Yfirlit
Í upphafi er ákveðið, hversu mikinn rétt þátttakendur skuli hafa hlutfallslega til að hafa áhrif á safn samþykkta. Þeir fá til ráðstöfunar atkvæðatölu í sama hlutfalli (atkvæðasjóð). Val um tvo kosti gerist þannig: Atkvæðagreiðslan er leynileg. Sá kostur, sem fær fleiri atkvæði, er valinn. Þeir, sem hafa greitt þeim kosti atkvæði, missa samanlagt umráð yfir jafnmörgum atkvæðum og hinn kosturinn fékk, en í hlutfalli við þá tölu atkvæða, sem hver einstakur lagði fram. Þegar kostirnir eru þrír eða fleiri í sama máli, leggja þátttakendur ekkert atkvæði á þann kost, sem þeir telja sístan, leggja á næstlakasta kostinn þá hæstu atkvæðatölu, sem þeir vilja fórna til að stuðla að því, að sá kostur verði valinn heldur en sá lakasti, og svo koll af kolli.
Samþykkja má, að réttur til að taka þátt í afgreiðslu máls eða málaflokks með tilgreindum atkvæðafjölda sé veittur ákveðnum aðila um ákveðið skeið til þess meðal annars að koma í veg fyrir, að atkvæðagreiðsla um mál sé endurtekin í þeim tilgangi að hafa af sigrandi andstæðingi atkvæði.
Rætt er, hvernig nota má aðferðina til að skipta fastri stærð, þegar það verður gert á marga vegu, til þess að setja fjárlög eða fjárhagsáætlun, og við fleiri efnahagslegar ráðstafanir. Loks er þessi reikningslega niðurjöfnun samþykkta, notkun atkvæðasjóðs, borin saman við peningakerfið.
- Fororð
Greinin lýsir aðferð til að jafna niður samþykktum reikningslega, og eru sérstaklega tekin fyrir viðfangsefni, sem hagfræðingar hafa fengist við. Þessi mál eru helst rædd í hagfræði hins opinbera, en oft er um sams konar vandamál að ræða í öðrum samtökum en hinu opinbera, til að mynda í hlutafélagi eða samvinnufélagi eða í samtökum fyrirtækja. Að sjálfsögðu hafa menn glímt við verkefnið í stjórnmálafræði, en, eins og þegar er sagt, takmarkast það ekki við opinber samtök. Raunar er rétt að skoða rannsóknir á niðurjöfnun samþykkta yfirleitt sem félagsfræðilegt viðfangsefni, en þó er eðlilegt, að hagfræðingar sinni verkefninu, þegar það fjallar um ráðstöfun efnahagslegra gæða, eins og gert er hér.
Hér er ekki tækifæri til að ræða eðli ágreiningsvandamála eða aðferðir notaðar við að jafna niður samþykktum eða kunnar tillögur um slíkar aðferðir nema til að benda í stuttu máli á það, sem skiptir mestu máli fyrir það, sem fer á eftir.
Eins og kunnugt er, er meirihluti atkvæða oftast látinn ráða málum. Ef litið er á safn samþykkta, sem eru gerðar þannig, hafa menn engar reiður á því, hvort sigrar og ósigrar muni skiptast á nokkurn sanngjarnan hátt milli þátttakenda, hvorki varðandi tölu mála né mikilvægi. Oft er þá líka erfitt að greiða atkvæði um fleiri en tvo kosti í máli, og er því reynt að sneiða hjá því. Atkvæðagreiðsla um tvo kosti er helst þannig, að greidd eru atkvæði með eða móti tillögu.
Á grónum samkundum eins og þjóðþingum er venjulegt, að menn tengist saman, þannig að þeir, sem eru í samtengingu (sumar samtengingar má kalla samsteypu), bræði saman viðhorf sín fyrir atkvæðagreiðslu. Með samtengingu má nokkuð ráða því, hvernig sigrar og ósigrar dreifast á þá, sem eru samtengdir, meðal annars með því að afstaða samtengingarinnar fari nokkuð eftir því, hversu mikla áherslu hinir samtengdu leggja hver um sig á einstök mál. Hvort niðurstaðan verður sanngjörn, fer nokkuð eftir því, hver leikstaða hinna samtengdu er í þeim samtengingum, sem þeir mynda, og hversu miklu þær samtengingar ráða, og hvað sem öðru líður hafa menn ekki hlutlægan mælikvarða á það, hvernig áhrifin dreifast.
Hér verður minnst á þrjár tillögur um endurbætur á aðferðum til að taka sameiginlegar ákvarðanir, en það eru plúralítetsreglan og punktakerfið (sjá t.d. Musgrave [2] s. 129-30) og hið pólitíska peningakerfi Colemans [1]. Plúralítetsreglan ákveður, að menn forgangsraði kostunum með föstu bili, en punktakerfið á að gefa tækifæri til forgangsröðunar með frjálsum mismun. Afleitur galli á kerfinu er, að tillaga um litla veitingu (fjár eða leyfis) getur seint sigrað meðal tillagna um stórar veitingar, ef stærð samanlagðra veitinga er ákveðin fyrirfram. Coleman [1] bar saman peningakerfi og atkvæðagreiðslufyrirkomulag. Út úr þeirri greiningu kom hann með tillögur sínar um nýtt fyrirkomulag atkvæðagreiðslu. Menn kunna að sjá, að sumt er líkt með tillögum hans og því fyrirkomulagi, sem ég lýsi hér, án þess að geti verið, að við höfum haft áhrif hvor á annan. Hann nefnir fyrst það, að hver fulltrúi á samkundu fái í upphafi þings ákveðna tölu atkvæða, sem hann hafi rétt til að ráðstafa frjálst á allar tillögur, sem koma til atkvæða. Coleman gerir ekki grein fyrir því, hvernig skuli fara að, ef fleiri en tveir kostir eru í máli, eða hvort leyfilegt skuli vera að flytja sömu tillögu hvað eftir annað, eða hvort atkvæðagreiðslan skuli vera leynileg, þar til niðurstaða er fengin. Allt eru þetta mikilsverð atriði, sem leysa þarf fullnægjandi. Það er auðvitað ekki rétt, eins og hann gerir, að líta ekki á fellda tillögu sem afstöðu og samþykkt.
