Stjórnir 14 búnaðarsambanda hafa undanfarið tekið þátt í skoðanakönnunum, sem gerist með sérstakri atkvæðagreiðsluaðferð. Henni er þannig háttað, að þátttakandi getur látið koma fram, hversu mikið kapp hann leggur á það, sem spurt er um. Þátttakandi getur ekki beitt sér í öllum málum, hann verður að gera það upp við sig við hvert mál, sem er til afgreiðslu, hversu mikið hann vill leggja af mörkum af takmörkuðum rétti til áhrifa.

Tilraun þessi er liður í rannsókn á vegum vísindaráðanna á Norðurlöndum. Tilgangurinn er að rannsaka atkvæðagreiðsluaðferðir, sem í bókum hafa verið taldar um sumt fremri því, sem menn hafa átt að venjast.

Þannig er staðið að, að búnaðarsamböndin fá í sjóð atkvæði í hlutfalli við félagsmannatölu. Áður en fyrsta málið var tekið fyrir, fengu þau 12 atkvæði fyrir hvert hundrað félagsmanna (0,12 fyrir hvern félagsmann), en síðan 3 atkvæði á hvert hundrað félagsmanna, þegar nýtt mál er tekið fyrir. Málin vel ég með því að athuga hvaða málum hefur ekki tekist að ljúka á vegum samtaka bænda og með því að leita uppi ný mál, sem mönnum sýnist ástæða til að kanna viðhorf til. Vitaskuld sneiði ég hjá málum, sem eru á lokastigi á vegum bændasamtakanna. Búnaðarsamböndin fá að vita um tvö næstu mál á eftir því, sem er til afgreiðslu. Þannig fá menn nokkra hugmynd um mikilvægi þess máls, sem verið er að greiða atkvæði um, miðað við þau mál, sem eru framundan.

Til að skýra hvernig staðið er að, lýsi ég öðru málinu, sem greidd voru atkvæði um. Fyrsta þing hinna sameinuðu bændasamtaka ályktaði, að endurskoða bæri samþykktir þeirra, en þær fjalla meðal annars um skipan búnaðarþings. Mér fannst því mega kanna nokkrar hugmyndir um skipan búnaðarþings.

Afbrigðin, sem lögð voru fyrir búnaðarsamböndin voru þessi:

1. Sama skipan og samið var um við sameiningu Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda. Þingið kýs stjórn samtakanna.

2. Sama skipan og samið var um við sameininguna. Stjórn samtakanna kosin beinni kosningu bænda.

3. Þingið skipað fulltrúum búnaðarsambanda. Það kýs stjórn samtakanna.

4. Þingið skipað fulltrúum búnaðarsambanda. Stjórn samtakanna kosin beinni kosningu bænda.

5. Þingið skipað fulltrúum búgreinafélaga. Það kýs stjórn samtakanna.

6. Þingið skipað fulltrúum búgreinafélaga. Stjórn samtakanna kosin beinni kosningu bænda.

7. Þingið skipað fulltrúum búnaðarsambanda og búgreinafélaga, nokkurn veginn til helminga. Það kýs stjórn samtakanna.

8. Þingið skipað fulltrúum búnaðarsambanda og búgreinafélaga, nokkurn veginn til helminga. Stjórn samtakanna kosin beinni kosningu bænda.

9. Þingið skipað fulltrúum búnaðarsambanda og afurðastöðva (búgreinafélaga greinum þar sem ekki eru almennar afurðastöðvar), nokkurn veginn til helminga. Það kýs stjórn samtakanna.

10. Þingið skipað fulltrúum búnaðarsambanda og afurðastöðva (búgreinafélaga í greinum þar sem ekki eru almennar afurðastöðvar), nokkurn veginn til helminga. Stjórn samtakanna kosin beinni kosningu bænda.

 Sem dæmi um viðbrögðin sýni ég atkvæðatölur frá einu búnaðarsambandi. Það átti í sjóði 44,25 atkvæði. Það bauð fyrir A 42,5 atkvæði, fyrir C 40, fyrir G 38,5, fyrir E 36, B 18, D 16, H 8, F 6, I 4 og fyrir J 2. - Vitaskuld verða atkvæðaboð hvers og eins að vera leynileg, þar til atkvæðagreiðslu er lokið.

