Vill almenningur endurnýjun þingmanna? Um það er nú nokkuð rætt, og er stundum vísað til niðurstaðna í prófkjörum undanfarið. Eins og hér skal sýnt með tilbúnu dæmi, þarf takmörkuð endurnýjun í prófkjöri ekki að skýra vilja almennings í þessu efni. Setjum sem svo, að flokksmenn hafi almennt viljað endurnýjun. Þar átti kjósandi að merkja við tvo, hvorki fleiri né færri. 7 gáfu sig fram, 2 þingmenn og 5 aðrir. Gerum ráð fyrir, að svo til allir hafi viljað, að í tveimur efstu sætunum yrði aðeins annar núverandi þingmanna. Þeir, sem svo vilja, setja í annað sætið þingmann og í hitt sætið nýliða. Þá skiptist, að þingmaður er í öðru sætinu og nýliði í hinu. Þar sem fylgið við nýliðana dreifist á fimm, en fylgið við þingmennina á tvo, eru líkur á, að niðurstaða prófkjörsins verði, að þingmennirnir raðist í bæði sætin. Samt stóð hugur prófkjósenda til endurnýjunar, og hver og einn þeirra hagaði sér í samræmi við það.

Raðval lýsir betur almennum vilja, eins og sýnt skal með dæmi, þar sem sjö sækjast eftir sæti á lista. Búnir eru til tveggja manna listar (þeir verða 20) og flokksmönnum gefinn kostur á að raða þeim. Kjósandi, sem vill einn nýjan og einn gamlan, eins og flestir, raðar listunum. Hann telur þrjá lista álitlegasta og raðar þeim hverjum á eftir öðrum, telur tvo lista fráleita og setur þá neðst saman, en gerir ekki upp á milli hinna listanna. Stigin, sem listarnir fá fyrir röðun hans, eru reiknuð í forriti. Eins og kunnugt á að vera, er það einföld stærðfræði. Niðurstaða þessa prófkjörs getur aðeins orðið sú, að á listanum, sem fær flest stig við útreikninginn, er annar hvor þingmannanna ásamt nýliða. Með þessu móti verður endurnýjun að því skapi, sem almennur vilji er til.

Þegar fleiri sækjast eftir sæti en í þessu dæmi og sætin eru fleiri en hér, verður tala lista fljótt meiri en viðráðanlegt er. Listafjöldann verður þá að takmarka með einhverjum ráðum, svo sem með skilyrði um meðmæli svo og svo margra.

Morgunblaðinu, 8. desember 2012