Formálsorð á hinni árlegu hollensk-flæmsku ráðstefnu stjórnmálafræðinga, Leiden 8. júní 2018

Eitt af ýmsum efnum í rannsóknum, sem lúta að atkvæðagreiðslu og kosningu, er túlkun á merkingu atkvæðagreiðslu og kosningar. Í fyrsta lagi er atkvæðagreiðsla og kosning tjáning hvers og eins, tjáning hluta af viðkomandi heild og tjáning heildarinnar. Þá er atkvæðagreiðsla að formi til ályktun heildarinnar, og getur þá verið ráð til að leita afstöðu, sem ekki var ljós, og samþykkja hana, eða ráð til að samþykkja og staðfesta álit, sem er vitað—eða kann að liggja; það kann að vera hvort tveggja í senn. Þessu verður lýst með reynslu. Þá verður raðval og sjóðval metið með tilliti til efnisins.

a) Hreppsfélög, sýslufélög

Síðan í ómunatíð skiptist Ísland í hreppa, þar sem skyldu vera að lágmarki 20 býli. Árið 1872 var komið á sambandi hreppa hverrar sýslu, sýslufélögum, undir stjórn sýslunefndar. Á sýslumann var bætt stjórnsýslu sýslunefndar, og hann varð oddviti hennar. Sýslunefnd hélt árlega fund til að vinna að málum. Sýslufundur stóð fáeina daga og jafnvel viku. Í sýslufélögunum voru 5 til 16 hreppsfélög. Hvert þeirra kaus mann í sýslunefnd. Samkvæmt fundargerðum voru mál svo til alltaf afgreidd einróma. Fundargerðirnar sögðu frá málum og samþykktum, en ekki ræðum. Fundirnir voru opnir almenningi.

               Enda þótt fundargerðir sýni einróma afgreiðslu mála, leiddi athugun í ljós, að menn hefði ekki alltaf verið á einu máli í upphafi. Fundurinn komst að niðurstöðu, og hver nefndarmaður fyrir sig stóð að henni með mismikilli ánægju, eins og gerist í fjölskyldu. Ýmis verkefni vöktu líf í hreppsfélögunum, eins og barnafræðsla, samgöngubætur, sameiginleg nýting landsgæða, m.a. afrétta, niðurjöfnun útsvars og menningarstarf eins og bókasafn og leikstarfsemi, en mannfjöldi var frá því innan við 100 upp í 400. Sýslunefndarmenn voru í slíkum félagsskap, sem hélt áfram, hvernig sem fór um einstakt mál í einstökum sýslunefndarfundi.

b) Bæjarfélög

Um miðja 19. öld var aðeins eitt bæjarfélag í landinu, höfuðstaðurinn Reykjavík. Smám saman myndaðist þéttbýli hér og þar. Það varð nánast sem regla, að þéttbýli var skilið út sem bæjarfélög utan sýslufélagsins, þegar mannfjöldinn þar var orðinn margfaldur mannfjöldi venjulegs sveitahrepps. Árið 1903 var mælt svo fyrir með lögum, að bæjarstjórn skyldi kosin með kosningu framboðslista, en áður hafði hver kjósandi lýst því á opnum kjörfundi, hverja hann kysi. Fyrstu áratugina var venjulegt, að sama nafn var á fleiri en einum lista. Menn buðu sig ekki fram til kjörs, menn voru boðnir fram til kjörs. Með myndun stjórnmálaflokka varð þetta sjaldnar. Árið 1936 var sett í lög, að maður mátti aðeins vera á einum lista, og árið 1962 var þess krafist, að maður hefði samþykkt að vera á framboðslista. Þetta fyrirkomulag á því að vera fulltrúi ýtti sýnilega undir það, að menn létu ágreining koma fram í atkvæðagreiðslu.

