Hinn 29. september í haust fól menntamálaráðuneytið Þorsteini Tómassyni forstjóra að hlutast til um kosningu fulltrúa á fund fulltrúa starfandi vísindamanna sem tilnefnir mann í Rannsóknaráð ríkisins. Skyldi því vera lokið 5. október. Allir sérfræðingar stofnunarinnar 47 voru kjörgengir. Einn baðst undan endurkosningu, Stefán Aðalsteinsson, en hann var fulltrúi á síðasta fundi.

Þorsteinn ræddi samdægurs við mig um hvaða aðferð mætti nota, enda höfðum við áður rætt slík mál. Mig langaði mest til að reynd yrði önnur tveggja aðferða sem mest fer nú fyrir í vísindalegum ritum, aðferð Borda og ásáttaraðferðin.

Ásáttarkosning er þannig, að menn merkja við þá sem þeir geta sæst á að verði kosnir, og telst hver merking eitt atkvæði. Menn lyfta sem sagt þeim sem þeir merkja við upp um eitt sæti yfir hina. Kjósandi á ekki kost á að gera mun á þeim, sem hann getur sæst á. Sá sem merkir við marga getur gert sér meiri von um að atkvæði hans ráði úrslitum en sá sem merkir við fáa, en getur með því frekar átt á hættu að missa af tækifæri til að eiga þátt í því að óskafulltrúi hans fari upp fyrir annan sem hann getur aðeins sætt sig við.

Aðferð Borda er þannig að kjósendur eiga kost á að forgangsraða fólkinu. Sá sem er raðað efst fær stig fyrir alla hina, sá sem hlýtur annað sæti fær stig fyrir alla fyrir neðan hann o.s.frv. Ekki þarf að raða öllum, en þá skiptast stigin fyrir afgangssætin jafnt á óraðaða. Eins er ef menn setja tvo eða fleiri í sama sæti að þá er skipt jafnt á þá þeim stigum sem falla sætum þeirra sameiginlega í skaut.

Hvorug aðferðin var notuð. Sérfræðingarnir fengu kjörskrá sem var um leið atkvæðaseðill og skyldu menn merkja við allt að þremur nöfnum. Segja má að aðferðin sem valin var hafi verið þröngt afbrigði af ásáttarkosningu. Tíminn var svo naumur til að koma kosningunni í kring, að ekki var tækifæri til að útskýra framandi aðferð.

32 skiluðu atkvæðaseðli. 27 hlutu eitt til 13 atkvæði. Þrjú nöfn voru merkt á 29 seðlum, tvö á einum og eitt á tveimur.

Hvernig líst mönnum á aðferðina? Kjósandi einn spurði hvort hún væri lögleg. Svo vill til að engin ákvæði munu vera um hvernig kjósa skuli. Mér hefur verið bent á að með þeirri aðferð sem notuð var sé síður ástæða til að tala sig saman um ákveðinn mann en þegar aðeins má merkja við einn, enda á maður þá frekar á hættu að atkvæðið verði ónýtt. Þetta á enn frekar við um ásáttarkosningu. Mér sýnist það líka fylgja ásáttarkosningu að erfiðara yrði að tala sig saman. Þá þyrfti nefnilega ekki aðeins að fá menn til að taka höndum saman um að merkja við einn mann, heldur líka láta vera að merkja við aðra.

Strákurinn 1 1989