Í grein í Sveitarstjórnarmálum 3. tbl. 1994 lýsti ég raðvali, aðferð til að kanna skoðanir og greiða atkvæði. Hún hefur það sér til ágætis að það truflar ekki þótt fleiri en tveir kostir séu í málinu. Hins vegar geta menn ekki tjáð með henni neitt um mikilvægi málsins. Maður getur ekki sagt til um það hvort maður telji það afbrigði sem maður kýs helst miklu betra en næsta afbrigði eða nokkuð líkt. Þá getur maður ekki lýst því hvort maður lætur sig miklu varða það mál sem er til afgreiðslu eða er áhugalítill. Hér verður sagt frá aðferð sem hefur slíka eiginleika. Verið er að reyna hana. Þær tilraunir eru þáttur í sama rannsóknarverkefni og raðval, og eru, eins og getið var um í áðurnefndri grein, á vegum vísindaráðanna á Norðurlöndum.

Hér skal aðferðinni, atkvæðamarkaði, lýst, sagt frá fyrstu reynslu sem fengist hefur í búnaðarsamböndum landsins og athugað hvernig hún megi nýtast á vettvangi sveitarstjórna.

 

Eiginleikar atkvæðamarkaðar

 

Dreifing áhrifa í mannlegu félagi

Í mannlegu félagi þykir gott að hver fái að ráða því sem hann lætur sig helst varða. Fyrr eða síðar hljóta að koma upp þau mál að sjónarmið rekist á. Með atkvæðamarkaði eiga mál til lengdar að ráðast þannig að jafnvægi verði í áhrifum, fyrst þannig að hver ráði því sem hann lætur sig helst varða og svo þannig að í ágreiningsmálum fari ýmist hver ræður niðurstöðu.

 

Fyrirkomulagið

 • Í hendi hvers eru atkvæði sem berast í reikning hans eins og jafn tekjustraumur, t. d. eitt á dag.
 • Hver og einn býður fram mismörg atkvæði í máli eftir mál, mörg á mál sem hann telur brýnt, ekkert í máli sem hann lætur sig engu varða.
 • Í einstöku máli geta verið fleiri eða færri afbrigði. Málsaðili raðar þeim í samræmi við áhuga sinn. Hann metur fyrst hversu mörg atkvæði hann vill bjóða fyrir það afbrigði sem hann kýs helst. Síðan býður hann atkvæði á afbrigðin í lækkandi röð niður í ekkert atkvæði á neðsta afbrigðið.
 • Það afbrigði sem fær flest atkvæði sigrar.
 • Þeir sem stóðu að sigrinum greiða fyrir jafnmörg atkvæði og andstæðingar þess afbrigðis buðu. Mál sem allir fagna kostar því ekki neitt atkvæði.

 

Einkenni íhlutunar með markaðsatkvæðum

 • Ef mál hefur vakið andstöðu standa þeir sem unnu eftir með færri atkvæði en áður. Þeir sem urðu undir geta betur sætt sig við að mál þeim andstætt hafi náð fram að ganga, þar sem þeir eru betur settir eftir í atkvæðaeign miðað við þá sem unnu málið. Til lengdar má ætla að jafnvægi náist.
 • Það borgar sig, talið í atkvæðum, að leita slíkrar lausnar í máli sem vekur litla andstöðu.
 • Það borgar sig að sýna sanngirni í mótun máls og atkvæðagreiðslu, þar sem ætla má að það veki sanngjarnan hug og að slík framganga skili sér í minni atkvæðakostnaði.
 • Sérstaða sem aðrir hafa á móti kostaratkvæði (nái hún fram að ganga). Tillögur um samræmingu má hafa misjafnlega einstrengingslegar - atkvæðagreiðslan leiðir í ljós misjafnan stuðning.

 