- Fyrirkomulaginu lýst
Þeir, sem hafa atkvæðisrétt, taka við atkvæðum, d.a.m. atkvæði á dag, 100 atkvæðum á mánuði eða 1000 atkvæðum á ári, sem líður, og sín á milli í því hlutfalli, sem ákveðið hefur verið, að þeir hafi til áhrifa, t.d. þannig, að sá, sem hefur helmingi meira fylgi meðal kjósenda en annar, fái helmingi breiðari atkvæðastraum. Þennan atkvæðastraum eiga menn að geta notað eftir hendinni eða geymt að eigin vild. Þegar atkvæðin eru notuð, skulu þátttakendur geta dreift þeim á tillögur í hlutfalli við það, hvað þeir leggja mikla áherslu á að vinna að eða gegn framgangi tillagna, þar sem þeir geta meðal annars tekið tillit til þess, hvað þeir telja sér hag í að hafa mörg atkvæði í sjóði vegna þeirra mála, sem kunna að koma til atkvæða síðar. Þetta er raunar nokkuð líkt því, að maður taki við jöfnum peningastraumi og hafi rétt til annaðhvort að nota þá strax eða safna þeim í sjóð til að nota þá síðar, og noti þá á það, sem í boði er á þann hátt, að síðasti þúsundkallinn í einum kaupum veiti jafnmikla fullnægju og síðasti þúsundkallinn í hvaða öðrum kaupum sem er. Við peningaeyðslu hugsa menn líka um það öryggi, sem menn fá með því að spara fé. Maður veit sjaldan, hversu vel fjárstraumurinn til manns mun halda áfram og ekki heldur í hvaða fjárþörf maður kann að komast, af því að staða manns kann að breytast eða kaupgetan. Við notkun atkvæðasjóðs ættu menn að hafa nokkru vissu um það, hvernig atkvæðastraumurinn muni haldast, en verra er að vita, hversu mikilvæg mál kunna að koma upp. Þyrfti að ræða, hvaða skilyrði hafa áhrif á þá óvissu og hvernig fyrirkomulaginu má haga svo, að það dragi úr óvissunni.
Í peningakerfi er reglan sú, að peningarnir halda gildi sínu, án þess að spurt sé, hvenær þeirra hafi verið aflað. Meta þarf og ákveða sérstaklega, hversu lengi atkvæði skulu gilda.
2.1 Um tvo kosti að velja
Fram kemur tillaga til atkvæða. Þá verða greidd atkvæði milli tveggja kosta, þess að samþykkja tillöguna og þess að láta það vera. Kostirnir kallast A og B. Þátttakendur raða kostunum, setja fyrst þann kost, sem þeir kjósa síður, en síðan hinn og við hann þá atkvæðatölu, sem þeir vilja láta af mörkum, til að hann sigri. Síðan eru lögð saman atkvæði á hvorum kosti um sig. Sá kostur, sem hefur fleiri atkvæði, telst samþykktur, þar sem þátttakendur hafa í heild viljað fórna meira fyrir hann af rétti sínum til að hafa áhrif á samþykktir. Við reikningsskil skal aðeins draga atkvæði af þeim, sem sigruðu. Samanlagt skal draga af þeim ofboð lítið meira en lagt var fram með hinum kostinum. Þetta líkist nokkuð því, að menn skuli í viðskiptum, þar sem tilboða er leitað, þurfa að bjóða eilítið hærra en fyrri boð, ef menn vilja ná kaupum, en þar þarf aðeins sá, sem gerir hæsta boð og nær kaupum, að borga. Þeir, sem minna buðu, þurfa ekki að greiða neitt. Á sama hátt er það svo hér, að dregin eru atkvæði af þeim, sem sigruðu, en þeir, sem studdu þann kost, sem varð undir, halda þeim atkvæðum, sem þeir buðust til að fórna fyrir hann.
Ekki skal draga af þeim, sem sigruðu, öll atkvæði, sem þeir buðust til að láta af hendi. Er það til að koma í veg fyrir, að kostur, sem svo til allir styðja og fær hlutfallslega fá mótatkvæði, verði dýrkeyptur. Þess vegna skal draga af þeim, sem sigra, í heild atkvæðatölu gagntillögunnar plús óendanlega lítið af atkvæðum, en framkvæmdin verður sú, að atkvæðatala gagnkostsins kemur sigurvegurunum til frádráttar. Ef kosturinn A fékk n atkvæði og vinnur og kosturinn B m atkvæði, skal draga af þeim, sem greiddu A atkvæði, m atkvæði og þeirri tölu skipt á hvern einstakan með því að margfalda atkvæðatölu hans með m/n. Atkvæðagreiðslan skal vera leynileg, þar til henni er lokið, til að koma í veg fyrir atkvæðabrall.
Kanna þarf frekar og ræða hugsunina á bak við verðlagninguna og aðrar verðlagningarleiðir og áhrif þeirra.
2.2 Þrír eða fleiri kostir í máli
Ef kostirnir eru þrír, sem greiða skal atkvæði um, gerist það í einu. Aðferðinni verður lýst með dæmi. Sama aðferðin er höfð, þó að kostirnir verði fleiri en þrír.
Kostirnir kunna að hafa orðið þrír, þegar fram kom breytingartillaga við A. Þriðji kosturinn er að styðja hvoruga tillöguna. Einn þátttakendanna (X) forgangsraðar kostunum þannig: C er lakasti kosturinn. Hann býðst til að leggja fram 10 atkvæði, til að A verði samþykktur heldur en C. Hann býður eitt atkvæði, til að B verði kosinn heldur en A. Annar þátttakandi, Y, forgangsraðar þannig: A er lakasti kosturinn. Hann býður fjögur atkvæði á B umfram A. Á C framyfir B býður hann 20 atkvæði. Z þykir B lakast. C metur hann þremur atkvæðum betra en B og A 12 atkvæðum betra en C.
Með þessu er sagt, að þátttakendur skuli fyrst raða kostunum frá þeim lakasta upp í þann besta og taka fram við hvert bil atkvæðamun. Síðan eru atkvæði lögð saman. (Það er í verkahring bókhaldarans, sem getur verið rafreiknir, en ekki þess, sem greiðir atkvæði, að reikna atkvæðamun fyrir tvö eða fleiri bil). A hlýtur 10 atkvæði frá X, ekkert frá Y og 15 frá Z. B fær 11 atkvæði frá X, fjögur frá Y, en ekkert frá Z. Á C kemur ekkert atkvæði frá X, 24 frá Y og þrjú frá Z. Ef ekki greiða fleiri atkvæði, verður niðurstaðan þessi: A hlýtur 25 atkvæði, B 15 atkvæði og C 27 atkvæði. Atkvæðisbærir í málinu bjóða mest af áhrifum sínum fyrir C. Þess vegna telst það kosið og samþykkt.
Svo þarf að reikna, hvað draga skal mörg atkvæði af þeim, sem stóðu á bak við sigurkostinn C. Það eru félagarnir Y og Z. Alls komu 25 atkvæði á A. Til þess að komast að því, hvað mikið Y og Z þurfi að láta af atkvæðum til að jafna niðurstöðuna fyrir A, þarf fyrst að lækka atkvæðin á A og C að því skapi, sem sami þátttakandi á atkvæði á báðum kostum. Í þetta skipti á Z atkvæði einn báðum megin, 15 á A og 3 á C. Því er niðurstaðan á báðum kostum lækkuð um 3. Þá verða eftir 22 atkvæði á A (10 frá X og 12 frá Z) og 24 atkvæði á C, öll frá Y. Draga skal af Y 24 atkvæði sinnum 22/24 = 22.
