Það kemur iðulega fyrir að í ólíkum félögum eða flokkum vildu ýmsir styðja sama manninn, þar sem kjósa á fleiri en einn í stjórn eða sem fulltrúa, en halda að öðru leyti fram hver sínum mönnum. Þó er ekki leyft að setja saman lista í samræmi við það. Maðurinn getur ekki verið á nema einum lista og verður að gera upp á milli flokkanna (félaganna). Hér skal ekki um það sagt, hvers vegna svo er. Hins vegar skal því lýst með dæmi, hvernig það gæti hentað félagsskap að leyfa að bjóða fram lista til fulltrúakjörs eða stjórnarkjörs með sama manni eða sömu mönnum á fleiri en einum lista. Dæmið er félagsskapur bænda.

Svo til allir bændur landsins eru í búnaðarfélagi sveitar sinnar. Svæði félags og hrepps falla saman með fáum undantekningum. Búnaðarfélög hreppanna mynda búnaðarsambönd héraðanna, og er þar nær alltaf fylgt sýslumörkum. Sum búnaðarsambönd ná yfir tvær eða þrjár sýslur. Búnaðarsamböndin kjósa fulltrúa á búnaðarþing og er það aðalfundur Búnaðarfélags Íslands. Kosinn er 1, 2 eða 5 fulltrúar í hverju búnaðarsambandi, alls 25 fulltrúar í 15 búnaðarsamböndum (1 búnaðarsamband með 5 fulltrúa, 6 með 2 hvert og 8 með einn fulltrúa hvert).

Félagsskapurinn er allur byggður upp óháð einstökum búgreinum. Alllengi hafa starfað sérstök búgreinafélög, t.d. félag garðyrkjubænda síðan 1955. Undanfarin ár hafa verið stofnuð æ fleiri slík búgreinafélög. Hefur komið fram sú hugmynd, að búnaðarþing yrði skipað fulltrúum búnaðarfélaga. Hvernig mætti haga því? Búnaðarþing þarf að sitja alllengi til að vanda vinnubrögð sín. Mál á helst ekki að þurfa að senda til umsagnar búnaðarfrömuða, eftir að búnaðarþing hefur ályktað um það. Undanfarið hefur það setið tvær vikur árlega. Víst er, að það myndi mælast illa fyrir að fjölga fulltrúum á þinginu.

Með fulltrúaskipan er leitast við að tryggja, að hver sá málstaður, sem á nokkurt fylgi, verði ekki sniðgenginn. Ef búgreinafulltrúar eiga að sitja búnaðarþing, en fækkað yrði um jafnmarga fulltrúa búnaðarsambanda, er nokkur vandi að ákveða, hvaða búgreinar eigi rétt á fulltrúa, hversu mörgum hver og hvernig eigi að fækka fulltrúum búnaðarsambandanna.

Þar eð flest kjördæmin (búnaðarsamböndin) senda aðeins einn eða tvo fulltrúa á búnaðarþing, má með reikningi leiða líkur að því, að varla verða aðrir kosnir á búnaðarþing en fulltrúar aðalbúgreina landsins. Með því að stækka kjördæmin og láta þau hafa sömu mörk og alþingiskjördæmi má með sams konar reikningi leiða líkur að því, að meiri breidd yrði í fulltrúakjöri með tilliti til búgreina.

Reynslan af Suðurlandi, sem er 5 manna kjördæmi, staðfestir þó ekki það, sem hér er ályktað. Kemur það til, að þar hafa menn verið kosnir af tveimur flokkslistum (3 og 2) og raðað er á flokkslista í sýslunum þremur, svo að í reynd eru menn kosnir einn og einn. Þess vegna er ekki víst, að stækkuð kjördæmi tryggðu meiri breidd í fulltrúavali, ef kosningar færu fram á sama hátt og á Suðurlandi. Þó er ótrúlegt annað en að meiri breidd fengist með því að gera allt landið að kjördæmi og viðhafa hlutfallskosningar á venjulegan hátt. Því kynnu þó að fylgja óheppilegir flokkadrættir.

Annað ráð væri sem hér segir. Hin ýmsu samtök búnaðar og búgreina tilkynni tímanlega, hverjir megi teljast fulltrúar þeirra, svo að taka megi tillit til þess, þegar framboðslistar eru skipaðir. Úr því liði mega hin einstöku samtök og frambjóðendur setja saman nokkra lista aðalmanna og varamanna, og um þá er kosið. Sami maðurinn getur verið á fleiri en einum lista. Sá listi, sem fær mestan stuðning, fær alla kjörna. Menn ná þess vegna aðeins kosningu með því að vera á listum, sem hafa almennan stuðning. Sigurstranglegast yrði því að setja saman einn eða fleiri lista með eigin fulltrúa, þannig skipaða að öðru leyti, að listarnir skírskoti til sem flestra. Ekki er viðhöfð hlutfallskosning til að tryggja aðild minnihluta, heldur geta menn tryggt hlut sinn með því að tefla sínum fulltrúum fram á listum með fulltrúum annarra, sem njóta almenns stuðnings. Slíku kjöri fylgdi auðvitað togstreita, eins og kosningum yfirleitt, en ekki ætti að vera hætta á sundrandi flokkadráttum.

Með þessu móti gætu komið fram allmargir framboðslistar. Ýmsar aðferðir má hafa til að kjósa um listana. Ein er sú, sem höfð er við kjör forseta Íslands, að kjósa aðeins einu sinni. Árið 1980 var kosið um fjóra frambjóðendur, og nægði réttur þriðjungur gildra atkvæða (33,8%) til að ná kjöri. Líklegt er, að sá listi, sem næði kjöri, yrði býsna líkur þeim listum, sem kæmu næstir í fylgi. Önnur aðferð er að endurtaka kosninguna með þeim framboðslistum (tveimur eða þremur), sem fengu flest atkvæði.

Enn má nefna aðferð, sem tíðkast í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna við kjör á framkvæmdastjóra. Þar getur hver fulltrúi greitt atkvæði fleiri en einum, sem tilnefndir hafa verið (Brahms og Fishburn, 1983). Menn greiða þá atkvæði þeim, sem þeir geta sætt sig við, að skipi stöðuna. Fjórða aðferðin er, að kjósendur forgangsraði framboðslistunum, en gert er út um endanlega röð þeirra með aðferð Borda (Björn S. Stefánsson, 1983a, 1983b).
Ofangreind kosningaraðferð varð til í huga mínum sem svar við úrlausnarefni. Fróðustu menn kannast ekki við að hafa séð hennar getið. Aðferðin sýnist eiga við, þar sem menn vilja forðast að skerpa andstæður, svo að félagsskapurinn geti þrátt fyrir togstreitu komið fram sem heild út á við.Heimildir

Björn S. Stefánsson (1983a). Atkvæðagreiðsla um þrjá kosti eða fleiri. Lesbók Morgunblaðsins, 19. mars.

Björn S. Stefánsson (1983b). Kosningar. Lesbók Morgunblaðsins, 9. apríl.

Steven J. Brams og Peter C. Fishburn (1983). Americas unfair elections. The Sciences, nóv-des. 28-34.

Íslenskum félagsritum 1 (1989) 119-121