Fyrsta reynslan

Markaðsatkvæðum er nú beitt við að kanna skoðanir stjórna búnaðarsambandanna í landinu til ýmissa mála. Búnaðarsamböndin eru héraðssambönd búnaðarfélaga hreppanna, 15 talsins. Það fjölmennasta er meira en tífalt fjölmennara en fjögur þau fámennustu. Þannig er staðið að verki að ég móta mál sem samtökum bænda hefur ekki tekist að ljúka og legg þau fyrir til atkvæðagreiðslu. Búnaðarsamböndin hafa ekki verið sameiginlegur vettvangur til að fjalla um mál til ályktunar. Því varð það að vera hlutverk mitt að setja mál á dagskrá. Ég hlýt auðvitað að móta þau með þeim afbrigðum sem helst þykja koma til greina. Miðað var við að mál yrðu afgreidd á þriggja mánaða fresti og að hvert búnaðarsamband fengi í tekjur eitt atkvæði á hvert hundrað félagsmanna á mánuði. Ástæður stjórnarmanna búnaðarsambandanna til að koma saman á fund eru mjög háðar búverkum og árstíðum. Stjórnarfundir frestuðust sums staðar lengi í vetur sem leið vegna ófærðar. Því reyndist heppilegra að miða atkvæðatekjurnar við hvert mál, þannig að búnaðarsamböndin fá í reikning sinn vegna hvers máls sem tekið er til afgreiðslu 3 atkvæði á hvert hundrað félagsmanna. Búnaðarsamband með 102 félagsmenn fær því 3,06 atkvæði. Nú kann fyrsta mál sem tekið er fyrir að vera þannig vaxið að sumir láta sig það miklu varða. Til þess að geta látið slíka áherslu koma fram þegar í fyrsta málinu fá búnaðarsamböndin í upphafi 12 atkvæði á hvert hundrað félagsmanna. Til þess að menn geti metið vægi þess máls sem er til afgreiðslu er búið að kynna þau tvö mál sem á eftir koma.

Málið sem er til afgreiðslu þegar þetta er samið er skipan þings hinna nýju bændasamtaka. Miðað er við að atkvæðagreiðslu ljúki fyrir vorannir. Til að skýra kosti aðferðarinnar lýsi ég afbrigðum málsins:

 

Tillögur um skipan búnaðarþings

 1. Sama skipan og samið var um við sameiningu Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda. Þingið kýs stjórn samtakanna.
 2. Sama skipan og samið var um við sameininguna. Stjórn samtakanna kosin beinni kosningu bænda.
 3. Þingið skipað fulltrúum búnaðarsambanda. Það kýs stjórn samtakanna.
 4. Þingið skipað fulltrúum búnaðarsambanda. Stjórn samtakanna kosin beinni kosningu bænda.
 5. Þingið skipað fulltrúum búgreinafélaga. Það kýs stjórn samtakanna.
 6. Þingið skipað fulltrúum búgreinafélaga. Stjórn samtakanna kosin beinni kosningu bænda.
 7. Þingið skipað fulltrúum búnaðarsambanda og búgreinafélaga, nokkurn veginn til helminga. Það kýs stjórn samtakanna.
 8. Þingið skipað fulltrúum búnaðarsambanda og búgreinafélaga, nokkurn veginn til helminga. Stjórn samtakanna kosin beinni kosningu bænda.
 9. Þingið skipað fulltrúum búnaðarsambanda og afurðastöðva (búgreinafélaga greinum þar sem ekki eru almennar afurðastöðvar), nokkurn veginn til helminga. Það kýs stjórn samtakanna.
 10. Þingið skipað fulltrúum búnaðarsambanda og afurðastöðva (búgreinafélaga í greinum þar sem ekki eru almennar afurðastöðvar), nokkurn veginn til helminga. Stjórn samtakanna kosin beinni kosningu bænda.
  Þarna gefst mönnum kostur á að tjá býsna margt í einu, eins og sýnt verður með dæmi af búnaðarsambandi sem á 20 atkvæði í sjóði. Það metur afbrigði A mest og býður á það 8 atkvæði. Þar næst kemur afbrigði B sem það metur á 7 atkvæði og síðan afbrigði D á 6 atkvæði, en hin á enn færri atkvæði. Kostnaður búnaðarsambandsins, ef A fær mest fylgi, getur aldrei orðið meira en 8 atkvæði. Þess vegna er ástæðulaust að leggja saman atkvæði sem boðin eru á einstök afbrigði.

Skiljanlega hentar ekki að nota markaðsatkvæði á fundi eða þingi þar sem mál eru afgreidd hratt hvert á fætur öðru, heldur á aðferðin við til að móta mál þegar svigrúm er til að meta vægi þess miðað við þau mál sem menn eiga von á að komi fram á næstunni.

 

Aðferð til skoðanakönnunar í hendi hreppsnefndar

Markaðsatkvæði virðast henta á vettvangi sveitarstjórna. Hreppsnefnd nokkur hefur hug á að nota markaðsatkvæði til að kanna á víðari vettvangi viðbrögð við ólíkum úrræðum í málum áður en hún ályktar og ákveður sig. Hreppsnefndin hlýtur að ráða því hvaða mál hún leggur fyrir. Við síðustu hreppsnefndarkosningar voru boðnir fram 3 listar með 7 aðalmönnum á hverjum. Hugmyndin er að þessir 21 verði vettvangurinn sem hreppsnefnd snýr málinu til og að þeir fái hver fyrir sig atkvæði í hlutfalli við atkvæðatölu lista síns. Æskilegt er að mál sem þannig yrðu lögð fyrir yrðu tvö að hausti og tvö að vori. Það er trúlega mjög misjafnt eftir sveitarfélögum hvernig mál koma til greina.