Næst er að reikna, hvað mikið skal draga af þeim, sem greiddu C atkvæði, til að jafna atkvæðin á B. B fékk 11 frá X og 4 frá Y. Þarna á Y atkvæði á báðum kostunum. Þegar lækkað hefur verið báðum megin um 4 Y-atkvæði, verða eftir 11 atkvæði á B á móti 23 atkvæðum á C, 20 þeirra frá Y og 3 frá Z. Draga skal af Y 20 sinnum 11/23 = 9 13/23 atkvæði og af Z 3 sinnum 11/23 = 1 10/23 atkvæði. Draga skal frá Y 22 atkvæði til að jafna atkvæðin á A og 9 13/23 atkvæði fyrir hlut hans í að jafna atkvæðin á B. Atkvæðagreiðslan skoðast nú sem endurtekin atkvæðagreiðsla: A gegn B, B gegn C og C gegn A. Þau atkvæði, sem Y hefur boðið fyrir C í einni atkvæðagreiðslu, halda gildi sínu, þó að fleiri en einn kostur keppi við C. Þetta er svo að skilja, að sá, sem hefur átt hlut að sigrinum, hefur tekið afstöðu með einum kosti (en hefur ekki í sjálfu sér tekið afstöðu gegn svo og svo mörgum kostum) og þarf að blæða fyrir það, en verðið er sett eins og lýst hefur verið.1 Þannig skiptir ekki máli, hvort samdar hafa verið og lagðar fram fleiri tillögur í málinu, sem samanlagt og af einstökum þátttakendum hafa verið metnar enn lakari en þeir kostir, sem samkvæmt reikningsskilum kosta einstaka þátttakendur mest. Y missir því aðeins 22 atkvæði fyrir að vinna að því, að C sigraði. Z missir 1 10/23 atkvæði vegna reikningsskila milli C og B.
Reikningsskil atkvæðagreiðslunnar líta þannig út í yfirliti:
Kjósendur |
X |
Y |
Z |
|||
Forgangsröðun: athvæði á hvert stig tilgreind af kjósendum |
C |
A |
B |
|||
A |
10 |
B |
4 |
C |
3 |
|
B |
1 |
C |
20 |
A |
12 |
|
Athvæðamunur reiknaður af bókhaldinu í hlutfalli við |
C |
0 |
A |
0 |
B |
0 |
A |
10 |
B |
4 |
C |
3 |
|
B |
11 |
C |
24 |
A |
15 |
Það þarf 22 atkvæði á C til að jafna atkvæði á A; 22/24 atkvæði á hvert atkvæði á C eftir samhliða lækkun í 0 öðru megin.
22 C-atkvæðum dreift...........Y: 24 x 22/24 = 22
á þátttakendur.......................X og Z:.0 x 22/24 =0
Kjósendur |
X |
Y |
Z |
|
C gegn B |
B |
11 |
4 |
0=15 |
C |
0 |
24 |
3=27 |
|
C gegn B eftir lækkun |
B |
11 |
O |
0=11 |
C |
0 |
20 |
3=23 |
Það þarf 11 atkvæði á C til að jafna atkvæði á B; 11/23 atkvæði fyrir hvert atkvæði á C eftir samhliða lækkun í 0 öðru megin.
11 C-atkvæðum dreift...................Y: 20 x 11/23 = 9 13/23
á þátttakendur.............................. Z:..3 x 11/23 = 1 10/23
Niðurstaða reikningsskilanna: C er kosið. Af Y eru dregin 22 atkvæði fyrir atkvæði á A, en ekkert fyrir atkvæði á B. Af Z er dregið 1 10/23 atkvæði fyrir atkvæði á B.
Tveimur meginreglum er fylgt við reikningsskilin: Áður en verðlagt er, eru atkvæði í samanburði færð niður jafnmikið á báðum kostum og niður í 0 öðru megin hjá þeim, sem eiga atkvæði á báðum kostunum, sem eru í útreikningi. Atkvæði á sigurkostinum eru borin saman við atkvæði á hverjum hinna kostanna, eins og væri um endurtekna atkvæðagreiðslu að ræða, þar sem sigurkosturinn og atkvæði á honum ganga aftur.
Eins og sjá má, verður fyrirkomulagið notað, þó að kostirnir verði margir. Það er auðvelt að gefa forgangsröðun til kynna, ef menn hafa áttað sig á afstöðu sinni. Þátttakandi þarf ekki að hafa í huganum samtímis annað en þá tvo kosti, sem fyrir honum standa næst hvor öðrum. Breytingartillögur við lagafrumvarp geta orðið svo að segja ótölulegar í meðförum þess. Ef þátttakandi hefur aðeins áhuga á einu atriði í fjölþættu máli, á hann kost á því að lýsa afstöðu sinni með því að segja, að þeir kostir fái n atkvæði, sem geyma tilgreinda frumvarpsgrein, en annars ekkert, eða að hann leggi fram m atkvæði á frumvarpið, ef tilgreinda grein vantar í það, en ekkert á þá kosti, sem geyma greinina.
2.3 Hvernig varðveita má forræði í máli
Það atkvæðagreiðslufyrirkomulag, sem menn hafa átt að venjast, er þannig, að það rýrir ekki atkvæðisrétt manns formlega að greiða hvað eftir annað atkvæði í sama máli. Fyrst er gerð samþykkt. Stuttu síðar kemur tillaga um að afnema samþykktina. Þeir, sem áður studdu samþykktina, hafa þá oftast jafnmikið atkvæðaafl til að fella gagntillöguna, eins og þeir höfðu áður til að stuðla að samþykktinni. Þetta er hin formlega hlið fyrirkomulagsins. Annað mál er, og oft vill það vera það, sem á reynir, að minnihluti, sem hefur fengið samþykkt gerða með því að taka þátt í samtengingu, hefur enga tryggingu bundna með samningi eða reglugerð fyrir því, hvað samþykktin fái að standast lengi. Samtengingin getur leyst upp eða breyst, og það fer eftir stöðu minnihlutans í leiknum, hvernig fer með þær samþykktir, sem gerðar hafa verið að ósk hans.
Þegar atkvæði eru greidd úr sjóði, kostar samþykkt væntanlega oftast atkvæði. Ef ekki eru gerðar gagnráðstafanir, kunna þeir, sem vilja láta samþykkt halda gildi, að þurfa að blæða atkvæðum hvað eftir annað á það, sem í reynd er sama málið, ef stöðugt eru lagðar fram og koma til atkvæða tillögur um breytingar á samþykktinni. Það er ósanngjarnt, að þannig skuli mega hafa af mönnum atkvæði. Það býður jafnvel upp á það, að gerðar verði tillögur til þess fyrst og fremst að ná atkvæðum af andstæðingi, sem hefur yfirburði í málinu.
