Endurnýjun í stjórn félagsskapar kann að eiga langan aðdraganda. Og gerist oft í góðu, en fyrirhöfnin getur verið allmikil, ef varðveita á góðan félagsanda. Í því felst, að margs konar sjónarmið njóti sanngirni. Allt getur það farið úr böndunum, þegar á reynir. Hér verður athugað, hvernig aðdragandi stjórnarkjörs getur farið fram sem sjóðval og hvort sjóðval megi draga úr hættunni á uppnámi við stjórnarkjör og koma í veg fyrir niðurstöðu, sem spillir félagsanda.

Viðfangsefninu verður lýst með því að taka fyrst dæmi frá Bændasamtökunum, en það ætti að hafa víðtækt gildi. Í þeim er lagt kapp á að halda við samheldni. Það er gert meðal annars með margbreytilegu mynstri sjö manna stjórnar samtakanna, sem búnaðarþing kýs. Það setur margbreytileikanum takmörk, að stjórnarmenn skuli ekki vera fleiri en sjö.

Formaður stjórnarinnar er kosinn sérstaklega. Stjórnin er kosin til þriggja ára, í upphafi kjörtímabils hvers búnaðarþings. Oft sitja menn fleiri kjörtímabil. Hér um árið þótti ástæða til að skipta um stjórnarmann, enda sat hann ekki lengur á búnaðarþingi, en hafði komið inn árið áður sem varamaður annars, sem var hættur búskap. Fráfarandi stjórnarmaður var kúabóndi—vel að merkja fulltrúi samtaka mjólkurframleiðenda, en ekki búnaðarsambands, eins og gat líka verið og sumir létu sig varða, norðlendingur, kona og starfaði í Sjálfstæðisflokknum, svo að nefnd séu einkenni, sem ætla má, að hafi haft gildi í stjórnarmynstrinu. Það tók drjúgan tíma að komast að niðurstöðu og gerðist samhliða öðrum störfum. Þá gat nýtt þing vitaskuld litið öðru vísi á mynstrið. Þó að finna mætti fulltrúa, sem báru nokkur einkennin, var enginn með þau öll. Mynstrið breyttist því, hver sem var valinn. Það mátti jafna með því að skipta út öðrum. Hér skal sögunni ekki fylgt, eins og hún varð, en búið til stílfært dæmi um afgreiðslu slíks máls með sjóðvali.

Í þessu dæmi er um aðeins tvö einkenni að ræða: þrjá flokka búgreina (B) og þrjú landssvæði (L). Einkennin, sem fráfarandi stjórnarmaður hafði, voru B­‑1 og L‑1. Ekki er völ á neinum með bæði einkennin, en kostur á nokkrum með annaðhvort þeirra. Þeir eru táknaðir B­‑1,L­‑2, B­‑1,L­‑3, B­‑2,L‑­1 og B­‑3,L­‑1. Í sjóðvali um þá reynast boðin flest atkvæði á B­‑1,L‑3. Að svo búnu líst einhverjum á að bera upp stjórnarmann með bæði einkennin breytt frá upphaflegu mynstri, nefnilega B­‑2,L‑2. Fleiri bregðast við á sama hátt með tillögu. Þessar útfærslur verða allar bornar upp.

Tökin á málinu eru eins og sjóðval sem stórmál, þar sem atkvæði þátttakanda, sem dregin voru af honum fyrir að standa á bak við sigurafbrigðið (B‑1,L‑3), halda gildi sínu, ef málið er tekið fyrir aftur með nýjum útfærslum. Í blaðagrein verður að vísa til fyrri rita um þetta efni, sem rata má á á abcd.is, heimasíðu Lýðræðissetursins. Með þessu móti má hægt og sígandi nálgast mynstur, sem ekki þykir ástæða til að hrófla meira við. Þá er það búið til afgreiðslu á þeim vettvangi, sem kýs stjórnina.

 Þessi vinnubrögð mætti viðhafa í fulltrúaráði félagsskapar fyrir þing hans eða aðalfund og hafa rúman aðdraganda að niðurstöðu. Þar gæti verið um að ræða samtök hagsmuna, hugsjóna og landsmála (stjórnmálaflokka). Þá gerist endurnýjun stjórnar í samtali innan félagsskaparins með því sérstaka sniði sem sjóðval um stórmál er. Einkennin, sem stjórnarnefndarmenn eru metnir eftir, mega vera fleiri en tvö, eins og er hér í skýringardæminu. Sjóðvalið flækist ekki, þótt þau verði eins mörg og hugurinn girnist.

Bændablaðinu, 18. apríl 2012