Ég skýrði frá því hér í blaðinu 29. nóvember sl. (Atkvæðagreiðsla um misþung mál), að stjórnir 14 búnaðarsambanda tækju þátt í tilraun með aðferð við atkvæðagreiðslu. Ólíkt því, sem tíðkast, þar sem atkvæði manns segir aðeins, hvort hann er með eða móti málinu, geta menn með þeirri aðferð, sem verið er að reyna, sýnt hversu mikið kapp þeir leggja hver og einn á málið og einstök afbrigði þess. Fjórðu atkvæðagreiðslunni lauk nú á dögunum. Stjórnir búnaðarsambandanna eru því farnar að kunna á þetta nýmæli. Hingað til hef ég ákveðið, hvaða mál væru tekin þannig fyrir, en nú verður sú breyting á, að þrír bændur, sem hafa kynnst málinu sem formenn búnaðarsambandsstjórna, hafa tekið að sér að ákveða það. Næsta mál, sem ætla má, að borið verði undir atkvæði með þessum hætti, er aðsetur tilrauna í nautgriparækt. Málið er þegar mótað í fimm afbrigðum. Þá hefur komið til tals að taka upp spurninguna um innflutning á kúakyni, en málið er ekki mótað.
Bændablaðinu 25. júní 1996