Samþykktir geta verið mjög ólíkar í þeim skilningi, að sumar verða í reynd ekki teknar aftur, en aðrar eru þannig, að nýjar samþykktir má gera óháð fyrri samþykktum. Ef sett eru lög um sauðfjárböðun árið 1971, eru menn lítið bundnir af því að samþykkja lög um böðun árið eftir eða síðar. Ef samþykkt hefur verið að virkja á árið 1971, og það var gert, er hætt við, að tillaga, sem fram kæmi árið 1972-árið eftir virkjunina - um, að áin skuli renna eins og hún gerði fyrir virkjun, fái miklu færri atkvæði en kunna að hafa komið gegn virkjun, þegar hún var samþykkt.
Þessi dæmi benda til þess, að það geti verið allur gangur á því, hvernig kringumstæður svo að segja taka mál af dagskrá eftir samþykkt, og þetta verður ljósara af dæminu, sem hér fer á eftir og notað er til að sýna, hvernig gefa má fólki kost á að koma í veg fyrir, að það þurfi að blæða atkvæðum hvað eftir annað fyrir það, sem er í reynd sama málið, en andstæðingar málsins halda atkvæðum, þar sem þeir verða undir.
Dæmið er það, að fram kemur tillaga um að virkja á til vatnsorku. Það er sjálfkrafa gagntillaga, að virkjunin, eins og henni er lýst í tillögunni, skuli ekki gerð. Ef virkjunartillagan verður felld, verða dregin af andstæðingum virkjunar jafnmörg atkvæði og meðhaldsmenn virkjunar lögðu fram. Án gagnráðstafana gæti komið fram sams konar tillaga um leið og tillagan hefði verið felld. Væntanlega mundu virkjunarmenn þá leggja fram álíka mörg atkvæði og í fyrra skiptið. Ef andstöðumenn stöðva virkjun aftur, missa þeir aftur álíka mörg atkvæði og við fyrstu atkvæðagreiðslu.
Þetta er augljóslega ósanngjarnt. Það mætti athuga, hvort það bætti úr að banna að taka upp sömu tillögu fyrr en að ákveðnum tíma liðnum. Það gæti annaðhvort verið almenn regla eða samþykkt tengd gagntillögunni um, að ekki verði virkjað. Slík lausn á vandanum getur auðveldlega orðið óskynsamleg. Forsendurnar fyrir þeirri afstöðu, sem menn taka með atkvæðagreiðslu, breytast mishratt, og erfitt er að sjá fyrir, hversu hratt forsendurnar kunna að breytast. Auk þess kunna að koma fram nýir þátttakendur, sem ekki höfðu atkvæðisrétt áður.
Þó svo að samþykkt væri, að ekki mætti bera undir atkvæði sömu tillögu fyrr en að liðnum ákveðnum fresti, verður ekki alveg komið í veg fyrir, að fram verði settar og bornar undir atkvæði tillögur, sem þjóna sama tilgangi og vekja sams konar andstöðu. Ráðagerð um virkjun getur fengið annan tíma eða hönnun breyst meira eða minna. Erfitt kann að reynast að setja mörk fyrir nýjar tillögur, svo að það sjáist ótvírætt, að eitt er ný tillaga, en annað er raunar gamla tillagan endurvakin.
Þennan vanda sýnist mega leysa með því, að þeir, sem hafa staðið að samþykkt og fórnað atkvæðum fyrir hana, geti aflað sér sérstaks réttar til að hafa áhrif á málið um ákveðið skeið eða þeir geti veitt öðrum slíkan rétt með sérstakri samþykkt í sambandi við málið. Þá er ekki um það að ræða að læsa samþykktina fasta, heldur láta tilgreinda aðila (það geta verið fulltrúar, óbreyttir kjósendur, yfirvöld eða samtök) fá til umráða ákveðin atkvæði, sem þeir skulu geta ráðstafað á samþykktina, hvort sem þeir vilja, þegar til kemur, verja fyrri samþykkt, taka þátt í breytingum eða jafnvel taka afstöðu gegn henni.
Þessu má koma fyrir á ýmsa vegu. Áfram má nota dæmið um tillögu um virkjun á á. Eins og fyrr verður það sjálfkrafa gagntillaga, að virkjunin, eins og tillagan segir, skuli ekki gerð. Menn geta gert aðra tillögu með þessu efni: Ekki skal hreyfa við ánni, og tilgreindur aðili skal um ákveðið skeið hafa til ráðstöfunar svo og svo mörg atkvæði á tillögur, sem varða rennsli árinnar. Þarna má auðvitað setja fram margar tillögur, þar sem atkvæðatala, tímabil og aðili getur breyst, og atkvæðatalan getur breyst með tímanum. Væntanlega mundu þeir, sem ekki vilja virkja, leggja fram fleiri atkvæði á þær tillögur í málinu, sem veita þeim sjálfum eða þeim, sem þeir ætla, að muni hafa sömu afstöðu til virkjunar, rétt til að hafa áhrif á framkvæmdir við ána um langt skeið en um skamman tíma, en trúlega bjóða þeir ekki mörg atkvæði til að halda slíkum rétti um ófyrirsjáanlega framtíð. Þeir, sem vilja virkja fyrr eða síðar, mundu væntanlega leggja fleiri atkvæði fram gegn tillögum, sem veita andstæðingum virkjunar rétt til að ráða sérstökum atkvæðum í virkjunarmálum árinnar um langt skeið en um stuttan tíma, og að sjálfsögðu greiða þeir sjálfri virkjunartillögunni flest atkvæði. Þarna er um nýja gerð samþykkta að ræða. Fólki gefst kostur á að afla sér réttar til að hafa áhrif á mál með sérstökum atkvæðum, án þess að afstaða þess til málsins þurfi að haldast óbreytt.
Menn kannast við, að í kaup- eða leigusamningum geta verið ákvæði, sem heimila endurskoðun, og eins þekkja menn dæmi þess, að ákveðnir aðilar fái varanlegan rétt til að ráða sérstökum málum eða málaflokkum. Til að mynda láta þjóðþing ákveðin mál í hendur sveitarfélaga og stofnana. - Ræða þarf, hvort og hvernig má breyta slíkum samþykktum um skilorðsbundna afhendingu atkvæða og hvort slík atkvæði skuli eyðast við notkun. Það verður þó ekki gert í þessari grein, en það sýnist sem slíkt þurfi að ákveða í almennum samþykktum viðkomandi samtaka.
