ávinningur í því að veiða ránfiskana meðan þeir eru smáir, þ.e.a.s. áður en þeir eru orðnir nógu stórir til að höggva skarð í aðra stofna svo um muni.
Þessi árangur er allur annar en næst með sömu útreikningum með einstofnslíkani. Þá dregur aukin veiði úr afla þegar til lengdar lætur. Það gerist vegna þess að þorskur, ýsa og lýsa í einstofnslíkani geta stækkað án þess að það bitni á fiski sem verður þeim að bráð. Því verður þar engin aflaskerðing á dæmigerðum tegundum bráðar, eins og síld og spærlingi.
Útkoman verður eins í báðum líkönum fyrir ufsa og makríl, þar sem hvorki fannst ufsi né makríll í maga ránfiskanna árið 1981, og þeir eru því ekki háðir styrkleika ránfiskanna. Þá má einnig nota líkanið til að reikna út áhrifin af stækkuðum möskva við veiðar á neyslufiski.
Mynd: Breytingar á afla þegar til lengdar lætur, ef veiðar aukast um 10%. Reiknað með
fleirstofnalíkani og einstofnalíkani.
Evrópubandalagið hefur um árabil vísað til útreikninga með venjulegum einstofnslíkönum þegar það hefur knúið á um stækkun möskva við þær veiðar. Enn verður niðurstaðan ólík eftir því hvort reiknað er með fleirstofnalíkani eða einstofnalíkani, þar sem einstofnalíkanið bendir á aukinn afla, en fleirstofnalíkanið bendir á aflasamdrátt þegar til lengdar lætur.
Henrik Gíslason segir að lokum í grein sinni, að líffræðileg ráðgjöf í fiskveiðum sé á krossgötum. Menn treysti ekki lengur áliti sem miðist við einn stofn, en hafi ekki reynt fleirstofnalíkönin til hlítar, svo að menn þori að nota þau í ráðgjöf. Auk þess bjóða fleirstofnalíkönin upp á nýjan ágreining. Ef menn vilji t.d. auka síldveiðar í Norðursjó, megi gera það á tvennan hátt, annaðhvort með því að draga úr síldveiðum, svo að síldin fái að stækka, áður en hún er veidd, eða með því að auka veiðar á þeim tegundum sem lifa á síld. Ekki verði hlaupið að því að komast að niðurstöðu um hvort eigi að gera. Ef ráða ætti slíku máli til lykta með atkvæðagreiðslu t.d. á Fiskiþingi, hljóta afbrigðin að verða mörg.
Ágreiningur kann að verða um hvort notast eigi við einstofnslíkan eða fleirstofnalíkan og mörg álitaefni eru um hvernig fleirstofnalíkönin eigi að vera. Líkönin hljóta a.m.k. að verða háð möskvastærð.
Einnig hljóta að koma upp ágreiningsefni sem byggjast á ólíkum hagsmunum. Hvert líkan gefur eigin niðurstöðu þar sem flest hangir saman. Því verður niðurstöðunni ekki breytt með takmörkuðum breytingartillögum, heldur yrði um að ræða breytilegar heildartillögur. Tillögurnar hljóta að verða þannig vaxnar að þeim verður ekki raðað upp með neinum rökum til atkvæðagreiðslu. Málið verður því best leyst með því að leggja fram heildartillögur sem aðilar málsins taka afstöðu til með forgangsröðun með uppgjöri samkvæmt aðferð Borda.
Líklegt er að forgangsröðun þátttakenda verði breytileg. Þá verður engri einstakri fylkingu eignuð ábyrgð á niðurstöðu uppgjörsins, heldur mun ábyrgðin dreifast á þátttakendur í misjöfnum mæli.
Ægi 82 (1989) 474-6