Frá því að íslenska fjármálakerfið hrundi árið 2008 hefur talsverð umræða orðið um það manna á meðal hvernig haga beri kosningum. Þrátt fyrir áhuga á umbótum hefur hvert óhappið rekið annað. Má þar nefna kosningu til stjórnlagaþings, ákvörðun Alþingis um það hverjir skyldu ákærðir fyrir Landsdómi og nú síðast kjör vígslubiskups í Skálholti.

Stjórnvöld virðast ekki hafa áttað sig á því að unnt er að greiða þremur eða fleiri kostum atkvæði á þann hátt að ekki þurfi að kjósa tvisvar, fái enginn meirihluta atkvæða í fyrstu umferð. Full ástæða er til að stofnanir samfélagsins og félög skoði með hvaða hætti sé hægt að einfalda kosningu og atkvæðagreiðslu þannig að menn geti tjáð vilja sinn og tilteknir kostir verði ekki afgreiddir fyrirfram. Til þess hentar aðferð sem nefnist raðval og lýst er í bókinni Lýðræði með raðvali og sjóðvali eftir Björn S. Stefánsson.

Raðval

Björn Stefánsson hefur lengi rannsakað aðferðir sem nýta megi til þess að auðvelda mönnum að komast að niðurstöðu með atkvæðagreiðslu. Þróaði hann þessa aðferð og hefur hún reynst tiltölulega auðveld í framkvæmd. Sá ávinningur fæst með því að beita henni að úrslit fást þótt þrír eða fleiri kostir séu í boði.

Sem dæmi má nefna kosningu þar sem fjórir eru í framboði. Kjósendur geta þá raðað þeim að vild. Sá sem kjósandi vill greiða eindregið brautargengi fær þá þrjú stig og svo koll af kolli þannig að sá sem kjósandi vill síst fær þá ekkert stig.

Samanlagður stigafjöldi ræður úrslitum. Þá er ekki víst að sá, sem flestir velja í fyrsta sæti, nái kjöri, því að annar maður getur fengið það mörg stig í annað sæti að þau ríði baggamuninn. Þannig eru nokkrar líkur til að úrslitin verði með öðrum hætti, sé einungis ein kosning viðhöfð í stað tveggja þar sem í seinna skipti verði kosið um tvo efstu frambjóðendurna. Kosningar, þar sem krafist er tveggja atkvæðagreiðslna, þegar enginn frambjóðandi nær meirihluta, gefa þar að auki ekki alls kostar rétta mynd af vilja kjósenda þar sem þeir fá yfirleitt aðeins að velja einn kost hverju sinni og það getur haft afdrifarík áhrif á framhaldið.

Raðval hentar einnig afar vel þegar afgreiða þarf mál með atkvæðagreiðslu og þrjú eða fleiri afbrigði eru í boði. Á það hefur verið bent að raðval kunni að draga úr valdi fundarstjóra ef hann þarf að úrskurða um röð eða vægi breytingartillagna, svo að eitt dæmi sé nefnt. Ef raðvali er beitt verða slíkir úrskurðir óþarfir. Öll afbrigði eru jafnrétthá og vilji manna verður ljós þegar stigin hafa verið gerð upp.

Nokkur reynsla er af raðvali hér á landi. Þegar menn hafa nýtt sér kosti þessarar aðferðar hefur hún reynst auðveld í framkvæmd og almenningur hefur ekki átt í neinum vandræðum með að tileinka sér hana.

Með raðvali er hægt að leggja ýmis álitamál í dóm kjósenda með öðrum hætti en tíðkast hér á landi þar sem tveimur kostum er yfirleitt stillt upp hvorum gegn öðrum.

Með raðvali aukast enn fremur líkurnar á því að sá, sem flestir sætta sig við, verði valinn.

Þá er rétt að geta þess að lokum að raðval er þess eðlis að auðvelt er að móta skýrar reglur um notkun aðferðarinnar innan stjórnkerfisins, sveitarfélaga og samtaka. Aðferðin greiðir ótvírætt fyrir lausn mála og dregur úr hættunni á flokkadráttum.

Fréttablaðinu 18. maí 2011