2.4 Að skipta fastri stærð
Hér er um að ræða vanda, sem oft mætir samtökum, sem hafa fjármál. Ég skal lýsa vandamálinu og hvernig tekið er á því, með tilbúnu dæmi um gerð fjárhagsáætlunar hrepps eða kaupstaðar. Það er að vísu ekki svo, að niðurstöðutölur fjárhagsáætlunar séu ákveðnar af öðrum formlega, en mönnum hættir til að líta svo á, að þannig sé það í reynd, segja þá, að tekjustofnar séu fullnotaðir, og helst vilja menn hafa meira að deila út. Þegar kemur að því að skipta tekjunum, sem eru taldar nokkurn veginn ákveðnar, á útgjaldaliði, vinna menn í áföngum, taka fyrst þá liði, sem eru óhjákvæmilegir og síðan aðra, bera þá saman tvo þrjá í einu skref fyrir skref, hvort nokkurn lið megi hækka á kostnað annars. Síðan er lögð fram tillaga til fjárhagsáætlunar, en svo til aldrei nema ein tillaga, og það gefst lítið tækifæri, þegar áætlunin er afgreidd formlega, til að fá gerðar breytingar á henni, þar sem einni breytingu fylgdi jafnstór breyting á öðrum liðum innan tekjurammans. Þegar atkvæði eru greidd úr sjóði, verður það ekkert fundarskapavandamál að greiða atkvæði í einu um margar mismunandi tillögur til fjárhagsáætlunar með sömu niðurstöðutölum. Þeir kostir, sem koma til greina, verða þó hæglega fleiri en svo, að menn geti haft yfirlit yfir þá alla í heild sinni.
Þetta verður sýnt með dæmi. Það sýnist ekki flókið að eiga að skipta ákveðinni stærð í 5 jafna hluti. Samt geta kostirnir orðið margir. Hugsum það dæmi, að veita eigi veiðileyfi til 5 báta. Ef umsækjendur eru 6, má raða 5 bátum saman á 6 vegu. Það er ekki fleira en svo, að auðvelt er að raða öllum kostunum upp og hafa um þá atkvæðagreiðslu, eins og lýst hefur verið, setja efst á blað þá fléttu, sem menn vilja síst, síðan þá næstlökustu ásamt atkvæðatölu, sem menn leggja fram, til þess að hún verði heldur fyrir valinu, og svo framvegis, þangað til menn setja besta kostinn og þá atkvæðatölu, sem menn bjóða, til að hann verði tekinn fram yfir þann næstbesta. Ef umsækjendur eru 8 um leyfin, eru kostirnir 56 (8!/5!3! = 56); ef umsækjendur eru 10, geta orðið 252 fléttur, með 12 umsækjendum 792 fléttukostir, og þó að ekki væru fleiri en 15 umsækjendur, gætu komið til greina 3.003 ólíkar fléttur. Þarna er löngu orðið svo til ógerlegt að raða öllum kostum. Þó hefði þetta allt orðið enn flóknara, ef stærð leyfanna hefði mátt vera breytileg, til að mynda, ef átt hefði að skipta ákveðnu magni á 5 báta, en magn á bát (dagafjöldi, aflamagn) mátt breytast að vild.
Þetta á að sýna, hvað geta auðveldlega orðið miklu fleiri kostir en teknir eru formlega og meðvitað til afgreiðslu með þeim aðferðum, sem notaðar eru til skiptingar. Það er þá líka trúlega oftast svo, þegar skipta skal föstum stærðum eða stærðum, sem ákveðnar eru af öðrum, eins og t.d. útlánum banka eða réttinum til að veiða á ákveðnum miðum, að menn hugsa mest eða einungis um að tryggja sér og sínum hlut. Auðvelt er þó að finna dæmi um, að maður vill koma í veg fyrir veitingu til annars, þó að það auki ekki endilega hlut hans. Þess er ekki að vænta, að sérhver kynni sér og taki afstöðu til allra mála. Þegar atkvæði eru greidd úr sjóði, eiga menn kost á því að líta hjá þeim kostum, sem koma til atkvæða, ef menn telja sig ekki geta dæmt um þá, en að því leyti, sem menn taka afstöðu, gefa menn hana til kynna, eins og útskýrt hefur verið.
Eftirfarandi dæmi skýrir málið frekar. Það er þannig, að fjórar umsóknir hafa borist um veiðileyfi á ákveðnum miðum. Aðeins þrjú leyfi skal veita. Í þetta sinn eru fléttukostirnir aðeins fjórir, þannig að auðvelt er að stilla þeim öllum upp í einu. Fjöldinn í dæminu er takmarkaður til að fá betra yfirlit. Umsækjendur eru A, B, C og D, og fléttukostirnir verða þá ABC, ACD, ABD og BCD. 6 taka þátt í atkvæðagreiðslunni. Nr. 1 vill útvega A leyfi, en vill koma í veg fyrir, að B komist á miðin, af því að hann geri tjón þar. Hann veit ekki um kringumstæður annarra og tekur ekki sérstaka afstöðu til umsókna þeirra. Hann leggur fram á A 11 atkvæði, býður 9 atkvæði gegn B, en engin á C og D.
Nr. 2 vill koma B að, en þó því aðeins, að C fái leyfi (B getur verið háður því einhvern veginn, að C geri út), en hann kærir sig kollóttan um, hvort A eða D eru með. Nr. 2 setur því 13 atkvæði á B, ef C er í fléttunni, þ. e. a. s. 13 atkvæði á BC, en annars ekkert.
Nr. 3 vill koma C eða D að hvorum fyrir sig, en ekki báðum saman (hann kann að líta svo á, að það henti viðkomandi illa að gera út í einu eða saman tvo báta). Hirðir ekki um, hvað verður um A eða B. Hann setur því 7 atkvæði á fléttur með C, en ekki D, sömuleiðis 7 atkvæði á kosti með D, en án C.
Nr. 4 vill koma A og B að hvorum fyrir sig, en metur þó enn meira, að þeir komist að saman - þeir kunna að styðja hvor annan - og hirðir ekki um, hvaða hlutskipti C eða D fá. (Þarna meta þátttakendur forsendur umsækjendanna mótsagnakennt, þegar nr. 1 vill halda A og B aðskildum, en nr. 4 vill, að þeir fylgist að. Það er ekki ætlunin, að þetta skýringardæmi túlki nauðsynlega samstætt mat þátttakenda; það á aðeins að sýna, hvernig menn geta notað atkvæði í samræmi við eigið mat). Kostir með A í fá frá nr. 4 15 atkvæði, kostir með B í fá einnig 15 atkvæði, og fléttur með AB fá til viðbótar 5 atkvæði.
