Atkvæðagreiðsla er í fyrsta lagi tjáning hvers og eins, hún tjáir álit félagsskaparins og álit hluta hans. Svo er atkvæðagreiðsla að formi til ályktun félagsskapar. Hún getur verið ráð til að leita afstöðu, sem ekki var ljós, og samþykkja hana, eða ráð til að samþykkja og staðfesta álit, sem er vitað—eða kann að liggja í loftinu; kann að vera hvort tveggja í senn. Þessu verður lýst með reynslu í sýslunefndum og á alþingi. Að lokum verða aðferðirnar raðval og sjóðval metnar í þessu tilliti.

Frá ómunatíð skiptist Ísland í hreppa. Árið 1872 var komið á sambandi hreppa hverrar sýslu, sýslufélögum, undir stjórn sýslunefndar. Sýslunefnd hélt fund árlega, sýslufund. Í sýslufélögunum voru 5 til 16 hreppsfélög. Hvert þeirra kaus mann í sýslunefnd. Mál á sýslufundi voru svo til alltaf afgreidd einróma—svo segja fundargerðir, sem segja frá málum og samþykktum, en lýsa ekki ræðum. Sýslufundur var opinn.

       Enda þótt fundargerðir sýni einróma afstöðu, leiddi athugun í ljós, að menn höfðu ekki alltaf verið á einu máli í upphafi. Fundurinn komst að niðurstöðu. Hver nefndarmaður fyrir sig stóð að henni, með mismikilli ánægju, eins og getur gerst í fjölskyldu, sem út á við kemur fram í einingu. Atkvæðagreiðslan tjáði álit fundarins á tillögu til samþykktar, en var ekki til tjáningar á sérsjónarmiðum.

       Ýmis verkefni vöktu líf í hreppsfélögunum, eins og barnafræðsla, samgöngubætur, sameiginleg nýting landsgæða, niðurjöfnun útsvars og menningarstarf eins og bókasafn og leikstarfsemi. Í slíkum félagsskap lifði hver sýslunefndarmaður og hrærðist. Félagsskapurinn hélt áfram, óháð því hvernig fór um einstakt mál á einstökum sýslufundi.

Alþingi var endurreist árið 1845 sem ráðgjafarþing konungs. Verkefni þingsins var helst að fjalla um lög og reglur, sem konungsfulltrúi lagði fram. Þingmenn tjáðu álit sitt í afgreiðslu mála í nefndum, í nefndarálitum, með eigin tillögum og í ræðum og atkvæðagreiðslu á þingfundum. Þetta, nema umræður í nefndum, var birt, atkvæðagreiðsla hvers einstaks þá sjaldan var nafnakall. Alþingistíðindi birtu almenningi afstöðu þingmanna. Árið 1874 fékk alþingi takmarkað löggjafarvald og vald til að leggja á skatta og gjöld og veita fé. Flokkadrættir urðu á þingi í afstöðu til sambandsins við Danmörku, en tengdust varla öðru. Það var fyrst árið 1904, þegar landið hafði fengið ráðherra, að komst á, að meirihluti, sem hafði kosið ráðherrann, ríkti. Það var upphaf varanlegra flokka á þingi. Þeir þróuðust smám saman með almennum flokksfélögum. Það varð til þess, að afstaða í málum og í ræðum fylgdi sjónarmiðum flokksins, og sá andi myndaðist í flokkunum að tala einu máli. Flokkarnir höfðu verið búnir til; það var ekki svo, að þeir væru bara þar, eins og hreppsfélögin, með eigin sögu og sjálf. Það varð hlutverk flokksins að vera eitthvað og halda því við og vera annað en aðrir flokkar og halda því við.

 
Maður tjáir sig í raðvali með því að raða eða láta vera að raða því, sem lagt er fyrir, ekki bara að vera með, á móti eða sitja hjá. Álit í sjóðvali í einstöku máli sýnir meira en röð, það sýnir áherslu á það, sem lagt er fyrir. Álit tjáð með þessum aðferðum svarar til umræðna á sýslufundi. Gæti fjölmennari fundur fjallað um mál með þessum aðferðum, svo að niðurstöður teldust réttmætar? Þegar raðval er viðhaft, mundi málið enda á því að bera upp til samþykktar (já/nei) þá afstöðu, sem raðvalið skilaði flestum stigum. Varðandi sjóðval yrði það þannig, að einhvern tíma í meðferð málsins yrði það lagt í sjóðval, og síðan, þegar málið teldist vera mótað, yrði það borið undir atkvæði (já/nei). Þar sem um er að ræða skoðanakönnun, þarf ekki að breyta samþykktum vegna fyrirkomulagsins. Með slíkri málsmeðferð er minni ástæða til þess í flokksstarfi að leggja áherslu á að sýna einróma afstöðu. Færi þá svo, að flokkarnir mundu ekki þykja réttmætir og að tilvist þeirra yrði jafnvel ógnað?


Raðval og sjóðval greiðir fyrir því, að álit manna komi fram. Afstaða félagsskaparins finnst á rökvísan hátt, þar sem hver einstök tjáning þátttakenda, hvort heldur er raðval eða sjóðval, gildir með merkingu.


(Örfyrirlestur á Fullveldismaraþoni Reykjavíkurakademíunnar 18. ágúst 2018)