Sjóðval er viðhaft til að nefndin verði samvalið lið.
Stjórnin er fimm manna. Kosningin hefst á því, að fráfarandi stjórn, ABCDE, leggur fram tillögu, með sömu mönnum að mestu, nefnilega ABCEF. Uppi eru ýmsar skoðanir, menn eru vitaskuld í misjöfnu áliti, og hugmyndir eru um að hafa í stjórninni konur, karla, unga, gamla, reynda og óreynda. Fram koma fleiri tillögur, fyrst tillagan ABCEG. Hún fær fleiri stig en tillaga stjórnar. Þá kemur tillaga um H í stað G, en hún fær færri stig. Þá kemur tillagan GH í stað EG, og svona heldur áfram. Þegar fundarstjórn telur nóg reynt, ber hún undir atkvæði þá samsetningu, sem komin er, þar sem fundarmenn segja já, nei eða sitja hjá. Ef samsetningunni er hafnað, heldur sjóðval áfram, þar til þykir fullreynt, og aftur er gengið til atkvæða.

Maður áhugasamur um sjóðval gerði þá athugasemd við ofanritað, að framkvæmdin sýnist tímafrek. Þá er á það að líta, hversu tímafrekt það getur verið að velja saman lið með hefðbundum aðferðum. Þá þarf að fá stuðning við einstök atriði og heildina og gjarna líka kynna, hvernig að var staðið. Sjóðval er árétting á því, sem vakir fyrir mönnum um liðsheildina og áherslur, það færir það í talnabúning og leiðir í ljós niðurstöðu, sem er háð reglum sjóðvals. Kynning á sjónarmiðum og áherslum birtist í bókhaldi sjóðvals, enda þótt það segi ekki endilega alla söguna.

Almennt um þetta efni sjá athugasemdina ,Hvað er flóknast?’ í grein III.E.3, Fyrirtæki, stofnanir og hagsmunasamtök, í Lýðræði með raðvali og sjóðvali.