 

Í starfi samtaka sveitarfélaga

Samtök sveitarfélaga þurfa iðulega að gera upp á milli úrræða sem varða sveitarfélögin. Ætla má að þar geti markaðsatkvæði átt við til að komast að þeirri niðurstöðu sem menn geti best sætt sig við. Þá sýnist eiga við að vinna verkið fyrst á vegum kunnáttumanna, svo sem í heilbrigðismálum, fræðslumálum og umhverfismálum. Kunnáttumennirnir fengju það hlutverk að leggja fram kosti í hverju máli sem síðan yrðu lagðir fyrir sveitarfélögin. Þetta má skýra frekar.

Heilbrigðismálaráð starfa á vettvangi læknishéraða. Dæmi um það er heilbirgðismálaráð Norðurlandshéraðs eystra. Þau eru skipuð fulltrúum stofnana. Taka mætti upp mál þar sem heilbrigðismálaráðið vildi tengja saman framkvæmdir og raða þeim. Þar er margt sem togast á og slík mál eru stöðugt í endurskoðun. Skipan skólamála hlýtur að koma til endurskoðunar á næstunni. Það má ætla að gerist á vegum samtaka sveitarfélaga. Hér er að vísu ekki um að ræða samtök sem ákveða margt á þessum sviðum, en rökstutt álit þeirra kann að varða miklu. Með markaðsatkvæðum gefst tækifæri til rökstuðnings sem felst í því að sýna hversu mikill þungi er lagður á úrræðin sem til greina koma og þarf að gera upp á milli. Þá má nefna umhverfismál sem vel getur átt við að taka sameiginlegum tökum. Vinnubrögðin yrðu þá að stjórn samtakanna setur niður fyrir sér viðeigandi mál, lætur kunnáttumenn útfæra afbrigði í hverju máli og leggur afbrigðin fyrir sveitarfélögin, en þau fá atkvæði til umráða í hlutfalli við íbúafjölda.

 

Hver verður í meirihluta?

Hugsum okkur mál sem er þannig vaxið að togast á sjónarmið þeirra sveitarfélaga sem eru fólksflest og þeirra sem eru fámenn. Þrjú afbrigði koma til greina, eitt í þágu fjölmennisins, annað í þágu strjálbýlisins og þriðja afbrigðið þar á milli. Atkvæði eru boðin í samræmi við þetta. Niðurstaðan getur orðið sú að flest atkvæði bjóðist á þriðja afbrigðið sem hvor hlutinn setur á næstflest atkvæði. Þá verður ekki sagt hvor var í meirihluta. Líka getur farið svo að afbrigðið sem fjölmennið mat hæst með atkvæðum sínum hljóti flest atkvæði. Það verður til þess að fámennið verður að þola niðurstöðu gegn vilja sínum, en hefur óskerta atkvæðatölu og því betri ástæður í næstu málum til að fylgja málstað sínum eftir. Fjölmennið fékk það sem það vildi, en skerðist um atkvæði sem svarar til stuðnings fámennisins við eiginn málstað.

 

Upprunalegur tilgangur með aðferðinni

Markaðsatkvæði voru upphaflega hugsuð sem ráð til þess að fámennur félagsskapur, t. a.m. sveitarfélag, sem gengur upp í stærri heild, ætti ekki á hættu að verða undir í öllum málum. Með markaðsatkvæðum á hann að geta notið ávinnings af þátttöku í öflugri félagsskap, lagað ályktanir hans og ákvarðanir að sjónarmiðum sínum og hagsmunum og jafnvel, ef það varðar hann miklu, ráðið þegar viðhorfin eru mjög ólík.

Fleira virðist hljótast af aðferðinni. Forstaða félagsskapar fær tækifæri til að meta viðbrögð við ýmsum afbrigðum í máli. Mál verður þá ekki lagt fyrir eins og nú vill verða sem eitt úrræði sem forstaðan verður að standa eða falla með. Almenningur færi tölulega vitnesku um atbeina einstakra þátttakenda í hverju máli; hún birtist í atkvæðatilboðum þeirra. Þannig verður skýrara hver ber ábyrgð í hverju máli. Skýrari ábyrgð verður hvatning til þátttöku í félagsmálum. Enginn verður hunsaður til lengdar og ekki er ástæða fyrir neinn að vera til lengdar ábyrgðarlaus gagnrýnandi í minnihluta.

Rannsókn mín er fólgin í því að athuga hvort framangreindar hugmyndir um eiginleika atkvæðamarkaðar standist í reynd. Óhætt er að fullyrða að rannsóknarefnið er það sem fremst er gert í framþróun lýðræðisskipulagsins.

Sveitarstjórnarmálum 55 (1995) 2 111-13