Við sátum um daginn á kaffihúsi 25 (talan var tilviljun). Fimm höfðu verið fengnir til að reifa ýmsar hliðar lýðræðis. Á eftir fór talið víða og meðal annars að því, hvernig ætti að standa að stjórnarskrárbreytingum. Bent var á, hvernig félagsskap væru settar samþykktir. Þá væri hver grein borin undir atkvæði.

Sunnudagsmoggi 17. apríl spurði Jon Elster, sem fenginn var til landsins að fjalla um setningu stjórnarskrár, hvort í þjóðaratkvæði mætti bera upp fleiri kosti um einstakar greinar. Kvað hann það óráðlegt og jafnvel hættulegt, slík aðferð byði upp á bútasaum, en í stjórnarskrá yrði að vera samhengi. Hann taldi það afbragðshugmynd að setja tillögu stjórnlagaráðs í þjóðaratkvæði, áður en hún færi fyrir alþingi.

Með því að bera aðeins eina gerð stjórnarskrár undir þjóðina er málið einokað. Í raðvali eru engin vandkvæði að bera upp fleiri gerðir stjórnarskrár. Ein gerðin mætti vera þannig, að ekki sé gert ráð fyrir framsali á valdi til útlanda; það væri í samræmi við einróma afstöðu þjóðfundarins, sem stjórnlagaþinginu var sett að taka mið af. Á hinu, framsali á valdi til útlanda, gætu verið fleiri en ein útfærsla. Slík vinnubrögð eru ekki bútasaumur, heldur forgangsraða kjósendur þá heilum gerðum stjórnarskrár.

Við gerð stjórnarskrár, sagði Elster í viðtalinu, ætti meginmarkmiðið að vera að tryggja, að áhrif hagsmuna, ástríðna, fordóma og hlutdrægni á ákvarðanir verði sem minnst, og gerði blaðið það að aðalyfirskrift. Ég tel hins vegar, að með lýðræði sé gætt hagsmuna, svo sem þjóðarhagsmuna gagnvart öðrum ríkjum og annarra almennra hagsmuna, en um það verður ekki eitt álit, hvernig sérstakir hagsmunir megi fléttast saman og leiða til heildarhagsmuna, það skipar mönnum í flokka. Þá eiga ástríður að ráða, svo sem ástríða fyrir frelsi, lýðræði og mannhelgi. Þar verður ágreiningur ekki takmarkaður.

Stjórnarskrá má vel móta í sjóðvali. Það fyrirkomulag á almennt við, þegar setja skal félagi stofnsamþykktir og semja stefnuskrá flokks eða félags. Vinnubrögðunum er lýst í Lýðræði með raðvali og sjóðvali (Sjóðval um stórmál, bls. 112-120). Gerð borgarskipulags er þar meðal dæma. Við gerð þess má fyrst varpa upp einni yfirlitshugmynd. Tillögur um nánari útfærslu og breytingar eru svo afgreiddar hver á fætur annarri. Þegar einhverjum þykir skipulagshugmyndin hafa þróast öðru vísi með samþykktri útfærslu og breytingum en búist var við, þegar einhver tillagan var tekin fyrir, má bera hana upp aftur. Með sjóðvali vegast á hugmyndir (tillögur), sem fáir stríða fyrir, en fleiri eru á móti með daufari tilfinningu.

Þetta fyrirkomulag ræddi ég við ráðamenn Reykjavíkurborgar um árið. Þá nefndi ég þá framkvæmd, að í sjóðvali væru þeir 30, sem voru á hverjum framboðslista, og fengi hver atkvæði í sjóð í hlutfalli við atkvæðatölu listans. Ef kosningin til stjórnlagaþings hefði verið í lagi, hefði mátt viðhafa sjóðval á grundvelli hennar. Þingið hefði þá getað haft með höndum mótun tillagna og staðið að sjóðvali um þær meðal frambjóðenda, en þeir fengju atkvæði í sjóð í hlutfalli við fylgi við stjórnlagaþingskosninguna. Með þessu móti milduðust meinbugir aðferðarinnar, sem þá var viðhöfð, sbr. grein mína í Morgunblaðinu 2. febrúar síðastliðinn (Persónukjör—2 kosnir). Þá gerði það ekki mikið til, þótt þeir, sem ná kjöri, njóti þröngrar hylli, þar sem framkvæmd sjóðvals knýr á um alhliða framlagningu mála. Þátttaka allra frambjóðenda í sjóðvali leiðir til þess, að almennt vel séðir frambjóðendur, sem geta verið margir og hafa ekki náð kjöri vegna eiginleika kosningaaðferðarinnar, fá tækifæri til að láta að sér kveða í hlutfalli við fylgi hvers og eins, samanlagt getur það orðið miklu meira en fylgi þeirra, sem náðu kjöri.

Morgunblaðinu, 4. júní 2011 32