Nefnd á vegum menntamálaráðuneytisins hefur gert tillögu um skipan háskóla í landinu, raunar eru tillögurnar tvær.

Vinnubrögðin við að móta aðra tillöguna eru hefðbundin og stefna að ákveðinni skipan með fjóra háskóla. Þar eru tveir opinberir háskólar. Annar þeirra yrði til við samruna Háskóla Íslands og Landbúnaðarháskóla Íslands, en hinn við samruna Háskólans á Akureyri og Háskólans á Hólum. Þá verði tveir sjálfstæðir háskólar, annar við samruna Háskólans í Reykjavík og Háskólans á Bifröst, en hinn er Listaháskólinn. Rökin eru líka hefðbundin, um hagkvæmni stærðar og betri nýtingu umfram það, sem fæst með frjálsri samvinnu.

Hin tillagan er, að hér verði sjö háskólar hver sem sjálfseignarstofnun. Er gert ráð fyrir, að þeir sjálfir bjargi sér með samvinnu og samruna.

Síðari tillagan er að því leyti sveigjanlegri, að gefnar eru forsendur, sem eiga að knýja þá til ábyrgrar skipanar. Víst er, að hér rísa ekki háskólar sem sjálfseignarstofnanir óháðar ríkisframlögum. Fyrst svo er, kemst fjárveitingavaldið ekki undan því að taka afstöðu til starfsemi skólanna, svo sem verkefna og staðsetningar, en þá eru menn ekki langt frá fyrri tillögunni.

Ekki má búast við því, að til verði varanleg skipan háskóla. Góð skipulagsvinnubrögð er að setja leikreglur, sem leiði menn til að bregðast við forsendum á líðandi stund og breytingum á forsendum. Skipulagsvinna vegna háskóla er í grundvallaratriðum ekki ólík gerð samgönguáætlunar fyrir landið. Slík áætlun á sín tímabil, sem taka við hvert af öðru, en án endis. Þar þarf að fella í eina heildarlausn svar við smáu og stóru. Um sumt hafa fáir brýna hagsmuni og sérstakan skilning, um annað eru margir og almennur skilningur.

Sjóðval er þjál vinnubrögð við að laða saman lausnir, þar sem tekin er afstaða til samvinnu um smá og stór verkefni og til samruna smárra og stórra, nú eða upplausnar stærri heilda eða stærri verkefna. Nánar til tekið er um að ræða sjóðval um stórmál. Menn nálgast niðurstöðu hægt og sígandi og hafa svigrúm til endurskoðunar. Leikreglurnar knýja til ábyrgðar, það kostar nefnilega að ráða.

Fyrst þarf að ákveða, hverjir eiga að ráða í þessu. Eru nokkrir aðrir til þess frekar bærir en þingmenn? Sjóðvalinu mætti koma svo fyrir, að hver þingmaður veldi sér ráðgjafa, einn eða fleiri, og fengju þeir til ráðstöfunar atkvæði þingmannsins í þeim hlutföllum, sem hann vildi. Þessir fulltrúar móta svo skipanina í sjóðvali. Síðan tekur þingið stöðu málsins til greina, hver þingmaður eins og honum sýnist, þegar komið er að einstökum þinglegum ákvörðunum, en málið heldur áfram sem stórmál, eins og þátttakendum sýnist. Við þessi vinnubrögð nýtast gögn nefndarálitsins.          

Leiðbeiningar um stórmál í sjóðvali er að finna í Lýðræði með raðvali og sjóðvali í sérstökum kafla, sem heitir Stórmál.

Morgunblaðinu 18. maí 2012