Í samráðsgátt stjórnarráðsins voru kynntar hugmyndir um breytingar á stjórnarskránni, sem varða forseta Íslands. Eftirfarandi umsögn var send 21. júlí 2020.

... fullyrða má, að sumar aðferðir lýðræðis eru betri en aðrar.

Peter Kurrild-Klitgaard, stjórnmálafræðingur,              
prófessor við Kaupmannahafnarháskóla                     
Úr umsögn um Lýðræði með raðvali og sjóðvali       

 

  

Að takmarka endurkjör forsetans

Hugsum okkur, að í aðdraganda forsetakosninga telji 60% kjósenda, að alls ekki megi endurkjósa forsetann A, en 40% styðja endurkjör hans. Auk A bjóða sig fram B, C og D. Stuðningur við þá síðastnefndu er 25%, 20% og 15%. Vilji 60% kjósenda um, að nóg sé komið, nær því ekki fram að ganga.

Öðru máli gegndi, ef raðval væri viðhaft. Þá mundu þeir, sem vilja alls ekki framlengja setu A, raða B,C,D; C,D,B,A; D,B,C; B,CD,A o.s.frv. Stigafjöldi á bak við einhvern þeirra þriggja, B, C og D, yrði óhjákvæmilega meiri en stigafjöldi þeirra 40%, sem setja A í fyrsta sæti.
Um þetta má lesa í fjórum greinum í Lýðræði með raðvali og sjóðvali, nefnilega

1. Nýr frambjóðandi greiðir ekki fyrir sigri aðalandstæðings (bls. 23-24),
2. Óþarft að kjósa í tveimur umferðum (bls. 24-28),
3. Að kjósa nýjan eða gamlan, karlmann eða kvenmann (bls. 42) og
4. Samþykkt um raðval (bls. 43-45).

Að treysta kosningu forseta

Í þessu sambandi er ráð að athuga grein, sem birtist í bók minni Raðval og sjóðval—Staðan í árslok 2018. Greinar og athugasemdir síðan 2003. Hún heitir Hvernig kosning forseta verður því traustari sem fleiri eru í boði og er á bls. 65-66.

Verklag við endurskoðun stjórnarskrár

Ég nota þetta tækifæri til að minna á umfjöllun mína um verklag við endurskoðun stjórnarskrár og lesa má um í greininni Að setja stofnsamþykkt, sem birtist í framangreindri bók Raðval og sjóðval (bls. 23-25), og í greininni Rammaáætlun í sömu bók (bls. 49-55).
Þar kemur fram, að tilraun mín að fá þingmenn og varaþingmenn til að útkljá mál með sjóðvali fór út um þúfur. Engu að síður tel ég athugandi að hafa sjóðval við undirbúning á vegum alþingis á breytingum á stjórnarskránni.