Nr. 5 vill leggja nokkuð fram fyrir C og D hvorn í sínu lagi. Hann lítur svo á, að þeir keppi sín á milli um áhöfn og aðstöðu, en samt sé meiri ávinningur að hafa þá saman en annan þeirra einan. Nr. 5 býður 10 atkvæði á fléttu með C án D, 10 á D án C, en 12 á fléttur með C og D.
Nr. 6 vill koma C og D að saman og telur það til vandræða, ef A er með. Hann lætur á fléttu með C og D án A 24 atkvæði, en aðeins 16 atkvæði, ef A er með.
Flétturnar fá þá atkvæði eins og yfirlitið sýnir (útreikninga verður venjulega að gera í vél, þeir verða of viðamiklir í höndunum):
TAFLA
Á ACD koma 9 atkvæði frá nr. 1 fyrir það, að hann lagði fram 9 atkvæði gegn B, en það svarar til þess, að allir kostir án B séu hækkaðir um 9 atkvæði. Eins og sjá má eiga nr. 4 og 5 atkvæði á öllum kostum. Þannig getur auðveldlega orðið, þegar menn taka ekki afstöðu til fléttunnar í heild sinni, heldur einungis til einstakra einkenna á fléttukostinum, og enginn kostur verður fléttaður án þess að geyma að minnsta kosti eitt þeirra einkenna, sem þátttakandinn vildi fram. Slíkt væri t.d. ekki óeðlilegt í atkvæðagreiðslu um fjárhagsáætlun, þar sem niðurstöðutölur voru bundnar. Þó að útkoman sé þessi fyrir 4 og 5, verður það ekki dýrara fyrir þá en þó að þeir hefðu stillt upp öllum kostunum og sett lakasta kostinn í 0, en haldið sömu fjárlægð milli kostanna og er í yfirlitinu, því að það er hvort sem er gert í reikningsskilunum, þegar atkvæðatala viðkomandi þátttakanda er við samanburðinn færð niður samhliða í 0 öðru megin.
Fléttan ABC er kosin með 76 atkvæðum. Til að reikna út, hvað draga skal mikið af þeim, sem eiga atkvæði á þeirri fléttu, eru atkvæði á ABC borin saman við atkvæði á hinum fléttunum, eins og þegar hefur verið lýst.
Að sjálfsögðu er því ekki haldið fram með þessu dæmi, að hér sé um að ræða þá aðferð til skiptingar á verðmætum, sem leiði til hagkvæmastrar nýtingar á miðunum og að þessi aðferð hafi yfirburði yfir önnur stjórntæki eins og að afhenda leyfi gegn gjaldi eða með því að leita tilboða. Raunar getur það orðið atkvæðagreiðslumál að taka afstöðu til þessa og greiða atkvæði um skiptingaraðferðir.
- Meira um það hvernig nota má aðferðina
3.1 Afgreiðsla fjárlaga
1) Tillögur um fjárveitingar, sem ákveða stærð tekjustofna beint. Hér er um það að ræða, að lagt er til, að ákveðinni fjárhæð sé veitt til tilgreindra nota og að féð sé sótt í tekjustofn, sem sé styrktur að sama skapi, en fjárveitingin sé án beinna áhrifa á aðrar fjárveitingar. Að sjálfsögðu geta verið fleiri tillögur í sama máli. Fjárhæðin getur þá verið breytileg, notkunin líka (þá er tekið fram í tillögunni, að hún komi í stað annarrar tillögu) og tekjustofninn getur verið af ýmsu tagi. Tillögurnar geta verið um fé til vegargerðar milli tveggja staða með þremur ólíkum vegarstæðum, þar sem gerð (breidd og slitlag) getur verið þrenns konar, en fé fæst með almennum söluskatti, tekjuskatti eða bílagjaldi. Hér eru 27 tillögur í sama máli. 28. kosturinn er, að ekkert fé skuli veitt á þann háttt, sem gerðar eru tillögur um. Þessi kostur kemur sjálfkrafa sem tillaga samkvæmt almennum samþykktum. Þess vegna eru greidd atkvæði um 28 tillögur. Menn fá þannig tækifæri til að taka afstöðu til þess, hvort þeir kostir, sem leiðir af fjárveitingu, eru meiri en það álag, sem verður af skattlagningunni. Gjöldin, t.d. gjald á bíl eða söluskattur, verða þá ákveðin fyrir hvert tímabil eftir þeim reglum, sem gilda um tekjustofninn, þegar allar fjárveitingar af viðkomandi tekjustofni hafa verið samþykktar. Með þessu eru tengd beint saman hagurinn og óhagræðið við hverja einstaka fjárveitingu, eins og ætla má, að menn geri í einkaneyslu sinni, en ekki er tekin beint afstaða til þess, hvað gjöldin til einstakra tekjustofna skuli vera há. Auðvitað má hvenær sem er áætla gjöldin, þegar menn vita, hversu miklar fjárveitingar hafa verið samþykktar eða tillaga gerð um.
2) Fjárveitingar af tekjustofnum af ákveðinni stærð. Þá verða greidd atkvæði í einu um allar tillögur um fjárveitingu af hverjum tekjustofni fyrir hvert tímabil. Aðferðin er eins og lýst er hér að framan við skiptingu á fastri stærð.
3) Fjárlög sett í einni atkvæðagreiðslu. Hún fer fram eins og skipting af fastri stærð með þeim mun, að menn taka samtímis afstöðu til þess, hvað niðurstöðutölur skulu vera háar með því að forgangsraða tillögum um tekjur og álagningu. Eðlilegt er, að þeir, sem gera tillögur um fjárveitingar, þurfi að vísa á tekjustofn í tillögunni t.d. með því að vísa á samsvarandi hækkun söluskatts eða á jafnmiklar tekjur af 10% söluskatti. Eðlilega kallar það oft á breytingartillögur. Með þessu móti geta þátttakendur haldið þeirri framkomu, sem menn eiga að venjast frá afgreiðslu fjárlaga, þar sem menn telja oft miður, að skattar og gjöld séu hækkuð, um leið og þeir stuðla að nýjum fjárveitingum án þess að vísa á samhliða lækkun á öðrum fjárveitingum. Við reikningsskil atkvæðagreiðslunnar finnst skurðpunktur fyrir slíka samhengislausa afstöðu.
4) Ráðstafanir vegna hagsveiflna kunna að vissu marki að rekast á önnur markmið efnahagsmála. Þær lausnir, sem lýst hefur verið, gefa tækifæri til að vega þau markmið hvert á móti öðru. Menn geta auðveldlega gert tillögur um misjafnlega mikinn halla eða afgang á fjárlögum, og menn geta samþykkt fjárlög, þar sem ákveðnar fjárveitingar eru háðar d.a.m. atvinnuleysi í öllu landinu eða í vissum landshlutum. Munurinn frá því, sem nú er, er, að menn geta í einu lagi gengið til atkvæða um margar tillögur í sama máli.