Eins og sjá má, gafst þarna tækifæri til atbeina að tveimur afbrigðum eða fleirum, sem búnaðarsambandið mat mjög líkt (A, C, G, E).

Aðeins þeir, sem stóðu að sigrinum, eru dregnir um atkvæði, en þó ekki endilega allt, sem þeir buðu. Það væri til að mynda ekki sanngjarnt, ef allir styðja sömu niðurstöðu, að draga menn um atkvæði fyrir það, sem þykir sjálfsagt mál og ekki þarf neinn atbeina til. Sigurvegararnir eru dregnir um atkvæðatölu, sem svarar til þeirrar andstöðu, sem sigurinn mætti, eða öllu heldur þess stuðnings, sem önnur afbrigði fengu. Einfalt dæmi um atkvæðagreiðslu með aðeins tveimur afbrigðum: A fékk 20 atkvæði og B 10 atkvæði. Sigurinn kostar helming þess, sem boðið var fyrir afbrigðið, þar sem 10 eru helmingur af 20. Þátttakandi, sem átti 4 atkvæði á A, er dreginn fyrir það um 2 atkvæði.

Atbeini búnaðarsambandsins hér að framan kostaði það aðeins 0,6 atkvæði, enda var atbeini þess að sigrinum aðeins 2,5 atkvæði umfram atkvæðaboð þess á það afbrigði, sem fékk næst flest atkvæði. Þetta er ekki flókin stærðfræði, en nokkurt staut, sem komist verður hjá með tölvureikniforriti, sem Halldór Árnason í Háskólanum á Akureyri samdi (áður ráðunautur Búnaðarfélags Íslands).

Þarna verður jafnvægi af sérstöku tagi. Sigurvegararnir eru dregnir um atkvæði og hafa þar með skert tækifæri til áhrifa í síðari málum, en þeir, sem verða undir, verða að þola það, en hafa hins vegar óskert tækifæri til áhrifa með atkvæðum sínum í síðari málum. Því má halda fram, að það jafnvægi, sem þannig næst reikningslega, sé skylt því, sem gerist í góðum félagsskap, þar sem það kann að skiptast á, hver fær vilja sinn, en því haldið í hófi að gera gegn vilja þess, sem leggur kapp á málstað sinn.

Þessi vinnubrögð gefa tækifæri til að standa fast á sérstökum málstað, en innan þess ramma, sem takmörkuð sjóðseign skapar. Niðurstaðan getur auðveldlega orðið sú, að þeir, sem eru fjarstir um það, sem þeir helst vilja, standi saman að sigri afbrigðis, sem þeim þykir hvorum um sig skárra en það, sem hinn vill helst.

 

Upprunalegur tilgangur með aðferðinni

Sjóðsatkvæði voru upphaflega hugsuð sem ráð til þess að fámennur félagsskapur, t. a. m. sveitarfélag, sem gengur upp í stærri heild, ætti ekki á hættu að verða undir í öllum málum. Með sjóðsatkvæðum á hann að geta notið ávinnings af þátttöku í öflugri félagsskap, lagað ályktanir hans og ákvarðanir að sjónarmiðum sínum og hagsmunum og jafnvel, ef það varðar hann miklu, ráðið, þegar viðhorfin eru mjög ólík. 

Fleira virðist hljótast af aðferðinni. Forstaða félagsskapar fær tækifæri til að meta viðbrögð við ýmsum afbrigðum í máli. Mál verður þá ekki lagt fyrir eins og nú vill verða sem eitt úrræði sem forstaðan verður að standa eða falla með. Almenningur fær tölulega vitnesku um atbeina einstakra þátttakenda í hverju máli; hún birtist í atkvæðatilboðum þeirra. Þannig verður skýrara hver ber ábyrgð í hverju máli. Skýrari ábyrgð verður hvatning til þátttöku í félagsmálum. Enginn verður hunsaður til lengdar og ekki er ástæða fyrir neinn að vera til lengdar ábyrgðarlaus gagnrýnandi í minnihluta.

Bændablaðinu 29. nóvember 1995