Í Reykjavík er ekki eins og eigi að kjósa borgarstjórn, heldur borgarstjóra, og aðeins einn sé í boði. Í sögu Reykjavíkurborgar hefur verið unnið að málum með samþykki almennings þangað til á því kjörtímabili, sem nú endar, að margt mikilvægt hefur verið gert í stríði við almenning, í einstökum hverfum og í allri borginni. Aðalskipulag var unnið í samráði, ekki við almenning, heldur bak við tjöldin, og birtist svo frágengið. Síðan voru búnar til deiliskipulagshugmyndir um hverfi borgarinnar. Þær voru ekki útbærar almenningi, þegar eftir var leitað, og síðar felldar af þeim, sem lögðu þær til, þegar ljóst var nú rétt fyrir kosningar, að þær mæltust illa fyrir, en þær eru vitaskuld tiltækar.

 


Þá tekur í hnúkana, að eina borgarstjóraefnið, og mælist með álitlegt fylgi, skuli eiga að baki þrotlaust starf að mikilvægum málum þvert gegn útbreiddu áliti borgarbúa. Því er lýðræðisbúið í borginni komið í þrot. Hugmynd Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur um almenna atkvæðagreiðslu um mosku við aðalbrautina inn í borgina ásamt frekari útfærslu hennar og samherja hennar um almenningsþátttöku breytir borgarstjórnarkosningunum í kosningu um grundvallarmálefni, en ekki kosningu um einn mann, enda yrðu borgarstjóraefnin þá tvö. Það lofar góðu, að þær stallsystur Sveinbjargar halda fram vinnubrögðum, en tjá sig ekki um moskustæðið, vilja láta afstöðu almennings ráða þar.

Málið er vel til fundið. Lengi hefur verið ljóst, að mörgum borgarbúum líst ekki á að hafa mosku við Miklubraut. Málið, sem listi Sveinbjargar kennir sig við, auk þess að vera Framsóknarlisti, flugvöllurinn, varðar ekki aðeins allar flugsamgöngur, þar á meðal millilandaflugið, heldur allt skipulag borgarinnar.

Aðalskipulagið er hugsað rangt frá upphafi. Hugsunin á að vera út frá þungamiðju borgarinnar og nágrennis, sem er ekki langt frá Mjódd, en ekki að hlaða mannvirkjum í gömlu þungamiðjuna, sem er orðin afskekkt, og í Vatnsmýrina og nágrenni. Endurgerð aðalskipulagsins yrði spennandi verkefni undir nýrri forystu í borginni.

Þegar konur áttu fyrst kost á setu í bæjarstjórn Reykjavíkur, árið 1908, buðu fjórar konur sig fram á lista og náðu allar kjöri. Það yrði efnileg þungamiðja í borgarstjórninni að hafa þar þær fjórar, sem eru efstar á lista Sveinbjargar.

Morgunblaðinu 30. maí 2014: 25