Ég geri ráð fyrir, að minnst af því, sem Sameinuðu þjóðirnar gefa sig að, gerist á allsherjarþinginu eða í öryggisráðinu, þar sem mál eru rædd opinberlega og leidd til lykta með atkvæðagreiðslu, heldur í ýmsum stofnunum. Stofnanirnar kveðja til ráðgjafar kunnáttumenn, sem geta verið áfram í aðalstarfi í heimalandi sínu. Félagi minn norskur, sem var til kvaddur vegna kunnáttu sinnar í fámenna nefnd, sagði mér, að í nefndarstarfinu hefði ekki aðeins verið spurt um þekkingu, heldur átti líka að gera tillögur um ráðstafanir. Þar hefðu verið ýmis álitaefni. Sérálit var óæskilegt og ekki látið koma fram. Félagi minn var eiginlega ekki fulltrúi Noregs, heldur fulltrúi þeirrar þekkingar, sem hann hafði vegna menntunar og starfs sem háskólamaður.

Mér þætti varið í að frétta nánar af reynslu í þessu efni frá þeim, sem hafa starfað í líku  hlutverki á vegum einstakra stofnana Sameinuðu þjóðanna. Áhugi minn á þessu tengist starfi  Lýðræðissetursins, sem Reykjavíkurakademían hýsir.

Morgunblaðinu 4. apríl 2023 (Velvakandi)