Sett hefur verið á dagskrá Alþingis sú hugmynd, að kjör forseta Íslands verði háð því, að frambjóðandi fái meirihluta atkvæða, og skuli, ef enginn frambjóðandi nær því, kjósa um þá tvo, sem flest atkvæði fengu í upphafi. Með því eigi að tryggja, að meirihluti þjóðarinnar standi á bak við forsetann.
Þegar kosið var árið 1980 um fjóra frambjóðendur og forseti var kosinn með þriðjung atkvæða á bak við sig, sögðu úrslitin vitaskuld ekki, að tveir þriðju hlutar kjósenda væru á móti honum. Kosningin sýndi hver var fremstur - meðal jafningja mætti segja. Fer ekki vel á því? Ef kosning er endurtekin, eins og lagt er til, getur seinni umferð skerpt andstöðuna við þann sem sigrar og orðið til þess að allt að því helmingur kjósenda hafi lýst sig andvígan honum.
Fyrirkomulagið getur einnig leitt til þess, að í upphafi kjósa menn ekki þann, sem þeim þykir bestur, heldur þann, sem þeir vilja tryggja, að komist í seinni umferð. Tjáningarfrelsið er skert með þessu móti. Svo er reyndar einnig, eins og kosið er hér á landi. Rökin fyrir stuðningi við frambjóðanda verða gjarna þau að vara fólk við að kasta atkvæði sínu.
Frá því segir í dagblöðum, að konur nokkrar nafngreindar séu að leita uppi heppilega konu til að tefla fram til forseta. Til þess að tryggja kjör konu skuli forðast, skilst manni, að fleiri konur verði í framboði. Þeir, sem vilja gæta þess sjónarmiðs, að næsti forseti Íslands verði karlmaður, hljóta líka að sjá því máli best borgið með því, að aðeins einn karl verði í kjöri. Kosningafyrirkomulagið leiðir til þess, að þröngur hópur kemst í aðstöðu til að þrengja mjög val almennings, áður en til kosninga kemur. Til er fyrirkomulag, sem er þannig, að það spillti ekki kvenhyggjumegin, þótt tvær eða þrjár konur væru í framboði, og sömuleiðis spillti það ekki líkum á, að karl næði kjöri, þótt þeir yrðu tveir eða þrír í framboði.
Ýmsar hugmyndir eru um öðru vísi aðferðir við kosningar. Oft er um að ræða röðun með stigagjöf. Aðeins ein slík aðferð er til, sem á við undir öllum kringumstæðum og hugsun er á bak við stigagjöfina. Aðferðin á sér langa sögu í fræðunum um kosningar, hún markar raunar upphaf fræðanna. Frakkinn Borda setti hana fram árið 1770. Hún var tekin í notkun í vísindafélagi frakka nokkru síðar, en Napóleon fékk hana afnumda þar. Hún hentar ekki einræðissinnuðum manni né þröngum hóp, sem er í aðstöðu til að velja það, sem almenningur má velja um.
Frumhugsun Borda, sem týndist reyndar í tvær aldir, var að líta á hverja einstaka röð sem úrslit keppni milli allra. Í röðinni ABC telst A betri en B og A betri en C og fær fyrir tvö stig og B telst betra en C og fær eitt stig. Önnur röð (annar atkvæðaseðill) með röðinni CAB skilar tveimur stigum til C og einu til A.
Lengstum hafa fræðimenn látið við það sitja að grufla yfir merkilegum hugmyndum, en látið vera að reyna þær. Það bar því til tíðinda í þessum fræðum, að skipulega hefur verið gengið í það á norrænum rannsóknavettvangi að fá reyndar óvenjulegar og merkilegar atkvæðagreiðsluaðferðir. Við þetta hef ég unnið undanfarið.
Aðferð Borda, raðval, var notuð meðal almennings í skoðanakönnunum vorið 1994. Á Snæfellsnesi var leitað álits almennings í fjórum sveitarfélögum á nafni á sameinuðu sveitarfélagi. Sveitarstjórnarmenn röðuðu fyrst sín á meðal þeim 190 hugmyndum, sem komu fram, og gáfu fólki kost á að raða þeim fimm nöfnum, sem urðu efst hjá þeim. Frjálst var, hvort menn röðuðu öllum eða til að mynda einu nafni á undan hinum saman eða einu efst og einu neðst. Þrjú nöfn hlutu álíka mörg stig, en eitt þeirra hafði þá sérstöðu að vera ýmist í efsta eða neðsta sætinu.
Aðferðin var notuð í sex hreppum Árnessýslu við skoðanakönnun, sem fram fór samhliða hreppsnefndarkosningum í maí 1994. Spurt var hvort menn vildu hrepp sinn óbreyttan, samruna við nágrannasveitarfélög eitt eða fleiri, verulega sameiningu (efri og neðri hluti sýslunnar) eða að Árnessýsla öll yrði sveitarfélag.
Ekki varð vart við nein vandræði meðal kjósenda, þótt seðillinn væri óvenjulegur. Tölvuforrit auðveldaði stigagjöf.
Með þessari aðferð spilla samherjar ekki hver fyrir öðrum, þótt þeir tefli fram hver sinni óskatillögu. Ef málið er að fá konu kjörna, geta þeir, sem hafa það sjónarmið, raðað þeim konum, sem fram eru bornar, á undan körlunum. Það spillir ekki því markmiði, þótt tvær konur eða þrjár komi fram. Með raðvali verður aðdragandi kosninga frjálslegri en menn eiga að venjast.
Morgunblaðinu 7. desember 1995