Sveitarstjórnarmönnum eru vel kunn vandræði sem vilja verða þegar kanna á afstöðu félagsskapar í máli og fleira en tvennt kemur til greina. Samt er til aðferð sem á við undir öllum kringumstæðum. Hún hefur verið rökrædd vel og lengi, en lítið reynd. Nú er verið að rannsaka af hálfu vísindaráðanna á Norðurlöndum hvort reynslan staðfesti það lof sem hún hefur hlotið.
Aðferðin er raðval. Hún hlaut prófraun sína hér á landi vorið 1994 í 10 sveitarfélögum á Snæfellsnesi og í Árnessýslu. Fyrst var hún reynd á Snæfellsnesi í 4 sveitarfélögum sem ákveðið hafði verið að sameina í eitt sveitarfélag og átti að velja því nafn. Lögð voru 5 nöfn fyrir almenning. Á atkvæðaseðlinum var kjósandanum leiðbeint að merkja það nafn sem honum leizt bezt á með tölunni 1 "og svo framvegis." Nánari leiðbeiningar voru tiltækar á kjörstað. Þátttaka í könnuninni sem fór fram laugardaginn 9. apríl var lítil. Aðferðinni hefur ekki verið kennt um það, svo kunnugt sé. Ekki hefur frétzt af vandkvæðum kjósenda vegna hennar.
Með tölvuforriti var unnið úr atkvæðaseðlunum sem voru 291 og tók það tvo tæpa klukkustund. Úrvinnslan felst í því að gefin eru stig. Litið er á hvern seðil sem skákmót þar sem allir tefla við alla og hver vinningur gefur 1 stig. Nafn meðal 5 nafna sem er merkt 1 hlýtur fjögur stig þar eð kjósandi lýsir því að hann telji það betra en 4 nöfn, nafn merkt 2 hlýtur 3 stig, en nafn merkt 5 hlýtur 0. Kjósandi sem gerir ekki upp á milli nafna öðru vísi en með því að merkja 1 við eitt þeirra færir því 4 stig, en hin fjögur nöfnin skipta með sér stigum 2., 3. og 4. sætis (það verða 3+2+1=6 deilt með 4 eða 1,5 stig á hvert nafn).
Aðferðin var notuð samhliða hreppsnefndarkosningum 28. maí í 6 hreppum í Árnessýslu til að kanna viðhorf til skipanar sveitarfélaga. Kostirnir sem kjósendur gátu raðað voru 6 í 3 hreppum, 7 í tveimur og 8 í einum hreppi. Aðferðin var kynnt fyrirfram. Ekki bar á neinum vandkvæðum kjósenda vegna hennar. Algengt var að kjósendur merktu aðeins einn kostinn. Það voru vitanlega helzt þeir sem vildu óbreytta skipan. Með þessu móti fékkst vitneskja um afstöðu til fleiri kosta samtímis. Hrepparnir lágu saman svo að kostirnir hlutu að verða líkir, en ekki eins. Í þessu tilviki skiptir máli hvort áhugi á nýrri skipan er gagnkvæmur í nágrannahreppum. Með könnuninni fékkst nokkur vitneskja um það. Það má þakka aðferðinni.
*
Rannsóknin hefur þjóðfélagsfræðilegt gildi, enda er hún á vegum samstarfsnefndar vísindaráðanna um þjóðfélagsrannsóknir. Það er nefnilega svo, að reglur um atkvæðagreiðslu móta meðferð mála og flokkadrætti. Ágreiningur vill verða skarpur þegar aðeins er tekið á tveimur kostum. Með raðvali með stigagjöf er vandkvæðalaust að fá rökrétta niðurstöðu þótt lögð séu 3 eða fleiri afbrigði fyrir og líklegt að ágreiningur verði ekki eins skarpur.
Ég vinn að rannsókninni og legg fúslega (og ókeypis) á ráðin um notkun raðvals. Rannsóknarefnið er hvaða áhrif raðval hefur á meðferð mála og hvort farið verður eftir niðurstöðu stigagjafarinnar við endanlega ályktun. Ég vil ekki aðeins fá tækifæri af því tagi sem hér segir frá, heldur vildi ég helzt fá nokkrar sveitarstjórnir og héraðsnefndir til að gera aðferðina að reglu við meðferð mála. Þá hugsa ég mér að mál verði lögð fyrir á þennan hátt, en lokaafgreiðsla verði með hefðbundnum hætti. Þeir sem vilja ræða málið ættu endilega að hafa samband við mig í Tæknigarði Háskóla Íslands í Reykjavík (sími 69 48 17).
Sveitarstjórnarmálum 54 (1994) 168