5) Fjárveitingartillögur með atkvæði, sem fylgja þeim ár eftir ár. Áður hefur verið sýnt, hvernig fólk getur, ef það vill, tryggt sér nokkuð varanlegt forræði í máli. Þessu má koma fyrir við afgreiðslu fjárlaga. Þá fylgja þannig tryggðir póstar með atkvæðum sínum í þær fléttur, sem keppt er um, ef ekki er annað tekið fram, eða þeir, sem eiga atkvæði á bak við slíka pósta, fá skilaboð um, að atkvæðatrygging þeirra sé með í leiknum. Ef menn vilja svo, geta þeir gert breytingartillögur innan þess málaflokks, sem tryggingaratkvæðin eru merkt, og flutt til tryggðu atkvæðin eftir mati sínu og afstöðu til þess meðal annars að vinna að því, að einhver kosta þeirra verði fyrir valinu. Atkvæðin fylgja málinu, þó að það breyti um mynd, þann tíma, sem samþykkt hefur verið.
6) Varanleg mótatkvæði. Á sama hátt og atkvæði geta fylgt um lengri tíma fjárveitingartillögum, geta fylgt öðrum fjárveitingum mótatkvæði. Þetta sýnist ekki bæta neinu við það, sem hefur verið sagt um aðferðir til að halda forræði í málum.
7) Bann við atkvæðagreiðslu um ákveðnar fjárveitingar. Í stað þess að menn láti mótatkvæði fylgja ákveðnum fjárveitingartillögum um lengri tíma, geta menn gert samþykkt með svo og svo varanlegum atkvæðum um, að tillaga til fjárveitingar til ákveðins máls geti ekki komið til atkvæða. Væntanlega yrði fyrst ástæða til að gera slíka samþykkt, þegar tillaga um fjárveitingu er komin fram. Það getur verið ástæða til að bregðast þanni við d.a.m., ef fram kemur tillaga um fjárveitingu til byggingar og fjárhæðin er langt frá því að vera nógu mikil til að ljúka byggingunni. Ef lítil fjárveiting hefur verið samþykkt og byrjað hefur verið á byggingunni, finnst mönnum þeir frekar tilneyddir til að sjá til þess, að henni verði lokið. Til þess að koma í veg fyrir, að menn geti þannig neytt mál upp á aðra, þarf að vera tækifæri til að samþykkja, að ekki megi taka slíkar tillögur til atkvæðagreiðslu um fjárlagafléttur. Sama tilgangi má ná með því að samþykkja sem skilyrði fyrir fjárveitingu, að greiðsla megi ekki fara fram, fyrr en fjárveitingin hafi náð ákveðinni stærð, og slíka samþykkt um skilyrði má tryggja með varanlegum atkvæðum.
Nefna verður í sambandi við hugmyndina um, að gera megi samþykktir, sem banna atkvæðagreiðslu um ákveðnar tillögur, að það þarf að skoða almennt, hvaða skilyrði skuli þurfa að uppfylla, til að greiða megi atkvæði um tillögu. Eins og kunnugt er hafa samtök í almennum samþykktum sínum misströng skilyrði, sem uppfylla þarf, áður en bera má tillögu undir atkvæði.
3.2 Skipting á öðrum gæðum
Í þetta sinn verður aðeins bent á tækifæri til reikningslegrar niðurjöfnunar samþykkta með sjóðsatkvæðum, þegar viðfangsefnið er það að skipta réttinum til að hagnýta gæði náttúrunnar, við svæðisskipulag, við skiptingu útlána banka og þegar jafna skal niður framleiðslumagni innan samtaka fyrirtækja. Af þessum viðfangsefnum er svæðisskipulag oftast opinbert mál, en hin verkefnin geta hér á landi verið hvort sem er opinber eða ekki, þar sem meðal annars bankarnir eru að mestu opinberir. Hvort heldur er sýnist það ekki hafa mikil áhrif á hina rökvíslegu hliðar á niðurjöfnuninni, og raunar sýnast ekki koma fram neinar verulega öðru vísi hliðar en ræddar hafa verið, hvort heldur skipting gæðanna gerist gegn gjaldi, með banni og fyrirmælum eða með veitingu leyfa. Stundum er leyfisveiting þannig, að samanlögð leyfi geta ekki farið út fyrir vissan ramma, og verður hún þá eins og skipting fastra stærða eða stærða, sem eru ákveðnar af öðrum (d.a.m. lán úr banka, svæði til skipulags og stundum veiðileyfi), en fléttukostirnir innan stærðarinnar geta orðið æði margir. Oft vill þá vera eðlilegt að ráðstafa gæðum til mislangs tíma, ef til vill með tækifæri til að endurskoða málið hvenær sem er, og getur þá komið sér vel að hafa tryggt sér með samþykkt sérstök atkvæði til að hafa áhrif á endurskoðunina.
3.3 Atkvæðabrall
Eins og ljóst er, er tilgangurinn með aðferðinni sá, að þátttakendur skuli geta raðað atkvæðum á mál í hlutfalli við það, hvað þeir telja þau mikilvæg. Það er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því, þó að það verði ekki gert til hlítar í þetta sinn, hvort þátttakendur kunni með árangri að geta dreift atkvæðum sínum á málin ekki aðeins í hlutfalli við afstöðu sína til málanna, eins og vera ber, heldur líka í þeim tilgangi að hafa af öðrum atkvæði eða spara eigin atkvæði án tillits til mats á því máli, sem er til afgreiðslu. Þátttakandi getur reynt að spara atkvæði, ef hann telur, að sá kostur, sem hann vill helst, muni verða valinn, þó að hann leggi færri atkvæði á hann en hann metur hann verðan. Eins má reyna að hafa af öðrum atkvæði, ef maður telur, að sá kostur, sem maður kýs helst, muni ekki verða valinnn, jafnvel þó maður leggi fram á hann fleiri atkvæði en maður telur hann verðan, en þannig hefur kostnaður sigurvegaranna af sigrinum verið aukinn.
Það er nokkuð snúið að ætla, hversu mikið kann að verða um slíkt. Gera verður ráð fyrir, að menn geti eitthvað brallað með atkvæði, og meta verður kosti aðferðarinnar með hliðsjón af því. Með tilraunum má fá skýrari mynd af því, hvað kunni að mega bralla mikið með atkvæði með árangri. Það má bæði hugsa sér þær tilraunir sem hermileik, sem stjórnað er af rannsóknarmönnum, eða aðferðin er reynd sem ráðgefand eða ráðandi. Nokkuð má þó ráða um þetta með því að hugsa um leikstöðu og kanna tækifæri til bralls.