c) Alþingi

Alþingi íslendinga var endurreist árið 1845 sem ráðgjafarþing konungs í Kaupmannahöfn. Fyrst sátu þingið 26 með atkvæðisrétt, 20 þjóðkjörnir til fjögurra ára í senn í einmenningskjördæmum og 6 konungkjörnir. Þar til snemma á 20. öld var þing haldið annaðhvert ár í Reykjavík í júlí og ágúst. Verkefni þingsins var helst að fjalla um lög og reglur, sem konungsfulltrúi lagði fram. Þingmenn tjáðu álit sitt í afgreiðslu mála í nefndum, í nefndarálitum, með eigin tillögum og í ræðum og atkvæðagreiðslu á þingfundum. Þetta nema umræða í nefndum var birt, atkvæðagreiðsla hvers einstaks þá sjaldan var nafnakall. Alþingistíðindi voru send embættismönnum allt niður á hreppsstig og áskrifendum. Árið 1874 fekk alþingi takmarkað löggjafarvald og vald til að leggja á skatta og gjöld og veita fé. Tala fulltrúa varð 32. Þinginu var þá skipt í tvær deildir, önnur með 12, þar af 6 konungkjörnir, en þannig gátu þeir stöðvað mál. Flokkadrættir urðu á þingi í afstöðu til sambandsins við Danmörku, en það var fyrst árið 1904, þegar landið hafði fengið ráðherra með aðsetur í Reykjavík (ráðherrarnir urðu þrír ári 1916), að komst á þingræði með meirihluta, sem hafði kosið ráðherrann og ríkti. Það var upphaf flokka á þingi, og þeir þróuðust hægt með almennum flokksfélögum. Það varð til þess, að afstaða í málum og í ræðum fylgdi sjónarmiðum flokksins, og sá andi myndaðist í flokkunum að tala sama máli. Flokkarnir höfðu verið búnir til, þar var ekki svo, að þeir væru bara, eins og samfélag á landsbyggðinni, með eigin sögu og sjálf. Þingmaður utan flokka gat þurft að þola það að vera án stuðnings við eigin mál. Það varð hlutverk flokksins að vera eitthvað og halda því við og vera annað en aðrir flokkar og halda því við og vera um leið hluti af samsteypu, ef svo bar undir.

Að tjá álit í raðvali og sjóðvali

Maður tjáir sig í raðvali með því að raða því, sem lagt er fyrir. Álit í sjóðvali í einstöku máli sýnir mismikla áherslu á það, sem lagt er fyrir, og við túlkun á slíku áliti verður að taka tillit til sjóðvals í öðrum málum. Álit tjáð með þessum aðferðum svarar til tjáningar skoðana á sýslufundi. Gæti fjölmennari fundur fjallað um mál með þessum aðferðum, svo að menn myndu virða niðurstöður? Í raðvali mundu menn bera upp til samþykktar (já/nei) þá afstöðu, sem raðvalið hefði skilað flestum stigum. Í sjóðvali yrði það þannig, að einhvern tíma í meðferð máls yrði farið í sjóðval, og síðan, þegar málið teldist vera nokkuð vel mótað, yrði það borið undir atkvæði (já/nei). Þar sem um er að ræða skoðanakönnun, er ekki þörf á að breyta samþykktum vegna slíks fyrirkomulags. Með málsmeðferð af þessu tagi er minni ástæða til þess í flokksstarfi að leggja áherslu á einróma afstöðu. Færi þá svo, að flokkarnir mundu ekki þykja réttmætir og að tilvist þeirra yrði jafnvel ógnað? Eins má meta þingræðið.

Frambjóðandi valinn með leynd

Við kosningu getur aðdragandi framboðs ráðið miklu. Ég tek sem dæmi kosningu forseta Íslands árið 2016. Sumum fannst þá fyrir öllu að fá í stað þáverandi forseta andstæðing í stjórnmálum. Síðan 1979 hafði farið svo hvað eftir annað, þegar nálgaðist forsetakjör, að komið hafði fram hugmynd um rektor Háskóla Íslands sem frambjóðanda. Venjubundið rektorskjör árið 2015 gat því verið tækifæri með forsetaframboð árið 2016 í huga. Þannig hugsuðu ýmsir í Háskólanum, en þess skyldi gætt, að rektorsframboðið yrði ákveðið, án þess að kunnugt yrði, hverjir hefðu komið til greina. Sá, sem þannig var í framboði til rektors, náði ekki kjöri, en var samt nefndur í ársbyrjun 2016 sem hugsanlegur forsetaframbjóðandi, án þess reyndar að svo yrði. Val almennings var snemma takmarkað með einhverju móti. Ég bendi á, hvernig velja má meðal margra í raðvali.

Lokaorð

Í stuttu máli sagt greiðir raðval og sjóðval betur fyrir því en aðrar aðferðir, að álit manna í hvers konar félagsskap komi fram, og síðan finnst afstaða félagsskaparins á rökvísan hátt, þar sem hver einstök tjáning þátttakenda gildir með merkingu.