Það sýnist sem misnotkun geti ekki heppnast örugglega, nema maður viti, hvernig aðrir þátttakendur dreifi atkvæðum á kostina. Þess vegna þarf fyrst af öllu að hafa atkvæðagreiðsluna leynilega, þar til henni er lokið. Svo virðist einnig sem það yfirlit, sem menn þurfa að hafa til að geta brallað með árangri, verði lélegra eftir því sem þátttakendur verða fleiri og kostirnir, sem kunna að sigra í málinu, fleiri. Við það fyrirkomulag atkvæðagreiðslu, sem menn eiga að venjast, eru kostirnir yfirleitt fáir, oftast aðeins tveir í einu. Raunverulegir kostir, sem menn hefðu viljað íhuga og taka afstöðu til og hafa ef til vill tekið afstöðu til, hafa þó yfirleitt verið fleiri. Notkun atkvæðasjóðs gefur, eins og ljóst er, tækifæri til að taka afstöðu til margra kosta í einu. Þegar svo er, verður verra að spá í atkvæðastöðuna en mönnum hefur reynst hingað til.
Tölu þátttakenda má breyta á tvo vegu, fjölga eða fækka því, sem kalla má hliðstæða þátttakendur, og gefa kost á eftirliti með fulltrúum. Eftirlitið getur orðið við það, að atkvæðanotkun verður gerð opinber eftir talningu, en ætla má, að það veiti fulltrúum aðhald til að beita áhrifum sínum eftir málefnum án atkvæðabralls og krefjist greinargerðar þeirra um atkvæðanotkun af þeim, sem þeir hafa umboð frá. Eins má koma því svo fyrir, að umbjóðendur eigi kost á atkvæðagreiðslu, sem grípur að sínum hluta fram í fyrir atkvæðum fulltrúanna, þegar umbjóðendurnir kæra sig um og telja það vissara. Aðferðin leyfir það rökvíslega og tæknilega, en ekki er kostur að ræða það frekar hér.
Það eru fleiri hliðar á brallhættunni. Notkun varanlegra atkvæða virðist draga úr henni. Ef um stórt mál er að ræða miðað við önnur mál, sem koma til meðferðar, eru brallskilyrðin betri en þegar hvert mál er tiltölulega lítið. Fyrir þátttakendur verður hlutfallsleg stærð mála að nokkru leyti spurning um það, hvað atkvæði þeirra gilda lengi, en það hvað fljótt atkvæði ganga úr gildi er líka spurning um það, hvort koma má mönnum á óvart með því að flytja tillögur og taka þær til atkvæða. Það minnir hins vegar á þann vanda að ákveða, hvaða reglur skuli vera um það, hvern aðgang menn hafi til að fá mál borin undir atkvæði. Eins og kunnugt er eru um það ýmsar reglur, og í því sambandi, sem hér er rætt, er eðlilegt að hugsa um, hvort hafa megi sérstaka atkvæðagreiðslu (með reikningslegri niðurjöfnun samþykkta og ef til vill með sjálfstæðu sjóðsatkvæðabókhaldi) um það, hvort mál megi koma til atkvæða.2
- Atkvæðasjóður og peningakerfið
Samanburðurinn verður að vera stuttur í þetta sinn. Með peningakerfinu var tekið upp til að beita efnahagslegum mætti yfirgildi og form fyrir ávísun á verðmæti, sem kom í stað skipta á beinum gæðum. Nú er venjulegast, að verð á gæðum sé tilkynnt af þeim, sem býður þau föl. Kaupandi hefur takmarkaða greiðslugetu, þannig að hann veit, að ein kaup minnka strax tækifæri hans til annarra kaupa.
Samanborið við það fyrirkomulag atkvæðagreiðslu, sem menn eiga að venjast, þar sem þátttakendur hafa jafnmikinn rétt til áhrifa á hverja samþykkt og óháð því, hvaða árangri þeir hafa þegar náð með atkvæðum sínum, er við sjóðsatkvæði um að ræða yfirgildi fyrir formleg skilyrði til áhrifa á safn samþykkta, og greiðslugeta er takmörkuð, þannig að stuðningur við eina samþykkt rýrir oftast skilyrði manns til áhrifa á aðrar samþykktir. Samtengingar (samsteypur) sem aðferð til að bræða saman afstöðu til mála er skiptafyrirkomulag án þess að um sé að ræða samnefnara fyrir formleg áhrif. Í stað þeirra kemur með atkvæðasjóði formlegur mælikvarði og stjórnandi áhrifa á samþykktir.
Við notkun atkvæðasjóðs eru það þeir, sem æskja samþykktar, sem láta uppi það verð, sem þeir vilja mest gefa fyrir hana, en verðlagningin er síðan háð eftirspurn eftir öðrum kostum í málinu.
Venjulega halda peningar formlegu gildi sínu án tímatakmarka, en oft er það bundið við samtök (helst ríki). Máttur þeirra breytist þó með verðlaginu. Menn geta ákveðið að láta atkvæði halda gildi sínu eins lengi og menn kæra sig um og í þeim samtökum, sem menn vilja, en máttur þeirra verður háður því, hvað mikið er til af atkvæðum og eftirspurn eftir samþykktum.
Peningakerfið sem aðferð til að stjórna efnahagsmætti var ný hugmynd, sem kom í stað beinna skipta á gæðum. Enda þótt þar sé um að ræða nýja hugsun og nýja hugmynd, sem þeir þurfi að læra, sem ekki hafa vanist henni, er venjulega litið svo á, að það hafi auðveldað flestum að nota efnahagsmátt sinn til að hafa áhrif á skiptingu gæða. Þó að peningakerfið hafi þannig létt fyrir mörgum, er mikið vinnuafl bundið við notkun peninga. Sjóðsatkvæði er ný hugmynd til notkunar við stjórn á skiptingu áhrifa á samþykktir. Það er ekki lítið verkefni að komast að því, hversu margir eru bundnir því verki að láta í ljós álit og vinna úr því samþykktir, eins og og það gerist með margvíslegu móti. Könnun á því þarf að gera til að hafa betri hugmynd um það, hvað boðið er með sjóðsatkvæðafyrirkomulaginu.
Hagmálum 17 (1975) 56-70
Athugasemdir
1. Þó að þessi athugasemd sé ekki nógu vönduð og það kunni að vera ekki alveg rökvíst að gera slíkan mun á því að taka afstöðu með eða móti máli, geri ég samt ráð fyrir, að hún skýri vinnubrögðin og sýni, að þau eru sanngjörn.
2. Tæplega verður gengið svo langt að hugsa sér að hafa atkvæðagreiðslu um það, hvort hafa skuli atkvæðagreiðslu um það, hvort bera megi mál undir atkvæði!
Tilvísanir
James. S. Coleman: „Political money.“. The American Political Science Review, vol. LXIV, no. 4, December 1970.
Richard. A. Musgrave: The theory of public finance. A study in public economy. New York, 1959.